Stuðningur til sjálfstæðis í 70 ár

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi er samfélagslegt afl - mannréttindasamtök - sem berst fyrir því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Ekkert um okkur án okkar er alþjóðlegt kjörorð sem Blindrafélagið á með öðrum samtökum fatlaðra.

Stofnun Blindrafélagsins 
Þann 19 ágúst 1939 stofnuðu 13 einstaklingar Blindrafélagið. Allir áttu þeir það sameiginlegt að vilja taka stjórn á eign málum og stuðla að auknu sjálfstæði blindra.Frá stofnun Blindrafélagsins hefur mikið vatn runnið til sjávar og Blindrafélagið er í dag einnig samtök sjónskertra.  Allt frá stofnun hefur félagið átt hlut að fjölmörgum framfaramálum í þágu blindra og sjónskertra og er í dag mikilvægur aðili þegar kemur að stefnumótun og framkvæmd í hagsmunamálum blindra og sjónskertra.

Fjöldi blindra og sjónskertra
Um mitt árið 2009 voru 1.507 einstaklingar skráðir hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda sem uppfylltu skilyrði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um blindu eða sjónskerðingu. Af þeim voru 123 (8%) alblindir eða því sem næst.  163 (11%) voru undir 21 árs aldri og 135 (9%) á aldrinum 6-21 árs, 316 (21%) voru a aldrinum 22-69 ara, og 1.030 (68%) 70 ara eða eldri.

Hverjir eru sjónskertir og hverjir eru blindir?
Algengustu sjónvandamál fólks, eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja, flokkast ekki sem sjónskerðing. Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru þeir einir sjónskertir sem sjá minna en 6/18 (30%) með betra auga með besta gleri eða hafa sjónsvið þrengra en 20°.  Samkvæmt sömu skilgreiningu eru þeir blindir sem sjá minna en 3/60 (5%) með betra auga með besta gleri eða hafa sjónsvið minna en 10°. 

Þjónustu og þekkingarmiðstöð
Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrri blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga tók til starfa samkvæmt lögum 1 janúar 2009. Mikil samstað var um málið á þingi og voru fagleg vinnubrögð við undirbúning málsins lofuð af öllum sem aðkomu áttu að málinu.

Markmið miðstöðvarinnar er m.a. að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.

Á undanförnum árum hefur málaflokkur blindra og sjónskertra þurft að sæta mikilli vanrækslu af hálfu stjórnvalda. Svo rammt hefur kveðið að úrræðaleysinu að foreldrar hafa talið sig nauðbeygða til að flytjast erlendi til að tryggja blindu eða sjónskertum börnum sínum viðunandi stuðning og þjónustu, auk þess sem dæmi eru um að ungt vel menntað blint eða sjónskert fólk sjái meiri framtíð í búsetu erlendis en hér á landi.

Í þessu ljósi er mikilvægt að stjórnvöld taki þá siðferðislegu afstöðu, að þrátt fyrir erfitt efnahagslegt ástand, þá verði ekki neitt gert sem orðið getur til að lama starfsemi Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar, svo sem eins og óraunhæfar niðurskurðar- eða sameiningarhugmyndir. Blindir, sjónskertir, fjölskyldur þeirra og aðstandendur  eiga það inn hjá íslenskum stjórnvöldum að nýrri miðstöð, stjórnendum hennar og starfsfólki, verði gefið tækifæri á til að byggja upp þjónustustig og starfsemi sem er samboðin þeirri samfélagsgerð sem við viljum búa við. 

Ferðaþjónustumál
Málaflokkur sem er mikilvægur blindum og sjónskertum er ferðaþjónustumál. Að komast ferða sinn á sjálfstæðan máta og vera ekki stöðugt upp á aðra kominn er öllum mjög mikilvægt. Sveitarfélögin bera ábyrgð á ferðaþjónustumálum fatlaðar og í raun er það svo að víðast hvar eru þau mál þannig að frekar mætti líkja við gripaflutninga heldur en að verið sé að leysa úr einstaklingsbundnum þörfum fólks að komast leiðar sinnar. Frá þessu er ein mikilvæg undantekning sem er ferðaþjónusta blindra í Reykjavík, sem er líklega eina  úrræði í ferðaþjónautmálum fatlaðra sem getur talist uppfylla ákvæði Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem Ísland hefur skrifað undir. Blindrafélagið veitti Reykjavíkurborg Samfélagslampa Blindrafélagsins til að vekja athygli á þessari góðu þjónustu. Því miður er það svo að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur eru alls ekki að bjóða upp á samskonar þjónustu. Blindir og sjónskertir íbúar þeirra sveitarfélaga eru því mun verr staddir en félagar þeirra sem búsettir eru í Reykjavík.

Okkar hlutverk er: Stuðningur til sjálfstæðis
Hlutverk Blindrafélagsins er að stuðla að því öllum stundum að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og verið samfélagslega virkir.

Í sumum tilvikum kann að vera þörf á stuðningi og það er mjög einstaklingsbundið hvar og hvenær stuðnings er þörf. Stundum þarf sá stuðningur að vera samfélagslegur, stundum frá stofnunum eða félagasamtökum og stundum frá fjölskyldu og vinum.

En lykilatriðið er að stuðningurinn sé til sjálfstæðis því það mun fremur leiða til góðs.

Þessi grein birtist í Mbl 23 ágúst 2009.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband