Yfirlýsing frá Blindrafélaginu vegna bréfs bæjarstjóra Kópavogs í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra.

Í bréfi dagsettu 29. október 2010 sem bæjarstjóri Kópavogs sendi formanni Blindrafélagsins er haldið uppi málsvörnum fyrir málstað Kópavogsbæjar í deilunni við Blindrafélagið um ferðaþjónustuúrræði fyrir lögblinda Kópavogsbúa.

Inntakið í bréfinu er að Blindrafélagið sé að fara fram á meiri þjónustu fyrir blinda en öðrum fötluðum stendur til boða og að þau ferðaþjónustuúrræði sem Kópavogsbær bíður blindum, sem og öðrum fötluðum, sé í samræmi við lög.  Þessu hafi verið svarað og því hafi erindum Blindrafélagsins verið sinnt, þvert á það sem Blindrafélagið heldur fram.

Blindrafélagið vill í þessu sambandi ítreka eftirfarandi:

  • Það er rétt að Blindrafélagið er að fara fram á ferðaþjónustu sem hefur hærra þjónustustig en núverandi ferðaþjónusta fatlaðra býður upp á.
  • Ástæðan er sú að Blindrafélagið álítur að núverandi ferðaþjónusta fatlaðra á vegum Kópavogsbæjar uppfylli ekki markmið 35 greinar laga um Málefni fatlaðra frá 1992 og ákvæði 20 greinar í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Samkvæmt lögum og mannréttindasamningum á Ferðaþjónusta við fatlaða að uppfylla tilteknar þarfir einstaklinga en ekki einhverja óskilgreinda meðalþörf hópa.
  • Blindrafélagið hefur í tvígang óskaði eftir efnislegum viðræðum við Kópavogsbæ um þessi atriði. Bæði við fyrri meirihluta og þann sem nú situr. Ósk félagsins um viðræður hefur nú verið hafnað í tvígang.
  • Blindrafélagið eru hagsmunasamtök blindra og sjónskertra og berjast fyrir þeirra hagsmunum. Félagið hefur ekki rétt á að gera sambærilegar kröfur fyrir aðrar notendur Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi.
  • Ljóst er á öllum viðbrögðum frá bæði núverandi og fyrrverandi forustumönnum Kópavogsbæjar að það er enginn vilji til að finna lausn á þessu máli í samstarfi við Blindrafélagið. Þrátt fyrir skjalfest fyrirheit um hið gangstæði í kosningabaráttunni.
  • Blindrafélagið mun ekki skirrast undan þeirri ábyrgð sinni að verja mannréttindi félagsmanna sinni, hvort sem er í Kópavogi eða annars staðar.
  • Félagið mun beita þeim lögformlegu leiðum sem færar eru til að fá úr því skorið hvort að þau ferðaþjónustuúrræði sem Kópavogur bíður fötluðum einstaklingum uppá uppfylli markmið laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að.
 

Skýringarefni:

Úr lögum nr 52 frá 1992 um málefni fatlaðra er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða:

 „35. gr.Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.
Jafnframt skulu fatlaðir eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir skv. 1.-4. tölul. 9. gr. og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega."

Úr lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Blindrafélagið segir um þessa lagagrein:

"Samkvæmt orðanna hljóðan leggur ákvæðið á sveitarfélög ákveðnar athafnaskyldur. Verða þau af þeim sökum skuldbundin til að veita fötluðum kost á ferðaþjónustu sem hefur það að markmiði að gera ákveðnum hóp fatlaðra1 kleift að stunda atvinnu, nám og njóta tómstunda. Ákvæðið er fortakslaust og ekki er til að dreifa ákvæðum sem leysa ákveðin sveitarfélög undan umræddri skyldu."

Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem íslenska ríkisstjórnin hefur skrifað undir, er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða. Þar segir m.a.:

"20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,  ............


Úr bréfi sem sent er notendum Ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi:

Pöntunarsími Ferðaþjónustunnar er ###-#### og er hann opinn frá kl 08:00 til 16:00alla virka daga. Hægt er að panta ferðir með tölvupósti og er netfangið xxx@zzz.is. Vaktsími eftir lokun er ###-####. Pantanir þurfa að berast deginum áður en geta borist samdægurs fyrir kl. 16:00 vegna kvöldferða.

Geti farþegi ekki komist hjálparlaust þarf að tryggja að aðstoð sé til staðar við anddyri. Rétt er að ítreka að ferðaþjónustan ber ekki ábyrgð á farþega eftir að á áfangastað er komið. Bílstjórar geta takmarkað komið til aðstoðar þar sem snjór, hálka eða aðrar hindranir eru í vegi sem geta valdið slysahættu. Aðstoð þarf að vera við allar tröppur sem liggja að anddyri.

Ekki er gert ráð fyrir að bílstjórar fari í sendiferðir fyrir farþega né bíði eftir farþega þegar hann sinnir erindum sínum.

Gera má ráð fyrir að ferðir geti fallið niður eða tafist vegna ófyrirséðra orsaka t.dóveðurs, bilana, þungrar umferðar og annarra þátta.

Bílakostur Ferðaþjónustunnar er útbúinn samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Allur búnaður í þeim er frá þýsku fyrirtæki sem sérhæfir sig á breytingum og framleiðslu festinga fyrir hjólastólanotendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband