Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Stuðningur til sjálfstæðis í 70 ár

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi er samfélagslegt afl - mannréttindasamtök - sem berst fyrir því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Ekkert um okkur án okkar er alþjóðlegt kjörorð sem Blindrafélagið á með öðrum samtökum fatlaðra.

Stofnun Blindrafélagsins 
Þann 19 ágúst 1939 stofnuðu 13 einstaklingar Blindrafélagið. Allir áttu þeir það sameiginlegt að vilja taka stjórn á eign málum og stuðla að auknu sjálfstæði blindra.Frá stofnun Blindrafélagsins hefur mikið vatn runnið til sjávar og Blindrafélagið er í dag einnig samtök sjónskertra.  Allt frá stofnun hefur félagið átt hlut að fjölmörgum framfaramálum í þágu blindra og sjónskertra og er í dag mikilvægur aðili þegar kemur að stefnumótun og framkvæmd í hagsmunamálum blindra og sjónskertra.

Fjöldi blindra og sjónskertra
Um mitt árið 2009 voru 1.507 einstaklingar skráðir hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda sem uppfylltu skilyrði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um blindu eða sjónskerðingu. Af þeim voru 123 (8%) alblindir eða því sem næst.  163 (11%) voru undir 21 árs aldri og 135 (9%) á aldrinum 6-21 árs, 316 (21%) voru a aldrinum 22-69 ara, og 1.030 (68%) 70 ara eða eldri.

Hverjir eru sjónskertir og hverjir eru blindir?
Algengustu sjónvandamál fólks, eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja, flokkast ekki sem sjónskerðing. Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru þeir einir sjónskertir sem sjá minna en 6/18 (30%) með betra auga með besta gleri eða hafa sjónsvið þrengra en 20°.  Samkvæmt sömu skilgreiningu eru þeir blindir sem sjá minna en 3/60 (5%) með betra auga með besta gleri eða hafa sjónsvið minna en 10°. 

Þjónustu og þekkingarmiðstöð
Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrri blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga tók til starfa samkvæmt lögum 1 janúar 2009. Mikil samstað var um málið á þingi og voru fagleg vinnubrögð við undirbúning málsins lofuð af öllum sem aðkomu áttu að málinu.

Markmið miðstöðvarinnar er m.a. að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.

Á undanförnum árum hefur málaflokkur blindra og sjónskertra þurft að sæta mikilli vanrækslu af hálfu stjórnvalda. Svo rammt hefur kveðið að úrræðaleysinu að foreldrar hafa talið sig nauðbeygða til að flytjast erlendi til að tryggja blindu eða sjónskertum börnum sínum viðunandi stuðning og þjónustu, auk þess sem dæmi eru um að ungt vel menntað blint eða sjónskert fólk sjái meiri framtíð í búsetu erlendis en hér á landi.

Í þessu ljósi er mikilvægt að stjórnvöld taki þá siðferðislegu afstöðu, að þrátt fyrir erfitt efnahagslegt ástand, þá verði ekki neitt gert sem orðið getur til að lama starfsemi Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar, svo sem eins og óraunhæfar niðurskurðar- eða sameiningarhugmyndir. Blindir, sjónskertir, fjölskyldur þeirra og aðstandendur  eiga það inn hjá íslenskum stjórnvöldum að nýrri miðstöð, stjórnendum hennar og starfsfólki, verði gefið tækifæri á til að byggja upp þjónustustig og starfsemi sem er samboðin þeirri samfélagsgerð sem við viljum búa við. 

Ferðaþjónustumál
Málaflokkur sem er mikilvægur blindum og sjónskertum er ferðaþjónustumál. Að komast ferða sinn á sjálfstæðan máta og vera ekki stöðugt upp á aðra kominn er öllum mjög mikilvægt. Sveitarfélögin bera ábyrgð á ferðaþjónustumálum fatlaðar og í raun er það svo að víðast hvar eru þau mál þannig að frekar mætti líkja við gripaflutninga heldur en að verið sé að leysa úr einstaklingsbundnum þörfum fólks að komast leiðar sinnar. Frá þessu er ein mikilvæg undantekning sem er ferðaþjónusta blindra í Reykjavík, sem er líklega eina  úrræði í ferðaþjónautmálum fatlaðra sem getur talist uppfylla ákvæði Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem Ísland hefur skrifað undir. Blindrafélagið veitti Reykjavíkurborg Samfélagslampa Blindrafélagsins til að vekja athygli á þessari góðu þjónustu. Því miður er það svo að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur eru alls ekki að bjóða upp á samskonar þjónustu. Blindir og sjónskertir íbúar þeirra sveitarfélaga eru því mun verr staddir en félagar þeirra sem búsettir eru í Reykjavík.

Okkar hlutverk er: Stuðningur til sjálfstæðis
Hlutverk Blindrafélagsins er að stuðla að því öllum stundum að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og verið samfélagslega virkir.

Í sumum tilvikum kann að vera þörf á stuðningi og það er mjög einstaklingsbundið hvar og hvenær stuðnings er þörf. Stundum þarf sá stuðningur að vera samfélagslegur, stundum frá stofnunum eða félagasamtökum og stundum frá fjölskyldu og vinum.

En lykilatriðið er að stuðningurinn sé til sjálfstæðis því það mun fremur leiða til góðs.

Þessi grein birtist í Mbl 23 ágúst 2009.

 

 


Bónus og Reykjavíkurborg veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins

Í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá stofnun Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur stjórn félagsins ákveðið að stofna til viðurkenningar sem  veitt verður fyrirtækjum eða stofnunum og mun bera nafnið:

„Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi"

Samfélagslampi Blindrafélagsins er einstakur gripur, handsmíðaður af  Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.

Tilgangurinn með Samfélagslampanum er að vekja athygli á fyrirtækjum eða stofnunum sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Samfélagslampinn er veittur í fyrsta skiptið á 70 ára afmælidegi Blindrafélagsins þann 19. ágúst 2009, á hátíðarsamkomu sem haldinn er í tilefni þessara merku tímamóta.

Fyrstir til að hljóta þessa viðurkenningu eru tveir aðilar sem á mjög ólíkan hátt hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga. Þessir aðilar eru: Bónus og Reykjavíkurborg.

Bónus verslununum er veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir áralangt traust viðskiptasamband við Blindravinnustofuna, sem er starfsþjálfunar- og endurhæfingarvinnustaður í eigu Blindrafélagsins. Viðskiptasamband Bónus og Blindravinustofunnar, sem staðið hefur allt frá því að Bónus hóf starfsemi, felst fyrst og fremst í því að Bónus gefur Blindravinnustofunni tækifæri til að keppa á markaði á eigin verðleikum með sölu þeirra vörutegunda sem vinnustofan býður upp á.

Eftirfarandi áletrun er á Samfélagslampanum sem veittur er Bónus:


„Stuðningur til sjálfstæðis
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Veittur verslunum Bónuss árið 2009 fyrir áralangt traust samstarf við Blindravinnustofuna."

Reykjavíkurborg er veittur samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir Ferðaþjónustu blindra  í Reykjavík. Ferðaþjónustan, sem rekin hefur verið með núverandi sniði frá 1997, hefur aukið verulega sjálfstæði allra blindra Reykvíkinga allt frá því að hún var sett á laggirnar. Ferðaþjónustan gengur í stuttu máli út á að einstaklingur sem er með lögheimili í Reykjavík og hefur greinst lögblindur, fær mánaðalega allt að 60 ferðir með leigubíl á strætisvagnafargjaldi. Dæmi eru um að lögblindir einstaklingar hafa haldið áfram að vera virkir á vinnumarkaði og félagslífi  - allt vegna ferðaþjónustu blindra.

Það er fátt ef nokkuð sem skerðir sjálfstæði blindra og sjónskertra meira en að  komast ekki ferða sinna á sjálfstæðan máta.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélag landsins sem getur státað að því að veita ferðaþjónustu fyrir fatlaða sem kemst nálaæt því að uppfylla ákvæði Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en Ferðaþjónusta blindra í Reykjavík uppfyllir þau ákvæði.

Áletrunin á Samfélagslampa Reykjavíkurborgar er svohljóðandi:


Stuðningur til sjálfstæðis
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Veittur Reykjavíkurborg árið 2009 fyrir ferðaþjónustu blindra."

Samfélagslampar Blindrafélagsins 2009


Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra 70 ára í dag, 19 ágúst.

Hátíðardagskrá í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins verður haldinn á  Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2,  miðvikudaginn 19 ágúst.

Húsið verður opnað klukkan 15:00 og verða kaffiveitingar í boði frá klukkan 15:30.

Hátíðardagskrá hefst klukkan 16:00.

Allir félagsmenn og velunnarar félagsins eru boðnir velkomnir til afmælisfagnaðarins.

Meðal dagskráratriða eru ávörp frá félagsmálaráðherra og borgarstjóra.

Í fyrsta skiptið verður Samfélagslampi Blindrafélagsins  veittur. En hann er veittur fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa stuðlaða að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra.

Reykjavíkurborg verður veittur lampinn fyrir akstursþjónustu blindra í Reykjavík og Bónus fyrir áralangt og trausts samstarf við Blindravinnustofuna.

Blindrafélagið var stofnað þann 19 ágúst 1939 af einstaklingum sem vildu stuðla að því að blindir einstaklingar tækju stjórn sinna mála í eigin hendur. Stofnfélagar sem allir voru blindir  voru: Benedikt K. Benónýsson, Einar Guðgeirsson, Elísabet Þórðardóttir, Guðmundur Eyjólfsson, Guðmundur Jóhannesson, Guðrún Sigurðardóttir, Höskuldur Guðmundsson, Jóhann S. Baldvinsson, Margrét Andrésdóttir og Rósa Guðmundsdóttir. Aukafélagar sem voru sjáandi voru: Björn Andrésson, Björn Jónsson og Trausti Kristinsson.

Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Benónýsson. 

Uppbygging og rekstur Blindravinnustofunnar og fasteigna félagsins hefur sett svip mikinn svip á sögu félagsins. Í dag á félagið fasteign að Hamrahlíð 17, þar sem öll starfsemi félagsins og Blindravinnustofunnar er til húsa, ásamt annarri starfsemi.

Mörg af brýnustu hagsmunamál blindra hafa náðst fram af frumkvæði félagsins, má þar nefna Blindrabókasafn Íslands, Sjónstöð Íslands og núna nýlega Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrri blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Eitt af mikilvægustu hagsmunamálum blindra og sjónskertra í dag er að hinni nýju Þjónustu þekkingarmiðstöð fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sem tók til starfa 1 janúar s.l., fái tækifæri til að vaxa með eðlilegum hætti og byggja upp þjónustu sem er samboðin þeirri samfélagsgerð sem við viljum búa við.

Aðgengismál í sinni breiðustu mynd eru blindum og sjónskertum einnig mikilvæg, það er aðgengi að upplýsingum, aðgengi að atvinnutækifærum, aðgengi að menntun, aðgengi að ferðaþjónustuúrræðum og svo mætti áfram telja.

Saga blindra á Íslandi er til á bók sem var rituð af Þórhalli Guttormssyni og kom út 1991. Þar má m.a. lesa um stofnun félagsins og starfsemi þess fram til ársins 1990. Jafnframt er leitast við að gera grein fyrir málefnum sem tengjast hagsmunum blindra á breiðari grundvelli og lengra aftur í tímann.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband