Er hlutskipti lögblindra Kópavogsbúa stofufangelsi

Miðvikudaginn 26 maí birti Blindrafélagið heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem frambjóðendur til bæjarstjórnar Kópavogs svöruðu fyrir um ferðaþjónustu við lögblinda Kópavogsbúa. 

 

Forsaga

Þann 2. febrúar 2010 sendi Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, bæjarstjórn Kópavogs erindi þar sem athygli bæjarstjórnar var vakin á því að Blindrafélagið áliti að Kópavogsbær væri að brjóta lög og mannréttindi á lögblindum (Sjónskerpa undir 6/60 eða sjónsvið þrengra en 10 gráður á betra auga með bestu mögulegu sjónglerjum) Kópavogsbúum með því að sjá þeim ekki fyrir fullnægjandi ferðaþjónustu.

Óskaði félagið eftir því við bæjarstjórn Kópavogs að teknar yrðu upp viðræður um með hvaða hætt best mætti tryggja blindum og sjónskertum Kópavogsbúum lögbundna og sambærilega þjónustu og félagar þeirra á höfuðborgarsvæðinu njóta.

Erindinu og þar með viðræðum var hafnað.

Verða lög og mannréttindi brotin á lögblindum Kópavogsbúum eftir kosningar?

 Nú, rétt fyrir kosningar, spyr Blindrafélagið efstu menn þeirra framboða sem bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum í Kópavogi eftirfarandi spurningar:

“Mun þinn flokkur tryggja blindum og sjónskertum íbúum Kópavogsbæjarferðaþjónustu sem uppfyllir skilyrði 35. greinar laga um málefni fatlaðra ogákvæði 20. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks meðsambærilegum hætti og gert er annars staðar á höfuðborgarsvæðinu?“

 

X-B Framsóknarflokkurinn:

„Við Framsóknarmenn munum tryggja að þær lagaskyldur sem settar eru á sveitarfélög með lögum nr. 59 frá 1992 séu uppfylltar og með því tryggja rétt fatlaðra.“

Ómar Stefánsson efstur á B-lista Framsóknarflokksins

 

X-D Sjálfstæðisflokkurinn:

„Er það ekki rétt hjá mér að erindi þitt snýr að því hvort flokkur minn muni tryggja blindum og sjónskertum íbúum Kópavogsbæjar ferðaþjónustu sem uppfyllir skilyrði 35. greinar laga um málefni fatlaðra og ákvæði 20. Greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, með sambærilegum hætti og gert er annars staðar á höfuðborgarsvæðinu? Ef svo er, þá staðfesti ég að við munum gera það.“

Ármann Kr. Ólafsson efstur á D-lista Sjálfstæðisflokksins

 

X-F Frjálslyndi flokkurinn

Svar barst ekki.

 

X-S Samfylkingin:

„Við í Samfylkingunni munum tryggja lögbundna þjónustu og strax eftir kosningar munum við ráðast í endurskoðun á ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi.“

Guðríður Arnardóttir efst á S-lista Samfylkingarinnar

 

X-V Vinstri græn:

„Vinstri græn telja það skyldu samfélagsins að búa svo að öllum þegnum að þeir geti lifað og starfað og notið sín í samræmi við hæfileika sína, áhuga og getu. Akstursþjónusta er augljós þáttur í þessu verkefni. VG vilja stuðla að því að akstursmál blindra í Kópavogi verði í því horfi að til sóma sé og það er fortakslaus skylda bæjarins að fara að lögum og þeim sáttmálum sem við erum aðilar að. Því er svarið við spurningunni já.“

Ólafur Þór Gunnarsson efstur á V-lista Vinstri grænna

 

X-Y Listi Kópavogsbúa

„Við teljum að bjóða þurfi blindum og sjónskertum lausn í akstursþjónustu í samræmivið þarfir þeirra, enda uppfylli slík þjónusta jafnræðisreglu. Um tvennt getur verið að ræða:

a) Fastan akstur til vinnu og tómstunda.

b) Annan akstur þar sem pantaður er flutningur með hámarks 2 tíma fyrirvara.

Framkvæmdin væri í formi þjónustusamninga við atvinnubílstjóra sem þegar starfa í bænum eða hafa áhuga á að starfa við verkefnið og afla sér réttinda til þess og þar með er hægt að tengja verkefnið við atvinnusköpun í Kópavogi því Kópavogur á að vera fyrir alla.“

Rannveig Ásgeirsdóttir efst á Y-lista Kópavogsbúa

 

X-X Næst besti flokkurinn

„Stjórnmálaflokkar, hvorki Næst besti flokkurinn né hinir gömlu ónýtu flokkarnir semhafa sóað sameiginlegum verðmætum okkar á undanförnum árum, geta tryggt velferð okkar eða réttindi. Hins vegar geta fulltrúar Næst besta flokksins í bæjarstjórn Kópavogs á komandi kjörtímabili sem og verðandi bæjarstjóri,leiðsögumaður Næst besta flokksins, krafist þess að yfirvöld fari að lögum og reglum í þessu máli sem og öðrum. Við í Næst besta flokknum heitum því að fara að lögum og hvetjum fulltrúa hinna framboðanna að gera það einnig. Við sem búum í Kópavogi saman eigum þennan bæ saman og við eigum öll að vera jöfn fyrir lögunum.“

Hjálmar Hjálmarsson, efstur á X-lista Næst besta flokksins

 

FERÐAÞJÓNUSTA BLINDRA - STUÐNINGUR TIL SJÁLFSTÆÐI

Frá 1997 hefur lögblindum Reykvíkingum staðið til boða ferðaþjónusta með leigubílum. Þessi ferðaþjónustuúrræði í Reykjavík uppfylla að mati Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, ákvæði 35. greinar laga um málefni fatlaðra og 20. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í úttekt Reykjavíkurborgar á ferðaþjónustuúrræðum fyrir fatlaða kom í ljós að ferðaþjónusta blindra var hagkvæmasta úrræðið og bauð jafnframt bestu þjónustuna.

 

Úr lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, 35. grein:

„Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda ...

Úr samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 20. grein:

„Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingumsé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:

a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hættisem, og þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi ...“

 

Sættir þú þig við að stofufangelsi sé hlutskipti lögblindra Kópavogsbúa?

 

BLINDRAFÉLAGIÐ, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband