Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
30.10.2010 | 12:23
Yfirlýsing frá Blindrafélaginu vegna bréfs bæjarstjóra Kópavogs í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra.
Í bréfi dagsettu 29. október 2010 sem bæjarstjóri Kópavogs sendi formanni Blindrafélagsins er haldið uppi málsvörnum fyrir málstað Kópavogsbæjar í deilunni við Blindrafélagið um ferðaþjónustuúrræði fyrir lögblinda Kópavogsbúa.
Inntakið í bréfinu er að Blindrafélagið sé að fara fram á meiri þjónustu fyrir blinda en öðrum fötluðum stendur til boða og að þau ferðaþjónustuúrræði sem Kópavogsbær bíður blindum, sem og öðrum fötluðum, sé í samræmi við lög. Þessu hafi verið svarað og því hafi erindum Blindrafélagsins verið sinnt, þvert á það sem Blindrafélagið heldur fram.
Blindrafélagið vill í þessu sambandi ítreka eftirfarandi:
- Það er rétt að Blindrafélagið er að fara fram á ferðaþjónustu sem hefur hærra þjónustustig en núverandi ferðaþjónusta fatlaðra býður upp á.
- Ástæðan er sú að Blindrafélagið álítur að núverandi ferðaþjónusta fatlaðra á vegum Kópavogsbæjar uppfylli ekki markmið 35 greinar laga um Málefni fatlaðra frá 1992 og ákvæði 20 greinar í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Samkvæmt lögum og mannréttindasamningum á Ferðaþjónusta við fatlaða að uppfylla tilteknar þarfir einstaklinga en ekki einhverja óskilgreinda meðalþörf hópa.
- Blindrafélagið hefur í tvígang óskaði eftir efnislegum viðræðum við Kópavogsbæ um þessi atriði. Bæði við fyrri meirihluta og þann sem nú situr. Ósk félagsins um viðræður hefur nú verið hafnað í tvígang.
- Blindrafélagið eru hagsmunasamtök blindra og sjónskertra og berjast fyrir þeirra hagsmunum. Félagið hefur ekki rétt á að gera sambærilegar kröfur fyrir aðrar notendur Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi.
- Ljóst er á öllum viðbrögðum frá bæði núverandi og fyrrverandi forustumönnum Kópavogsbæjar að það er enginn vilji til að finna lausn á þessu máli í samstarfi við Blindrafélagið. Þrátt fyrir skjalfest fyrirheit um hið gangstæði í kosningabaráttunni.
- Blindrafélagið mun ekki skirrast undan þeirri ábyrgð sinni að verja mannréttindi félagsmanna sinni, hvort sem er í Kópavogi eða annars staðar.
- Félagið mun beita þeim lögformlegu leiðum sem færar eru til að fá úr því skorið hvort að þau ferðaþjónustuúrræði sem Kópavogur bíður fötluðum einstaklingum uppá uppfylli markmið laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að.
Skýringarefni:
Úr lögum nr 52 frá 1992 um málefni fatlaðra er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða:
35. gr.Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.-4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega."
Úr lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Blindrafélagið segir um þessa lagagrein:
"Samkvæmt orðanna hljóðan leggur ákvæðið á sveitarfélög ákveðnar athafnaskyldur. Verða þau af þeim sökum skuldbundin til að veita fötluðum kost á ferðaþjónustu sem hefur það að markmiði að gera ákveðnum hóp fatlaðra1 kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Ákvæðið er fortakslaust og ekki er til að dreifa ákvæðum sem leysa ákveðin sveitarfélög undan umræddri skyldu."
Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem íslenska ríkisstjórnin hefur skrifað undir, er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða. Þar segir m.a.:
"20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi, ............
Úr bréfi sem sent er notendum Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi:
Pöntunarsími Ferðaþjónustunnar er ###-#### og er hann opinn frá kl 08:00 til 16:00alla virka daga. Hægt er að panta ferðir með tölvupósti og er netfangið xxx@zzz.is. Vaktsími eftir lokun er ###-####. Pantanir þurfa að berast deginum áður en geta borist samdægurs fyrir kl. 16:00 vegna kvöldferða.
Geti farþegi ekki komist hjálparlaust þarf að tryggja að aðstoð sé til staðar við anddyri. Rétt er að ítreka að ferðaþjónustan ber ekki ábyrgð á farþega eftir að á áfangastað er komið. Bílstjórar geta takmarkað komið til aðstoðar þar sem snjór, hálka eða aðrar hindranir eru í vegi sem geta valdið slysahættu. Aðstoð þarf að vera við allar tröppur sem liggja að anddyri.
Ekki er gert ráð fyrir að bílstjórar fari í sendiferðir fyrir farþega né bíði eftir farþega þegar hann sinnir erindum sínum.
Gera má ráð fyrir að ferðir geti fallið niður eða tafist vegna ófyrirséðra orsaka t.dóveðurs, bilana, þungrar umferðar og annarra þátta.
Bílakostur Ferðaþjónustunnar er útbúinn samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Allur búnaður í þeim er frá þýsku fyrirtæki sem sérhæfir sig á breytingum og framleiðslu festinga fyrir hjólastólanotendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2010 | 16:21
Lög ítrekað brotin á fötluðu fólki - Samfélagsleg þöggun
Sex stjórnsýsluúrskurðir eru sagðir liggja fyrir um að sveitarfélagið og félagsþjónusta uppsveita Árnessýslu hafi brotið rétt á fötluðum íbúum Sólheima. Þrátt fyrir úrskurðina neiti sveitarfélagið að uppfylla lagaskyldur sínar.
Af hverju er þessi samfélagslega þöggun í gangi gagnvart lögbrot á fötluðu fólki. Af hverju fá hinir brotlegu að vera í friði og brjóta áfram lög? Er þetta ekki áhugaverð spurning fyrir fjölmiðla?
Blindrafélagið er núna að undirbúa að draga Kópavogsbæ fyrir dómstóla til að fá viðurkenndan rétt lögblindra Kópavogsbúa til akstursþjónustu sem samræmist markmiðum 35 greinar laga um málefni fatlaðra, sem eru frá 1992. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er einnig fjallað um ferðaþjónustu og samkvæmt þeim ákvæðum þá er Kópavogsbær að brjóta mannréttindi á blindum Kópavogsbúum.
Blindrafélagið álítur reyndar að ferðaþjónusta fatlaðra, eins og hún er skipulögð, sé gróft mannréttindabrot á þeim fötluðu einstaklingum sem þurfa að nýta sér þetta úrræði, hvort sem þeir eru blindir eða ekki. Kópavogsbær virðist hinsvegar ætla að halda upp vörnum fyrir þetta kerfi. Forsendurnar eru að ekki megi mismuna fötlunarhópum og því skuli brjóta jafnt lög á öllum. Félagsþjónusta Kópavogs er reyndar alþekkt meðal fólks sem vinnur í félagsmálageiranum og lítil breyting virðist hafa orðið á við tilkomu nýs meirihluta.
Flytja á málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga þann 1 janúar næst komandi. Er það virkilega svo að fatlaðir einstaklingar megi eiga von á því að það velti á búsetu hvort að mannréttindi þeirra verði virt eða ekki? Er nema von að margir fatlaðir óttist þennan tilflutning og gjaldi varhug við þegar horft er upp á að sveitarfélög komast óáreitt uppi með að brjóta lög á fötluðu fólki.
Það verður kanski að lögfesta viðurlög við brotum á mannréttindum fatlaðra einstaklinga til að tryggja réttarstöðu þeirra gagnvart hinu opinbera.
Rökstuðning Blindrafélagsins í deilunni við Kópavogsbæ má sjá hér.
Hér má lesa umfjöllun um málið og kosningaloforð framboða til bæjarstjórnar Kópavogs í maí 2010.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2010 | 10:36
Samfélagslampi Blindrafélagsins 2010
Góðir gestir
Ég ætla að kynna afhendingu á Samfélagslampa Blindrafélagsins fyrri árið 2010.
Samfélagslampi Blindrafélagsins er einstakur gripur, handsmíðaður af Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.
Tilgangurinn með veitingu Samfélagslampans er vekja athygli á fyrirtækjum, stofnunum og/eða tilteknum aðgerðum eða verkefnum, sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.
Samfélagslampinn var í fyrsta sinn afhentur á 70 ára af mæli Blindrafélagsins, þann 19 ágúst 2009. Þá var lampinn veittur tveimur aðilum: Bónus verslunarkeðjunni, fyrri áralangt traust viðskiptasamband við Blindravinnustofuna og Reykjavíkurborg fyrir ferðaþjónustu blindra í Reykjavík.
Framvegis mun Samfélagslampinn verða afhentur á degi Hvíta stafsins" 15 október ár hvert. Í ár verða afhentir tveir Samfélagslampar.
Fyrst vil ég nefna til sögunnar: Blindravinafélag Íslands
Blindravinafélag Íslands var stofnað í janúar árið 1932. Starfsemi félagsins skyldi vera tvíþætt: Í fyrsta lagi yrði að veita hjálp til að koma í veg fyrri blindu og í öðru lagi yrði að liðsinn þeim sem hefðu misst sjón. Tvö verkefni voru skilgreind voru sett í forgang:
- 1. Að kom á fót skóla fyrir blind börn.
- 2. Að starfrækja vinnustofu fyrir blind fólk.
Hvoru tveggja kom félagið í verk og bar í raun ábyrgð á námi blindra barna á Íslandi allt frá 1933 til 1977. En það var fyrst þá sem íslenska ríkið tók þá ábyrgð af Blindravinafélaginu.
Hugsið ykkur, nú er 2010 og íslenska ríkið hefur einungis axlað ábyrgð á menntun blindra barna á Íslandi í 33 ár og ekki alltaf staðið sig vel á þeim tíma.
Af þeim verkefnum sem Blindravinafélag Íslands kemur að í dag vill ég nefna nokkur:
Félagið kom að stofnun og fjármögnun, ásamt Blindrafélaginu, Menntunarsjóðs til blindrakennslu. En sá sjóður hefur á undanförnum þremur árum styrkt á annan tug einstakling til fagnáms er varðar kennslu, kennsluráðgjöf og umferli blindra og sjónskertra einstaklinga. Flestir þeirra eru í dag starfsmenn Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
Stofnun og starfræksla Þórsteinssjóðs. Sjóðurinn er stofnaður af stjórn Blindravinafélags Íslands til minningar um Þórstein Bjarnason, en hann var aðalfrumkvöðull að stofnun Blindravinafélagsins. Sjóðurinn veitir styrki blindra og sjónskertra nemenda við Háskóla Íslands og til eflingar rannsókna á fræðisviðum sem geta aukið þekkingu á blindu og sjónskerðingu.
Blindravinafélagið hefur nýlega samþykkta að taka þátt í fjármögnun á stærsta verkefni sem Blindrafélagið hefur ráðist út í, sem er smíði á nýjum vönduðum íslenskum talgervli, sem stefnt er að því að verði þjóðareign og mun haf mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði þess mikla fjölda sem ekki getur lesið með hefðbundnum hætti.
Blindravinafélagið hefur jafnframt styrkt fjölda mörg önnur verkefni sem nýst hafa blindum og sjónskertum sem og að styrkja einstaklinga til tækjakaupa eða ráðstefnu og námsferða.
Ég vil biðja Helgu Eysteinsdóttur formann Blindravinafélags Íslands að koma hérna til mín og veita Samfélagslampa Blindrafélagsins viðtöku ásamt viðurkenningarskjali sem fylgir með.
Áletrunin á Samfélagslampanum sem færður er Blindravinafélagi Íslands er:
Stuðningur til sjálfstæðis
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi veittur Blindravinafélagi Íslands árið 2010, fyrir frumkvæði og stuðning, í nálægt 80 ár, við að bæta líf og möguleika blindra og sjónskertra einstaklinga."
Hinn aðilinn sem veitir viðtöku Samfélagslampa Blindrafélagsins viðtöku er Alþingi Íslendinga.
Rétt fyrri jól 2008, í miðju fjármálahruninu, samþykkti Alþingi Íslendinga lög um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Þessi lög voru þau einu sem Alþingi samþykkti á þessu þingi sem ekki voru viðbrögð við fjármálahruninu. Mjög mikil vinna hafði verið lögð í þetta mál og miklir og margþættir hagsmunir lágu undir.
Í dag þegar við sjáum hversu miklu máli tilvist Þjónustu og Þekkingarmiðstöðvarinnar hefur breytt varðandi mannréttindi blindra og sjónskertra einstaklinga, þá er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda hver staðan væri ef lögin hefðu ekki verið samþykkt á þessum tíma - og það munaði svo litlu að málið kæmist ekki á dagskrá. Sérstaklega á þetta við um stöðu barna í skólakerfinu sem hafði verið skelfilega um margrá ára skeið.
Ríkisstjórnin fór síðan frá nokkrum vikum síðar og hafinn var undirbúningur að kosningum og allir þekkja það sem á eftir kom.
Það sem er hinsvegar eftirtektarvert og Samfélagslampi Blindrafélagsins er veittur fyrir eru þau vinnubrögð sem réðu ferðinni við undirbúning og vinnslu málsins. Strax á mótunarstigi voru allir helstu hagsmunaaðilar kallaðir til og tóku þátt í að móta allt málið, frá upphafi allt þar til lagafrumvarpið var tilbúið.
Ferlið gekk nokkurn veginn svona fyrir sig.
- Menntamálaráðherra skipaði framkvæmdanefnd í maí 2007 sem hafði það hlutverk að bregðast sem fyrst við tillögum í svartri skýrslu Harris og Holland, sem Blindrafélagið hafði forgöngu um að var gerð, um endurskoðun á menntunarmöguleikum blindra og sjónskertra nemenda á Íslandi.
- Í framkvæmdanefndinni sátu fulltrúar þeirra opinberu aðila sem bera stjórnsýslulega ábyrgð á framkvæmd þjónustunnar, ráðuneyti menntamála, félagsmála og heilbrigðismála, og sveitarfélögin - sem og fulltrúar notenda í gegnum Blindrafélagið.
- Utanaðkomandi verkefnisstjóri vann með nefndinni, lagði til verklag, vann grunnvinnuna og stýrði verkferlinu. Þetta reyndist vera mjög mikilvægt fyrir framgang málsins.
- Nefndin komst fljótt að þeirri niðurstöðu að skoða þyrfti með heildstæðum hætti þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga, en ekki einungis þann þátt sem snéri að námi og menntun.
- Á fyrsta fundi nefndarinnar var lögð fram verkefnaáætlun, þar sem lagt var til hvað ætti að gera, hvenær, hvernig og með þátttöku hverra.
- Nefndin ákvað strax í upphafi að hafa samráð við fulltrúa allra þjónustu- og hagsmunaðila um greiningu á stöðunni, mat á þörfum fyrir þjónustu og útfærslu á tillögum til framkvæmdar. Tillaga var tilbúin í lok júní 2007 og tók ekki stórum breytingum eftir það.
- Í framhaldi tryggðu fulltrúar í framkvæmdanefndinni sátt síns baklands um tillögurnar, þannig að þegar þær fóru til umræðu á ríkisstjórnarfundi í nóvember 2007 var búið að vinna úr flestum eða öllum ágreiningsmálum.
- Ríkisstjórnin ákvað að hrinda tillögunum framkvæmd. Ný verkefnisstjórn var skipuð, en að mestu aðilum sem áður sátu í framkvæmdanefndinni þannig að framhald vinnunnar var tryggt.
- Verkefnisstjóri var ráðinn áfram og falið að koma að stjórnun þeirra stofnana og starfseininga sem gert var ráð fyrir að féllu undir nýja þjónustumiðstöð og vinna með starfsmönnum að undirbúningi stofnunar nýrrar samræmdrar þjónustumiðstöðvar.
- Haft var samráð við notendur þjónustunnar í gegnum allt ferlið, bæði með þátttök í nefndum, vinnuhópum og undirbúningi daglegs verklags.
- Samhliða því að ný stofnun var undirbúin verklega séð var einnig unnið frumvarp að stofnun hennar. Það frumvarp fór fyrir alþingi í desember 2008, og var gert að lögum nokkrum dögum eftir að það var fyrst lagt fram. Áður en frumvarpið var sett fram var búið að tryggja sátt allra hagsmunaaðila, í gegnum þátttöku þeirra í vinnunni.
Þessi vinnubrögð samráðs og breiðrar þátttöku, þvert á ráðuneyti, stjórnsýslu og hagsmunasamtaka skilaði góðum árangri og höfðu margir alþingismenn það á orði við afgreiðslu málsins að vinnubrögðin og samstaðan sem náðist í málinu, væru til fyrirmyndar.
Handhafar þessa samfélagslampa eru því sameiginlega, stofnanir og einstaklingar sem komu að þessu verkefni og lögðu sitt af mörkum til að samstarfið skilaði eins góðum árangri og raun ber núna vitni. Það er einnig mikilvægt að benda á þessi vinnubrögð eru mjög í anda þess sem kveðið er á um í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur samþykkt og nú er unnið að því að lögfesta.
Til samanburðar þá er vert að segja frá því að um fyrir nokkrum árum voru upp áform um að sameina þjónustu við blinda og sjónskerta og heyrnarlausa. Þá voru hagsmunaðilar boðaðir í ráðuneytið og þeim tilkynnt um áformin. Það var kallað samráð. Mikil andstaða var við þau áform enda engar faglegar forsendur til staðar.
Með því að fela Alþingi Íslendinga varðveislu þessa Samfélagslampa Blindrafélagsins, sem einn af þeim aðilum sem ábyrgð bera á farsælu ferli og niðurstöðum í þessu máli, þá vonumst við til þess að Samfélagslampinn getir orðið til áminningar um hverju fagleg vinnubrögð sem byggja á breiðu samráði, allt frá upphafi stefnumótunar, geta skilað.
Ég vil því biðja Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta Alþingis að koma hérna og veita Samfélagslampa Blindrafélagsins viðtöku fyrir hönd þeirra sem hann er veittur.
Áletrunin á Samfélagslampanum er:
Stuðningur til sjálfstæðis!
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi árið 2010
Veittur fyrir farsæl og fagleg vinnubrögð sem leiddu til góðrar samstöðu við stefnumótun og undirbúning
lagafrumvarps um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga,
sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi Íslendinga 18 desember 2008.
Alþingi Íslendinga er falin varðveisla þessa Samfélagslampa til áminningar um mikilvægi samráðs við hagsmunaaðila allt frá stefnumótun þar til mál eru til lykta leidd.
Það er von mín og ósk að þessum grip og meðfylgjandi viðurkenningarskjali verði fundinn tilhlýðileg staðsetning í húsakynnum Alþingis Íslendinga lýsi vonandi einhverjum til vegar þegar fyrir liggur að ná samstöðu um mál.
Ég færi öllum þeim sem þessi tveir Samfélagslampar Blindrafélagsins eru veittir innilegar hamingjuóskir og þakkir Blindrafélagsins, samtak blindra og sjónskertra á Íslandi.
14.10.2010 | 10:49
Alþjóðlegur sjónverndardagur - 14 október
Annar fimmtudagur í október ár hvert er Alþjóðlegur sjónverndardagur (World sight day). Í tilefni dagisn mun Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi og Augnlæknafélag Íslands, með stuðningi Novartis, standa saman að málstofu ífimmtudaginn 14 október kl 17:00 að Hamrahlíð 17, húsnæði Blindrafélagsins.
Aðalræðumaður málstofunnar verður: Dr. Weng Tao, en hún kemur frá Bandaríkjunum sérstaklega fyrir þessa málstofu, en hún mun fjalla um:
- Klínískar tilraunir sem eru að fara í þriðja fasa og miða að því að þróa fyrirbyggjandi meðferðir við þurr AMD og mörgum formum Retinitis Pigmentosa, sem eru arfgengir sjónhimnusjúkdómar. Meðferðin byggir á notkun sérþróaðrar tækni, ECT, (Encaplsulated Cell Technology) til að koma vaxtaþáttarefni, (neurotropic agent) sem kallast CNTF, til augans, en tilraunir hafa sýnt að CNTF getur stöðvað hrörnunarferli ljósnemanna.
- Vonir eru bundnar við að þetta verði fyrstu fyrirbyggjandi meðferðirnar, gegn þessum ólæknandi sjúkdómum, sem eru orsök 3 af hverjum 4 blindutilfellum í hinum vestræna heimi.
- Slíkar meðferðir gætu orðið almennar á næstu 4 til 5 árum.
Auk Dr. Weng Tao munu Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum, Sveinn Hákon Harðarson sérfræðingur í augnrannsóknum og Kristinn P. Magnússon erfðafræðingur tala á málstofunni.
Málstofna hefst klukkna 17:00 og fer fram í húsnæði Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 2. hæð. Aðgangur er öllum opinn á meðan að húsrúm leyfir.
Nánari upplýsingar gefur:
Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins s 525 0020 gsm 661 7809
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)