Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ferðaþjónusta fatlaðar - Brot á mannréttindum

Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur skrifað undir, segir  m.a. í 20 grein sem er um: Ferlimál einstaklinga:
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með þvÍ:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi, .......

Embla Ágústsdóttir skrifaði nýverið  grein í Morgunblaðið þar sem hún fjallaði um þá ferðaþjónustu sem fötluðum er boðið uppá. Sjá greinina hér fyrir neðan. Frásögn Emblu er enn eitt dæmið um að Ferðaþjónusta fatlaðra er ekki að bjóða upp á þjónustu sem er ásættanleg fyrir fólk sem vill taka virkan þátt í samfélaginu. Þessi málaflokkur er á forræði sveitarfélaganna. Fyrir nokkru vakti ég athygli á frásögn af hrakförum ungs einhverfs drengs sem skilin var eftir á vergangi af Ferðaþjónustu fatlaðra. Sjá hér.

Blindrafélaginu hefur tekist að gera samninga við nokkur sveitarfélög, þar sem Reykjavíkurborg reið á vaðið, um ferðaþjónustu í samstarfi við Hreyfil. Það fyrirkomulag hefur verið að virka einstaklega vel og ekki sýnt sig vera kostnaðarsamara en aðrir ásættanlegir kostir, auk þess sem þjónustan sem fæst er mjög góð og gefur þeim sem hana nota möguleika til virkrar samfélagslegrar þátttöku. Því miður hafa tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu dregið lappirnar í að tryggja blindum og sjónskertum sambærilega þjónustu að aðrir njóta á höfuðborgarsvæðinu og hafa vísað á Ferðaþjónustu fatlaðra, en það eru Kópavogur og Mosfellsbær. 

Samfélagið ýmist dregur úr eða ýkjir áhrif og afleiðingar fötlunar með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Þessi mál eru í eðli sinu mannréttindamál og því hafin yfir það að vera afgreidd sem kröfugerð minnihlutahóps sem hafi í för með sér kostnað. 

Hér kemur greinin hennar Emblu og ég læt lesendur um að dæma hvort að sú þjónusta sem hún lýsir er boðleg. 

Ferða„þjónusta“ fatlaðra 
Embla Ágústsdóttir

FERÐAÞJÓNUSTA fatlaðra er þekkt félagslegt úrræði sem kom fram í dagsljósið þegar fatlað fólk fór að skríða út af stofnunum landsins, hægt og bítandi. Í dag er þessi „þjónusta“ hugsuð sem eins konar strætisvagnar fyrir fatlað fólk. Munur er auðvitað mikill og það er ekki á nokkurn hátt hægt að líta á strætisvagnakerfið og ferðaþjónustu fatlaðra sem einhverjar hliðstæður. Þegar farþegi ætlar að nýta sér ferðaþjónustuna þarf hann auðvitað fyrst af öllu að senda inn formlega umsókn (að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári) til síns sveitarfélags til þess að fá leyfi til að nýta sér þessa þjónustu. Að því leyfi fengnu á hann að panta ferðina með minnst dags fyrirvara, sem er svo sem ekkert stórmál. Það sem er hins vegar stórmál í þessu samhengi og veruleiki nánast allra þeirra sem þurfa að nota þessa þjónustu er að ekki er hægt að treysta því að ferðapöntunin standist. Hér á ég ekki við fimm til tíu mínútur til eða frá, stöku sinnum. Ég á við hálftíma til fimmtíu mínútna seinkun, ekki stöku sinnum, heldur oft, jafnvel oft í viku. Svo kemur það auðvitað fyrir að bíllinn kemur bara alls ekki og þá eru góð ráð dýr. Ég veit ekki hversu mörgum klukkutímum ég eyði í hverjum mánuði, starandi út um gluggann í þeirri von að hvítur bíll með blátt merki renni í hlaðið. Nú finnst eflaust sumum ég vera að velta mér upp úr einhverju „yfirstéttarvandamáli“ í stað þess að vera þakklát fyrir það sem ég þó hef. Auðvitað hef ég það mjög gott, búandi á Íslandi, og ég er afar þakklát fyrir það. Ég tel þó að mitt hlutverk sé ekki bara að þegja og brosa. Fyrir mér er þessi þjónusta sem í boði er fyrir fatlaða raunverulegt vandamál sem fáir virðast átta sig á. Ég upplifi og heyri nánast daglega eitthvað neikvætt um þessa „þjónustu“. Í fötlunarfræðum er fötlun skoðuð út frá félagslegu sjónarhorni og þá er gjarnan talað um að samfélagið „fatli“ einstaklinginn. Það er, að skert geta einstaklingsins kemur fyrst og fremst til vegna þess úrræðaleysis sem ríkir í samfélaginu. Ég hef verið mátulega hlynnt þessari nálgun hingað til. Ég hika þó ekki við að fullyrða að ferðaþjónusta fyrir fatlaða, í þeirri mynd sem hún er í dag, fatlar fólkið sem hana notar. Ég efast um að fólk átti sig almennilega á því hversu heftandi þessi þjónusta er í raun. Vegna þess hve ótraust og ónákvæm ferðaþjónustan er verður það hið mesta mál fyrir mig að geta stundað þá vinnu sem ég stefni á að gera. Ég stunda nám í framhaldsskóla þar sem mikilvægt er að vera stundvís. Því miður hef ég margoft verið of sein vegna tafa ferðaþjónustunnar. Þar að auki hef ég nú þegar starfað við stundakennslu við háskóla hér á landi og þegar ég sinni þeirri vinnu get ég ekki með nokkru móti nýtt mér þjónustuna. Ég get ekki verið hálftíma of sein í kennslustund þar sem ég sjálf er kennarinn. Vanvirðing við minn tíma er algjör. Ég þarf þá alfarið að treysta á góða vini og hugulsama ættingja sem jafnvel skreppa frá á miðjum vinnudegi til þess að ég komist í mína vinnu. Það er deginum ljósara að það fyrirkomulag sem nú ríkir hentar flestum mjög illa. Úrræðaleysið er mikið og engin lausn virðist sjáanleg. Ég er þó þeirrar skoðunar að stærsta og erfiðasta vandamálið (í þessu máli) sé það viðhorf sem virðist enn ríkja í samfélaginu. Hugsunin virðist vera sú að fatlaðir eru ekki mikilvægir, þeim liggur ekkert á, þeir þurfa ekkert endilega að mæta á réttum tíma því þeir eru hvort sem er ekki að sinna neinu mikilvægu hlutverki.
Það gefur augaleið að lítil þörf þykir á breytingum ef þetta viðhorf ræður ríkjum.
 Staðreyndin er sem sagt sú að ég get menntað mig mikið í því ágæta menntakerfi sem við höfum á Íslandi. Ég get tekið margar háskólagráður og jafnvel sérmenntað mig á ákveðnu sviði. Ég sæki um vinnu sem ég hef mikinn áhuga á og er tengd minni sérþekkingu. Hreyfihömlun mín sem slík hamlar mér ekkert í þessari vinnu.
Þetta er ábyrgðarfullt starf og í því felst mikið innanbæjarflakk þar sem ég þarf að sitja fjölda funda og mæta á ýmsar uppákomur. Ég þarf að hafna þessu
starfi vegna þess að það er ekki nokkur leið fyrir mig að sinna því sökum ferðaþjónustunnar sem í boði er fyrir mig. Viðhorfið að fatlaðir séu byrði á samfélaginu lifir greinilega enn góðu lífi. Það virðist gleymt og grafið að notendur þessarar þjónustu eru fullgildir þegnar samfélagsins og hafa margt fram að færa til þessa samfélags ef þeir aðeins fá tækifæri til þess.
 Samfélagið hefur fatlað mig og gert mínar þarfir og þekkingu óþarfar og lítils virði. Gætir þú sinnt þeirri vinnu sem þú sinnir og gert allt hitt sem gera þarf á hverjum degi ef sú ferðaþjónusta sem ég þarf að nota væri eina úrræðið sem í boði væri? 

Höfundur er framhaldsskólanemi og stundakennari.

**************************************************************************************
Friðsæll situr fagur í logninu
fléttar saman orðum í værð sinni.
Ljómar af lífsþorsta eingöngu,
Ljósálfurinn í kyrrðinni!
Höf. M.Geir


Aðgengishindrunum í undirskriftarsöfnun Nýs lýðveldis rutt úr vegi

Í gær gerði ég athugasemd við aðgengishindranir sem voru á þátttöku í undirskriftarsöfnun Nýs lýðveldis fyrir blinda og sjóskerta notendur skjálestrarbúnaðar. Við þessum athugasemdum var brugðist á mjög jákvæðan hátt og hindrunin rutt úr vegi. Rétt er að færa viðkomandi þakkir fyrir skjót og jákvæð viðbrögð.

Aðgengishindranir í undirskriftarsöfnun Nýs lýðveldis

Athygli Blindrafélagsins hefur verið vakin á því að undirskriftarsöfnunin á vefsíðunni http://nyttlydveldi.is er ekki aðgengileg þeim sem notast við skjálesara. Sjá hér svar frá Sigrúnu Þorsteinsdóttur hjá Sjá varðandi hvað er athugavert:

"Þetta er svokölluð CAPTCHA eða ruslpóstvörn og er falin í kóðanum þ.e. ekki sýnileg skjálesurum og ekki með ALT texta. Þetta er auðvitað óþolandi. Mun betri lausn er að nota einfalt reikningsdæmi eins og t.d. mbl gerir. Það mætti benda þeim á að sú lausn virki fyrir langflesta notendur. Einnig má nota einfalda spurningu eins og "Hvernig er rautt epli á litinn?" (og notandi skrifar þá svarið "Rautt" í reitinn) eða álíka. Spambotar (eða ruslpóst vefþjónar) skilja ekki íslensku og þar af leiðandi geta þeir ekki komist fram hjá þessari hindrun. Erlendis er bannað að nota óaðgengilegt CAPTCHA eins og hér er gert."

Þar sem ég geri fastlega ráð fyrir því að það hafi ekki verið meiningin að útiloka blinda og sónskerta sem notast við skjálesara, frá því að taka þátt í undirskriftajöfnunni, reikna ég með að þessu verði kippt í lag án tafar. Að öðrum kosti verður ekki önnur ályktun dregin en hér sé  verið að mismuna fólki og brjóta mannréttindi með aðgengishindrunum.

Því miður er það of algengt að aðilar, og þá jafnvel þeir sem tengjast réttindabaráttu á einn eða annan hátt, verða vísir að því í hugsakleysi sínu að setja upp aðgengishindranir á nettengdu efni. Þar má t.d. nefna svipað dæmi og hér er rakið og notkun á pdf skjölum sem viðhengi með tölvupóstum. Í raun er það svo að í því upplýsingasamfélagi sem við lifum í er engin afsökun gild fyrir því að huga ekki að aðgengi fyrir alla í þeim verkum og aðgerðum sem framkvæmd eru á netinu. Hér er um klárt mannréttindamál að ræða. Upplýsingar og leiðbeiningar varðandi þessi mál er hægt að fá hjá Sigrúnu Þorsteinsdóttur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Sjá. 


200 ára afmæli Louis Braille höfundar blindraletursins

Þann 4 janúar 2009 voru liðin 200 ára frá fæðingu hins franska Louis Braille.  Samtök blindra og sjónskerta um allan heim minnast þessara tímamóta og heiðra um leið minningu þessa merka  manns sem fann upp blindraletrið.

Fyrsta skipulagða menntunin
Fyrr á öldum var ekki talin ástæða til að gefa blindum eða sjónskertum tækifæri til mennta. Það var ekki fyrr en 1784 að fyrsta skipulagða námið fór af stað í París fyrir tilstilli frakkans Valentin Hauy þegar hann stofnaði blindraskólann Royal Istitute of Blind Youth.  Hauy lagði áherslu á (innleiddi) upphleypt letur sem byggði á stafrófi sjáandi, stækkaðir stafir sem voru upphleyptir. Bækur með þessu letri urðu yfirgripsmiklar og þungar, ein bók gat orðið 50 kg. Þetta kerfi hafði einnig þann annmarka að nemendur gátu ekki lært  að skrifa.  Þessar tilraunir settu af stað umræður um hvort blindir nemendur ættu endilega  að nota ritmál sjáandi og hvort ekki væri ástæða til að þróa eigið kerfi sem hentaði þeim betur. 

Louis Braille
Louis Braille (1809 - 1852) varð blindur vegna slyss á vinnustofu föður síns.  Hann  var 3ja ára þegar hann slasaðist á auga á skurðhníf föður síns, sem var söðlasmiður. Fékk hann síðan sýkingu í heilbrigða augað sem leiddi til þess að hann varð blindur á báðum augum þegar hann var aðeins fimm ára gamall. Tíu ára varð hann nemandi við Royal Istitute of Blind Youth. Vistin í skólanum var erfið og þurftu nemendur oft að sætta sig við gamalt og hart brauð og vatn í matinn  og misþyrmingar og innilokun sem refsingar. Louis Braille var skarpur og skapandi nemandi og varð fljótlega afburðar selló og orgel leikari og spilaði  í kirkjum víða um Frakkland.

Blindraletrið verður til
Árið 1821 kom foringi úr franska hernum í heimsókn í skólann sem Louis Braille var í til að kynna  upphleypt  letur sem var sambland af strikum og punktum og var kallað "næturletur". Hugmyndin að baki þessu letri var sú að með því gátu hermenn á stríðstímum komið skilaboðum hver til annars , án þess að tala og eins að eiga á hættu að óvinurinn skildi skilaboðin kæmust þau í hans hendur. Kerfið samanstóð af tólf  táknum sem gerði lesturinn bæði erfiðan og tímafrekan. Þetta sama ár, eða þegar Louis er 12 ára, byrjar hann í fullri alvöru að þróa ritkerfi sem gæti nýst blindum til lesturs og skriftar. Hann sat daga og nætur við að prófa sig áfram og loksins, árið 1824 gat Louis Braille, þá aðeins fimmtán ára gamall,  kynnt blindraleturskerfið sem síðan hefur verið kennt við hann og kallast  Braille. Þetta kerfi samanstóð af sex punktum.  Megin framförin frá „næturletrinu" fólst í því að við Braille letrið var upbyggt þannig að allir stafir í stafrófinu áttu sér tákn  byggt á 6 punkta kerfi  meðan að „næturletrið" byggði á 12 tákna kerfi sem samsvörðu til hljóða. Braille letrið var jafnframt mun auðveldara í notkun bæði til lestrar og skriftar og með einni snertingu fingurgóms mátti greina hvern staf  og því bauð letrið upp á mun fljótlegri lestur. Louis Braille þróaði síðan letrið enn frekar þannig að hægt að að lesa stærðfræðitákn og nótur.

Braille deyr áður en blindraletrið öðlast viðurkenningu
Louis Braille varð einn af kennurum við Royal Institude for Blind Youth og var í miklum hávegum hafður meðal nemenda. Þrátt fyrir að margir væru uppnumdir yfir uppgötvun Louis Braille var letrið hans ekki kennt við skólann þann tíma sem hann lifði. Það leið raunar langur tími þar til letrið var að fullu viðurkennt og virt. Helsta hindrunin voru viðhorf sjáandi leiðbeinenda og kennara sem töldu að upphleypt prentletur (stafróf fyrir sjáandi) væri betra en stafróf sem þeir gætu ekki sjálfir lesið. Louis Braille veiktist vegna heilsuspillandi aðbúnaðar í skólanum og dó árið 1852, 43 ára að aldri. Tveimur árum seinna eða 1854 viðurkenndu frönsk stjórnvöld  opinberlega blindraletur Brailles. Það breiddist fljótt út um Evrópu  og síðar allsstaðar um heiminn sem alþjóðlegt ritmál blindra.

Eiginleikar blindraletursins
Grunnurinn í letrinu eru sex punktar sem raðað er í tvær raðir lóðrétt með þremur punktum í hverri röð. Punktarnir eru gjarnan nefndir með númerum , punktar einn, tveir og þrír í vinstri röð og punktar fjórir, fimm og sex í þeirri hægri. Samsetning punktanna sex getur verið á 63 mismunandi vegu og getur táknað bókstafi, tölur, ýmis tákn eins og kommur, upphrópunarmerki o.s.frv. Ákveðið bil er á milli punktanna sem er nákvæmlega útreiknað til að tryggja að hægt sé að finna samsetningu hvers stafs/tákns fremst á fingurgómnum. Blindraletur er lesið með fingrunum og skynjast í gegnum hreyfingu handanna með jafnri og hraðri hreyfingu yfir punktana. Bestu lesararnir nota báðar hendur við lesturinn í samspili þar sem vinstri höndin les vinstri hlutann af síðunni (línunni) meðan hægri höndin mætir þeirri vinstri á miðjunni og les línuna út. Góðir blindraleturslesarar hafa góðar fínhreyfingar og greina vel mismunandi tákn með snertiskyninu. Þeir lesa með léttu og afslöppuðu þrykki og nota hendurnar lóðrétt yfir punktana, lesa með báðum höndum saman, með flesta fingur á línunni.

Grein þessi var birt í Morgunblaðinu á síðu 26 fimmtudaginn 8 janúar 2009.


Blindraletur í sjónvarpsfréttum RUV

Í sjónvarpsfréttum hjá RUV þriðjudaginn 6 janúar var sagt frá því að 200 ár eru um þessar myndir liðnar frá fæðingu Loius Braille, höfundar Blindraletursins. Í fréttinni var einnig fjallað um stöðu blindraletursins hér á landi. Fréttina má sjá hér.

Sá hluti fréttarinnar að eini blindraletursprentarinn í hinni nýju Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, sé bilaður, hefur vakið nokkra athygli. Við mig hafa haft samband aðilar sem hafa lýst áhuga á að standa fyrri eða koma að söfnun fyrir nýjum prentara. Slíkt er þakkarvert og spennandi verður að sjá hvort eitthvað kemur út úr því.


Why Braille is brilliant

Fáar uppgötvanir hafa verið eins einfaldar og samt svo frelsandi eins og blindraletrið. Í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu  Louis Braille, (4 janúar 1809) sem fann upp blindraletrið, ritar Davd Blunkett fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands um það hvernig blindraletrið mótaði líf hans frá unga aldri með því að vera honum gluggi úti í heiminn.

Greinina má les á vef BBC hér.

Samtök blindra og sjónskertra út um allan heim minnast þess að nú eru liðin 200 ára frá fæðingu þess merka manns sem Louis Braille var. Von er á frekari umfjöllun af þessu tilefni á þessu vettvangi sem og annarstaðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband