Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bónus og Reykjavíkurborg veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins

Í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá stofnun Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur stjórn félagsins ákveðið að stofna til viðurkenningar sem  veitt verður fyrirtækjum eða stofnunum og mun bera nafnið:

„Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi"

Samfélagslampi Blindrafélagsins er einstakur gripur, handsmíðaður af  Sigmari Ó Maríussyni, gullsmíðameistara. Um er að ræða upphleypta lágmynd úr silfri sem sýnir lampann úr merki Blindrafélagsins. Lampinn er festur á sagaða og slípaða steinflís úr skagfirsku blágrýti. Steinflísin stendur á tveimur járnpinnum á blágrýtisfæti. Á fætinum er síðan silfurskjöldur með áletrun um verkið og tilefni þess.

Tilgangurinn með Samfélagslampanum er að vekja athygli á fyrirtækjum eða stofnunum sem með einum eða öðrum hætti hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga.

Samfélagslampinn er veittur í fyrsta skiptið á 70 ára afmælidegi Blindrafélagsins þann 19. ágúst 2009, á hátíðarsamkomu sem haldinn er í tilefni þessara merku tímamóta.

Fyrstir til að hljóta þessa viðurkenningu eru tveir aðilar sem á mjög ólíkan hátt hafa stuðlað að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra einstaklinga. Þessir aðilar eru: Bónus og Reykjavíkurborg.

Bónus verslununum er veittur Samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir áralangt traust viðskiptasamband við Blindravinnustofuna, sem er starfsþjálfunar- og endurhæfingarvinnustaður í eigu Blindrafélagsins. Viðskiptasamband Bónus og Blindravinustofunnar, sem staðið hefur allt frá því að Bónus hóf starfsemi, felst fyrst og fremst í því að Bónus gefur Blindravinnustofunni tækifæri til að keppa á markaði á eigin verðleikum með sölu þeirra vörutegunda sem vinnustofan býður upp á.

Eftirfarandi áletrun er á Samfélagslampanum sem veittur er Bónus:


„Stuðningur til sjálfstæðis
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Veittur verslunum Bónuss árið 2009 fyrir áralangt traust samstarf við Blindravinnustofuna."

Reykjavíkurborg er veittur samfélagslampi Blindrafélagsins fyrir Ferðaþjónustu blindra  í Reykjavík. Ferðaþjónustan, sem rekin hefur verið með núverandi sniði frá 1997, hefur aukið verulega sjálfstæði allra blindra Reykvíkinga allt frá því að hún var sett á laggirnar. Ferðaþjónustan gengur í stuttu máli út á að einstaklingur sem er með lögheimili í Reykjavík og hefur greinst lögblindur, fær mánaðalega allt að 60 ferðir með leigubíl á strætisvagnafargjaldi. Dæmi eru um að lögblindir einstaklingar hafa haldið áfram að vera virkir á vinnumarkaði og félagslífi  - allt vegna ferðaþjónustu blindra.

Það er fátt ef nokkuð sem skerðir sjálfstæði blindra og sjónskertra meira en að  komast ekki ferða sinna á sjálfstæðan máta.

Reykjavíkurborg er eina sveitarfélag landsins sem getur státað að því að veita ferðaþjónustu fyrir fatlaða sem kemst nálaæt því að uppfylla ákvæði Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en Ferðaþjónusta blindra í Reykjavík uppfyllir þau ákvæði.

Áletrunin á Samfélagslampa Reykjavíkurborgar er svohljóðandi:


Stuðningur til sjálfstæðis
Samfélagslampi Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
Veittur Reykjavíkurborg árið 2009 fyrir ferðaþjónustu blindra."

Samfélagslampar Blindrafélagsins 2009


Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra 70 ára í dag, 19 ágúst.

Hátíðardagskrá í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins verður haldinn á  Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2,  miðvikudaginn 19 ágúst.

Húsið verður opnað klukkan 15:00 og verða kaffiveitingar í boði frá klukkan 15:30.

Hátíðardagskrá hefst klukkan 16:00.

Allir félagsmenn og velunnarar félagsins eru boðnir velkomnir til afmælisfagnaðarins.

Meðal dagskráratriða eru ávörp frá félagsmálaráðherra og borgarstjóra.

Í fyrsta skiptið verður Samfélagslampi Blindrafélagsins  veittur. En hann er veittur fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa stuðlaða að auknu sjálfstæði blindra og sjónskertra.

Reykjavíkurborg verður veittur lampinn fyrir akstursþjónustu blindra í Reykjavík og Bónus fyrir áralangt og trausts samstarf við Blindravinnustofuna.

Blindrafélagið var stofnað þann 19 ágúst 1939 af einstaklingum sem vildu stuðla að því að blindir einstaklingar tækju stjórn sinna mála í eigin hendur. Stofnfélagar sem allir voru blindir  voru: Benedikt K. Benónýsson, Einar Guðgeirsson, Elísabet Þórðardóttir, Guðmundur Eyjólfsson, Guðmundur Jóhannesson, Guðrún Sigurðardóttir, Höskuldur Guðmundsson, Jóhann S. Baldvinsson, Margrét Andrésdóttir og Rósa Guðmundsdóttir. Aukafélagar sem voru sjáandi voru: Björn Andrésson, Björn Jónsson og Trausti Kristinsson.

Fyrsti formaður félagsins var Benedikt Benónýsson. 

Uppbygging og rekstur Blindravinnustofunnar og fasteigna félagsins hefur sett svip mikinn svip á sögu félagsins. Í dag á félagið fasteign að Hamrahlíð 17, þar sem öll starfsemi félagsins og Blindravinnustofunnar er til húsa, ásamt annarri starfsemi.

Mörg af brýnustu hagsmunamál blindra hafa náðst fram af frumkvæði félagsins, má þar nefna Blindrabókasafn Íslands, Sjónstöð Íslands og núna nýlega Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrri blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Eitt af mikilvægustu hagsmunamálum blindra og sjónskertra í dag er að hinni nýju Þjónustu þekkingarmiðstöð fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga, sem tók til starfa 1 janúar s.l., fái tækifæri til að vaxa með eðlilegum hætti og byggja upp þjónustu sem er samboðin þeirri samfélagsgerð sem við viljum búa við.

Aðgengismál í sinni breiðustu mynd eru blindum og sjónskertum einnig mikilvæg, það er aðgengi að upplýsingum, aðgengi að atvinnutækifærum, aðgengi að menntun, aðgengi að ferðaþjónustuúrræðum og svo mætti áfram telja.

Saga blindra á Íslandi er til á bók sem var rituð af Þórhalli Guttormssyni og kom út 1991. Þar má m.a. lesa um stofnun félagsins og starfsemi þess fram til ársins 1990. Jafnframt er leitast við að gera grein fyrir málefnum sem tengjast hagsmunum blindra á breiðari grundvelli og lengra aftur í tímann.

 

 


Grimmar og ósanngjarnar tekjuskerðingar vegna fjármagnstekna sem ættu að vekja mikla athygli

Nú um mánaðarmótin munu þúsundir öryrkja og ellilífeyrisþega fá bréf frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) þar sem þeir verða krafðir um endurgreiðslu á bótum vegna fjármagnstekna. Frítekjumark vegna fjármagnstekna er einungis krónur 97.000 á ári. Margir hafa með ráðdeild og hagsýni náð að búa sér til varasjóð til að bregðast við óvæntum aðstæðum eins og auknum kostnaði vegna tannviðgerða eða til að sinna viðhaldi húsnæðis síns og bifreiða. Því munu endurgreiðslukröfur TR koma illa við marga og minnir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB) á að öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa nú þegar orðið fyrir miklum skerðingum hjá TR og lífeyrissjóðum svo ekki sé talað um þær almennu hækkanir sem allir landsmenn hafa fundið fyrir undanfarna mánuði. ÖBÍ og LEB benda á að ekki séu samræmdar reglur vegna fjármagnstekna milli atvinnulausra, námsmanna og lífeyrisþega. Atvinnulausir mega hafa 59.000 í fjármagnstekjur á mánuði áður en bætur skerðast. Fjármagnstekjur hafa ekki áhrif á lánveitingu frá LÍN. 

ÖBÍ og LEB fara því fram á við félags- og tryggingamálaráðherra að skerðingar vegna fjármagnstekna verði endurskoðaðar með það að markmiði að draga úr þeim þannig að lífeyrisþegum sé ekki refsað jafn grimmilega og nú er gert fyrir að eiga varasjóði inni á bankabókum.

Sameiginleg ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslans og Landssambandi eldri borgara send út 29 júlí 2009.   

 


Blindrafélagið og Íslandsbanki saman gegn aðgengishindrunum í heimabankanum

Mikilvægi þess að þétta öryggisgirðingar fyrir netbankanotkun hafa aukis mjög að undanförnu vegna sívaxandi tilrauna tölvuþrjóta til að fá aðgang að bankareikningum almennings. Þessar auknu öryggisráðstafanir hafa í mörgum tilvikum haft í för með sér aðgengishindranir fyrir blinda og sjónskerta notendur. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi og Íslandsbanki hafa nú ákveðið að taka upp samstarf um að ryðja úr vegi aðgengishindrunum sem mæta mörgum blindum og sjónskertum notendum heimabankans. Samkomulag hefur orðið um tvennskonar aðgerðir. Í fyrsta lagi að bjóða félögum í Blindrafélaginu upp á fríar gsm sendingar á auðkennislyklanúmeri og síðan að fá blinda og sjónkerta notendur til að ver í sérstökum prófunarhóp fyrir rafræn skilríki. 

Fríar sms sendingar

 Samstarfi Blindrafélagsins og Íslandsbanka varðandi fríar smsm sendingar gengur út á að Blindrafélagið muni senda bankanum tilheyrandi upplýsingar um félaga Blindrafélagsins, sem eru í viðskiptum við Íslandsbanka og vilja nýta sér að fá sendan auðkennislykilinn frítt með sms skilaboðum í farsímann sinn. Eitt af því sem hefur verið gert í öryggisskyni er að bæta inní millifærsluaðgerðina þeirri virkni að þegar millifært er á aðila sem ekki hefur verið millifært á síðustu 24. mánuðina þarf að slá inn auðkennisnúmer ásamt tveimur undirstrikuðum stöfum. Hægt er að fá þetta sent í smsi þ.e. bæði númerið og undirstrikuðu stafina.  Þeir félagar Blindrafélagsins og viðskiptavinir Íslandbanka, sem hafa áhuga á að nýta sér þessa þjónustu eru því beðnir um að senda á khe@blind.is upplýsingar um nafn, kennitölu og gsm símanúmer Hér fyrir neðan er tilkynningin frá Samtökum fjármála fyrirtækja varðandi Nadebanker trójuhestinn. Vegna þessa hefur þurft að efla öryggið í Netbankanum.

SFF vara við spilliforriti

15.4.2009 Að undanförnu hefur borið á spilliforriti á Netinu, svokölluðum Nadebanker Trójuhesti, sem dreifir sér í gegnum veraldarvefinn, fylgist með tölvunotkun og sækir upplýsingar í tölvur notenda í þeim tilgangi að misnota þær. Spilliforritinu virðist m.a. ætlað að komast yfir aðgangsupplýsingar netbankanotenda. Ekkert fjárhagstjón hefur orðið hér á landi til þessa af völdum Nadebanker, en reynslan frá nágrannaríkjum Íslands kennir að mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis við netnotkun til að koma í veg fyrir slíkt.Ljóst er að öryggi tölva margra netnotenda er ábótavant og þær liggja því vel við höggi tölvuþrjóta. Af þessu tilefni vilja Samtök fjármálafyrirtækja ( SFF) ítreka fyrir netnotendum að tryggja að tölvur þeirra hafi viðurkennda vírusuvörn og að stýrikerfi og önnur forrit séu ávallt með nýjustu uppfærslum. Dæmi um forrit sem Nadebanker hefur notað sem smitleið eru Adobe Acrobat, Apple Quick Time, Real Player og Java.Rétt er að árétta að íslensk fjármálafyrirtæki standa mjög framarlega á sviði öryggismála og er sú vinna í stöðugri þróun undir forystu SFF. SFF eiga í nánu samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, lögreglu og fleiri aðila um aðgerðir til að tryggja áframhaldandi öryggi í netviðskiptum og koma í veg fyrir að spilliforrit sem þetta valdi tjóni.

Hvað geta tölvunotendur gert?

Á heimasíðu SFF má finna gátlista um gagnaöryggi á netinu með upplýsingum um hvað ber almennt að varast við netnotkun og meðferð aðgangsupplýsinga. Einnig eru góðar upplýsingar um netöryggi að finna á www.netoryggi.is. Þá er rétt að árétta fyrir notendum netbanka að fylgjast reglulega með stöðu yfirlits og sannreyna að upplýsingar séu réttar áður en greiðsla í netbanka er samþykkt. Allir notendur netbanka sem ekki eru með nýjustu uppfærslur á forritum og stýrikerfi og uppfærðar vírusvarnir eru í áhættuhópi.“ 

Blindir og sjónskertir notendur í prufuhópa fyrir rafræn skilríki

 Blindrafélagið og Íslandsbanki hafa í sameiningu ákveðið að  bjóða félögum Blindrafélagsins, sem eru viðskiptavinir Íslandbanka, upp á að vera í sérstökum hóp sem prófar að vinna með rafræn skilríki, sem nú eru í þróun. Þeir sem vilja taka þátt í þessari þróunarvinnu er beðnir um að senda á (khe@blind.is) eftirfarandi upplýsingar: nafn, kennitölu og reiknisnúmer. Undanfarin ár hafa bankarnir í samstarfi við ríkið unnið að því að koma rafrænum skilríkjum á debetkort. Íslandbanki vill núna bjóða blindum og sjónskertum viðskiptavinum bankans að prófa þessa lausn og athuga hvort hún henti. Ef hún hentar vel vill bankinn í framhaldinu bjóða öllum þeim sem vilja uppá debetkort með rafrænum skilríkjum á.  Hérna fyrir neðan er smá kynningartexti um rafræn skilríki. Einnig er hvatt til þess að skoða einnig efni á síðunni www.skilriki.is. 

Rafræn skilríki á debetkortum

Nú er hægt að fá debetkort með rafrænum skilríkjum. Rafræn skilríki sem gefin eru út á debetkortum uppfylla íslenskar og evrópskar lagareglur og eru liður í því að auka öryggi og trúnað í rafrænum samskiptum.  Rafræn skilríki er hægt að nota til auðkenningar og undirskriftar á Netinu. Auðkenning með rafrænum skilríkjum kemur í stað notkunar á notendanafni og lykilorði. Sömu skilríki eru notuð til auðkenningar hjá öllum sem bjóða upp á auðkenningu með rafrænum skilríkjum. Þess vegna þarf ekki lengur að muna sérstakt notendanafn og lykilorð fyrir hvern og einn, aðeins eitt fjögurra stafa PIN-númer. Rafræn skilríki er einnig hægt að nýta til að undirrita, rafrænt, skjöl sem áður þurfti að skrifa undir á pappír. Til þess að undirrita skjöl þarf að muna sex stafa undirritunar PIN-númer.  Kostir rafrænna skilríkja:
  • Notendanöfnum og lykilorðum fækkar
  • Einfaldara aðgengi – aðgangur að frekari upplýsingum og þjónustu.
  • Spara sporin, tíma og fjármuni – hægt er að ganga frá hlutum hvenær sem er, hvar sem er. Skiptir engu hvort þú sért heima við, í vinnunni eða hjá þjónustuaðila.
  • Auka öryggi í samskiptum – vafasamir einstaklingar geta ekki villt á sér heimildir.
  • Kemur í veg fyrir hlerun – óviðkomandi komast ekki inn í gagnasendingar (greiðslukortanúmer, viðskiptaleyndarmál, heilsufarsupplýsingar o.fl.).
  • Fölsun – ekki hægt að breyta gögnum né þykjast vera annar en maður er.
  • Höfnun viðskipta – ekki hægt að hafna skuldbindingum (viðskiptasamningar, skattaskil, verðbréfaviðskipti o.fl.).
 Blindrafélagið hefur síðan áform um að kynna þetta samstarf fyrir öðrum bankastofnunum og fá þær til samskonar samstarfs.

Ungt, blint og sjónskert fólk Samfélag, sjálf og skóli

Blindrafélagið, í samstarfi við Háskólaútgáfuna og með stuðningi Blindravinafélagsins, hefur gefið út á bók meistararitgerð Helgu Einarsdóttur í fötlunarfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber nafnið: Ungt, blint og sjónskert fólk. Samfélag, sjálf og skóli. Í kynningu á bókarkápu segir
„Hvernig tekst ungt blint og sjónskert fólk á við daglegt líf  í samfélagi sem gerir ráð fyrir að allir hafi fulla sjón? Í þessari bók er kynnt fyrsta íslenska rannsóknin sem leitar svara við þeirri spurningu. Bókin byggist á rannsókn Helgu Einarsdóttur með blindu og sjónskertu fólki á aldrinum 16 – 26 ára á því að vera „öðruvísi“ í íslensku samfélagi. Bókin veitir einstaka innsýn í veröld þeirra. Í umfjöllun sinni samþættir Helga persónulega, faglega og fræðilega þekkingu, innblásin af baráttuanda fyrir jafnrétti, mannréttindum og samfélagsþátttöku blinds og sjónskerts fólks.“
Bókin er fáanleg í bókabúðum og einnig er hún til sölu á skrifstofu Blindrafélagsins. Hljóðbók fylgir hverju seldu eintaki. Bókin er einnig fáanleg á blindraletri sem og á stækkuðu letri.  

Eftir að hafa lesið bókina, er ég þeirrar skoðunar að allir þeir sem starfa að málefnum sem snerta blinda eða sjónskerta einstaklinga, verði að lesa þessa bók. Að mínu viti er hér um tímamótarit að ræða sem er málefnum blindra og sjónskertra einstaklinga virkilega dýrmætt. 

Helga Einarsdóttir varð bráðkvödd síðast liðið sumar rétt fyrri 43 ára afmælisdag sinn og hafði þá nánast lokið við að skrifa ritgerðina. Hér má sjá minningargrein sem ég skrifaði um Helgu.

 

Halldór Rafnar kvaddur

Fimmtudaginn 7 maí, var Halldór Rafnar borinn til grafar, en hann lést að morgni 1 maí. Hér að neðan fara minnigarorð og kveðja frá Blindrafélaginu sem Gísli Helgason ritaði, en hann þekkti Halldór Rafnar vel. Halldór var formaður og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins um árabil. 

 

Hér má jafnframt hlusta á viðtal sem Gísli Helgason tók við Halldór Rafnar árið 1976 og nefnist.: Hvernig bregðast menn við sem missa sjón.

 

Kveðja frá Blindrafélaginu 

 

Þegar Halldór Rafnar kom fyrst á fund hjá Blindrafélaginu í febrúar 1975 var honum tekið með eftirvæntingu. Hann missti sjónina rúmu ári áður og var nú að takast á við lífið sem alblindur maður. Eftir þetta fór hann að láta til sín taka í félaginu. Hann dreif sig í 10 vikna endurhæfingu til Torquy í Bretlandi fyrstur blindra manna og kom þaðan gjörbreyttur maður. Fullur af lífskrafti, stálvilja og jákvæðni. Fljótlega var hann kjörinn í stjórn Blindrafélagsins. Varð formaður þess árið 1978 til 1986. Með komu Halldórs opnaðist félagið mjög og almenningur vissi meir um þennan þjóðfélagshóp. Halldór var óþreytandi að kynna málefni blindra og sjónskertra. Hann vakti athygli á mörgum brýnum baráttumálum þessa hóps og gerði það þannig á svo jákvæðan hátt að eftir var tekið. Þá talaði hann feimnislaust um það hvernig það væri að vera blindur og þær miklu breytingar sem hann varð að takast á við eftir að hann missti sjónina alveg. Á þessum árum urðu gríðarlegar viðhorfsbreytingar til blindra og sjónskertra hér á landi. Halldór átti þátt í að hrynda mörgum hugmyndum í framkvæmd ásamt fleirum eða studdi þær með ráðum og dáð. Má nefna að Blindrafélagið stofnaði hljóðbókagerð, hóf samstarf við Borgarbókasafn Reykjavíkur um framleiðslu hljóðbóka. Þá átti Halldór sæti í nefnd sem vann að stofnun Blindrabókasafns Íslands og varð stjórnarformaður þess. Sjónstöð Íslands tók til starfa á þessum árum. Þá varð Blindrafélagið ásamt Blindravinafélagi Íslands aðili að elli og hjúkrunarheimilinu Eir og sambýli blindra og sjónskertra við Stigahlíð í Reykjavík varð til.

Þá hóf Blindrafélagið útgáfu hljóðtímaritsins Valdra greina sem enn er gefið út. Halldór notfærði sér það og var ötull við að rabba við félagsmenn þar. Árið 1990 var tölvutæknin æ meira að ryðja sér til rúms. Halldór nýtti sér lítið þá tækni en það kom ekki í veg fyrir að hann beitti sér fyrir því ásamt öðrum að Morgunblaðið tók að huga að útgáfu blaðsins á tölvutæku formi fyrir blinda og sjónskerta. Morgunblaðið er enn leiðandi á því sviði hér á landi. Þar nýtti Halldór persónuleg sambönd sín til hins ýtrasta sem komu sér oft afar vel í baráttunni. Þá hvatti Halldór fólk stöðugt til dáða hvað menntun og atvinnu varðar. Hann var óþreytandi að sannfæra almenning um getu blindra og sjónskertra og að þeim væru allar leiðir færar, væru skapaðaðar réttar aðstæður. Þegar fyrsta stjórn Blindrabókasafnsins var skipuð varð Halldór stjórnarformaður. Fljótlega reyndi svo á hann þar að fáir myndu hafa staðist þá raun. Blindum manni var hafnað í stjórnunarstöðu þar þrátt fyrir menntun og hæfni en Halldór stóð einn eins og klettur á móti allri stjórn safnsins. Leikar fóru svo að þáverandi forsætisráðhera hjó á hnútinn. Þá varð Halldór fyrirvaralaust framkvæmdastjóri Blindrafélagsins sumarið 1985 og gegndi því starfi til ársins 1994. Þáverandi framkvæmdastjóri félagsins varð uppvís að stórfelldum fjárdrætti. Þá hafði blindum manni aldrei verið falið slíkt verk áður. Halldór sýndi og sannaði að það borgar sig margfalt að hafa æðstu stjórnendur félagasamtaka úr röðum þeirra sem viðkomandi félög þjóna. Þá tók Halldór mikinn þátt í Norðurlandasamstarfi Blindrafélaganna og varð tvisvar sinnum formaður samstarfsnefndar þeirra. Hann var mjög virtur á þeim vettvangi. Félagar hans á hinum Norðurlöndunum höfðu á orði að hann segði ekki margt á fundum en þegar hann tók til máls var eftir því tekið. Hann var sagður hlusta, fá hugmyndir, færi svo til Íslands og framkvæmdi hlutina. Sem dæmi um vinnubrögð Halldórs má nefna að fyrir mörgum árum ákvað þáverandi fjármálaráðherra að skattleggja happdrætti líknarfélaga. Annar höfunda þessarar greinar fór á fund ráðherra með Halldóri. Ráðherrann sló úr og í og gaf lítil svör en var skemmtilegur. Eftir 20 mínútna samtal hringir síminn og ráðherrann sagðist verða að taka símann. Halldór sat sem fastast og sagði: “Ég vil fá að vita. Ætlarðu að skattleggja happdrætti líknarfélaga. Ég vil fá svar já eða nei”. Ráðherrann dró við sig svarið og svaraði svo ákveðið “Nei”. Þá gat hann tekið símann í næði.

Með Halldóri Rafnar er genginn einn öflugasti forystumaður blindra og sjónskertra á liðnum árum. Hans verður minnst fyrst og fremst fyrir áræði, ljúfmennsku og jákvætt hugarfar. Hann sá eitthvað gott í öllum. Blessuð sé minning hans.

 

Gísli Helgason fyrrum formaður Blindrafélagsins

Kristinn Halldór Einarsson formaður Blindrafélagsins samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.


Stuðningur til Sjálfstæðis - Vorhappdrætti Blindrafélagsins

Í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, gefur félagið öllum þeim sem kaupa miða í happdrætti félagsins sjóntryggingu að verðmæti 100 þúsund bandaríkjadala. Sjóntryggingin gildir gegn sjónmissi af völdum slysa frá útdráttardegi og til ársloka 2009.

Happdrættið er Blindrafélaginu mikilvægt

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi,  fjármagna starfsemi sína að langmestu leyti með sjálfsaflafé. Þar gegnir happdrætti félagsins, með sínum glæsilegu vinningum, veigamiklu hlutverki.

Með því að kaupa happdrættismiða tekur þú virkan þátt í að styðja til sjálfstæðis blinda og sjónskerta einstaklinga á öllum aldri og stuðlar þannig að auknum lífsgæðum þeirra og um leið betra samfélagi.

Meðal ávinninga og verkefna Blindrafélagsins með ykkar stuðningi

Aksturþjónusta, Blindrabókasafnið, Blindravinnustofan, Daisy mp3 hljóðbókaspilarar, félagslíf 2-3 í viku fyrir blinda og sjónskerta eldri borgara, íbúðir, leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta, námsstyrkir til menntunar fagfólks, sambýli fyrir fjölfatlaða einstaklinga, Sjónstöð Íslands núna Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Rafrænir happdrættismiðar - Seðilnúmer er happdrættismiðanúmer

Rafrænir happdrættismiðar koma inn í heimabanka landsmanna miðvikudaginn 29. apríl sem valkrafa. Vinsamlegast athugið að seðilnúmerið á valkröfunni er einnig miðanúmer happdrættismiðans. Jafnframt voru sendir hefðbundnir miðar á alla einstaklinga 65 ára og eldri. Mánudaginn 27. apríl var send á öll heimili landsins ýtarleg kynning á happdrættinu og starfsemi Blindrafélagsins. Happdrættismiðinn kostar 1.939 krónur og er það tilvísun í stofnár félagsins, en Blindrafélagið var stofnað 1939 og er því 70 ára í ár.

Við viljum benda fólki á að prenta út upplýsingar um miðakaupin þegar krafan hefur verið greidd.

Ef þessi aðferð við miðakaup hentar þér ekki, getur þú hringt til okkar í síma 525 0000 og keypt miða með greiðslukorti.

Sjóntryggingin

Sjóntryggingin gildir fyrir alla sem greiða miða frá 12. Júní til næstu áramóta. Tryggingin gildir gegn varanlegri blindu(90% sjónmissir eða meira) af völdum slysa.
Ef kaupandi er þegar sjóntryggður (þ.e. styrktarfélagi eða góðvinur) þá getur sjóntryggingin gild fyrir annan einstakling (Í slíkum tilfellum þarf að fá uppgefna kennitölu greiðandans og þess sem á að fá trygginguna).

Meðal frábærra vinninga í ár

Mitsubishi Lancer Sedan að verðmæti kr. 3.640 þús.
Mitsubishi Colt, 5 dyra að verðmæti kr. 2.390 þús.
30 ferðavinningar að verðmæti kr. 500 þús.með
Heimsferðum
100 ferðavinningar, hver að verðmæti kr. 250 þús. með Heimsferðum.
75 gistingar hjá Fosshótel, hver að verðmæti kr. 60 þús.

Samtals eru 207 skattfrjálsir vinningar að verðmæti 50,5 milljónir króna.

Útdráttur

Vinningar verða dregnir út föstudaginn 12 júní. Upplýsingasími er 525 0000              . Vinningaskrá verður birt á heimasíðu Blindrafélagsins og á síðu 290 í textavarpi sjónvarpsins. Einnig getur fólk hring til Blindrafélagsins og gefið upp kennitöluna sína og fengið upplýsingar um hvort það hafi unnið.
Útgefnir miðar eru samtals 156000. Vininga ber að  vitja innan árs frá útdrætti.  

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Börn og ungmenni

Á Íslandi eru á annað hundrað börn og ungmenni sem eru sjónskert (minna en 30% sjón) eða blind. Blindrafélagið berst fyrir því að þeim gefist kostur á sömu menntunarmöguleikum og jafnöldrum þeirra stendur til boða. Er það m.a. gert með því að styrkja fjárhagslega fagfólk til náms til að kenna og leiðbeina um kennslu blindra og sjónskertra einstaklinga.

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Að vera virkur í samfélaginu

Einstaklingum sem eru á virkum atvinnualdri og eru blindir eða sjónskertir er jafn mikilvægt og öðrum að taka virkan þátt í samfélaginu með atvinnuþátttöku og geta lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi.Blindrafélagið leggur sitt af mörkum til að svo megi vera t.d. með fræðslu, ráðgjöf, akstursþjónustu, leiðsöguhundum, námsstyrkjum og öðrum stuðningi sem leitað er eftir.

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Eldri borgarar

Stærsti hópur blindra og sjónskertra á Íslandi eru eldri borgarar. Blindrafélagið leggur á það mikla áherslu að sjónskerðingin verði ekki til þess að þeir einangrist. Meðal annars heldur Blindrafélagið úti ferðaþjónustu, ráðgjöf, trúnaðarmannkerfi, hljóðmiðlaútgáfu og félagslífi sem sérstaklega er sniðið að þörfum blindra og sjónskertra eldri borgara.


Ráðningar og starfslýsingar - Ályktun stjórnar Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

"Félagsfundur í Blindrafélaginu haldinn 26. mars að Hamrahlíð 17 lýsir furðu sinni og undrun á ráðningu starfsmanns sem á að sjá um gerð blindraletursefnis við Þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga. Þar var umsækjanda sem gjör þekkir blindraletrið og hefur unnið um áratugaskeið að þróun þess hafnað.
Fundurinn felur stjórn félagsins að fylgja þessari ályktun eftir og fer fram á rökstuðning fyrir því af hverju viðkomandi einstaklingi var hafnað. Félagsfundurinn álítur að þar hafi nýr sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verið þver brotinn. Félagsfundurinn minnir á kjörorð Öryrkjabandalagsins Ekkert um okkur án okkar".

Stjórn félagsins hefur kynnt sér athugasemdir sem gerðar hafa verið við ráðninguna og rökstuðning settan fram af Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Í rökstuðningi miðstöðvarinnar kemur m.a. fram að á stjórnvöldum hvíli sú skylda að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi og felst í rökstuðningi miðstöðvarinnar að það hafi verið gert.

Úr lögum um málefni fatlaðra

Í 31 grein laga um málefni fatlaðra númer 59 frá 1992 segir:

"Fatlaðir skulu eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sé að mati svæðisráðs gengið á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs getur það krafið veitingarvaldhafa um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitinguna."

Hæfi og starfslýsingar

Þegar verið er að ráða í störf sem að snúa að vinnu og þjónustu við fatlaða einstaklinga þá hlýtur sú spurning að vakna að hve miklu leyti stjórnvöld meta til hæfni reynslu af því að vera fatlaður og þekkingu á málefnum þeirra hópa sem verið er að þjónusta. Það má vera ljóst að í mörgum tilvikum getur þar verið um að ræða mikilvæga eiginleika sem geta nýst í starfi betur en formlega menntun. Jafnframt er ljóst að stjórnvaldi er í lófa lagið að setja upp þannig hæfiskilyrði að fatlaðir einstaklingar eigi ekki möguleika á ráðningu og að rökstuðningi stjórnvaldsins verði ekki hnekkt út frá þeim hæfiskilyrðum sem sett voru.

 Í auglýsingu um umrætt starf virðist vera sem þeir verkþættir sem tilheyra umræddu starfi séu margir þess eðlis að blindur eða sjónskertur einstaklingur ætti að geta sinnt þeim. Einnig eru þar verkþættir sem blindum einstaklingi er nánast ófært að sinna. Það verður ekki séð af verklýsingu umrædds starfs að hið opinbera hafi gert hina minnstu tilraun til að móta þarna starf sem blindir eða sjónskertir einstaklingar hefðu geta notið jafnræðis við að sækja um.

Samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Hér á landi er nú unnið að innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en Ísland hefur skrifað undir sáttmálann. Í 27 grein sáttmálans, sem fjallar um vinnu og starf,  eru taldar upp skyldur aðildarríkjanna, en þær eru :

  • a)    að leggja bann við mismunun sakir fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
  • b)    að vernda rétt fatlaðra, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra skilyrða í starfi, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,
  • c)     að tryggja að fötluðum sé gert kleift að nýta sér atvinnuréttindi sín og réttindi sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
  • d)    að gera fötluðum kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfsþjálfun og símenntun sem almenningi stendur til boða,
  • e)    að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlaða og stuðla að starfsframa þeirra á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,
  • f)      að stuðla að tækifærum til að starfa sjálfstætt, fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur, þróa samvinnufélög og hefja eigin starfsemi,
  • g)    að ráða fatlaða til starfa innan opinbera geirans,
  • h)    að stuðla að því að fatlaðir verði ráðnir til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í uppbyggilegum aðgerðaáætlunum, hvatningu og öðrum aðgerðum,
  • i)       að tryggja að viðeigandi hagræðing fari fram í þágu fatlaðra á vinnustað,
  • j)      að stuðla að því að fatlaðir geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
  • k)     að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðra, að því að þeir haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að þeir geti snúið aftur til starfa.

Stefnumörkun Blindrafélagsins

Stjórn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, skorar á allar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem starfa að málefnum fatlaðra að setja sér það markmið að starfsþáttum sé þannig raðað saman til geti orðið störf sem henta fötluðum starfsmönnum. Í þessu felst að leytast skuli eftir því að fremsta megni að hagræða í þágu fatlaðra þannig að  ekki séu í starfslýsingum starfsþættir sem fela í sér hindranir sem valda því að fatlaður einstaklingur eigi ekki möguleika á að vera metinn hæfur.


Samþykkt á fundi stjórnar Blindrafélagsins þann 2 apríl 2006.


Styrkir í kreppunni

Stjórnir Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi og Blindravinafélags Íslands auglýstu til úthlutunar styrki fyrir fagfólki sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra. Styrkjunum er ætlað að gefa umsækjendum kost á að taka þátt í ráðstefnum, námsstefnum, námsskeiðum, sýningum og e.t.v. öðrum faglegum viðburðum erlendis sem eru til þess fallnir að auka fagþekkingu viðkomandi og þar af leiðandi færni í starfi.

Flest fagfólk sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra starfar hjá opinberum stofnunum, en eins og flestir vita hafa þessar opinberu stofnanir þurft að skera að mestu niður námsferðir starfsmanna sinna til útlanda. Með því að auglýsa þessa styrki nú, vilja Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands leggja sitt af mörkum til þess að fagfólk geti haldið áfram að sækja mikilvæga viðburði. Hver styrkur er að hámarki kr. 150.000 og eingöngu verða veittir styrkir vegna viðburða á tímabilinu apríl – desember 2009. Umsóknarfrestur var til 31. mars.

Alls bárust 8 umsóknir upp á samtals  1.140 þúsund krónur. Umsóknirnar voru allar metnar gildar og samþykktu stjórnir Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins allar styrkumsóknirnar.

Um er að ræða tvo styrki til starfsmanna Blindrabókasafnsins til að sækja ráðstefnu IFLA (International federation of library Association) í Belgíu og Hollandi. Tvo styrki til kennara í Hofstaðaskóla sem vinna við kennslu blinds nemenda í skólanum, til að sækja námskeið í Noregi þar sem m.a. er kennt blindraletur, stærðfræði ADL ofl. Tvo styrki til starfsmanna Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til að sækja norræna ráðstefnu fyrir ráðgjafa sem vinna með blindu og sjónskertu fólki, ráðstefnan er haldin annað til þriðja hvert ár. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til sækja íþróttasumarbúðir fyrir blind og sjónskert börn í Bandaríkjunum undir leiðsögn Dr. Lauren Liberman sem er mjög framarlega í rannsóknum á þátttöku blindra og sjónskertra barna í íþróttum og hreyfingu. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar og fulltrúa Íslands í NOVIR nefndinni, til að sækja fund hjá nefndinni í Noregi, nefndin er samnorrænn vettvangur starfsmanna þjónustu og þekkingarmiðstöðva á norðurlöndunum.

Það er von stjórna Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins að þátttaka fagfólks í þessum viðburðum eigi eftir að styrkja þjónustu og fræðslu gagnvart blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi og skapa og efla tengslanet sem vonandi eiga eftir að vera gagnleg til framtíðar litið.


Landlæknisembættið og aðgengishindranir

Alveg hreint merkilegt að Landlæknisembættið láti svona vef frá sér þar sem 0% hefur verið tekið tillit til t.d. sjónskertra, blindra eða hreyfihamlaðra!!!!! 

http://www.heilsuvefsja.is/ 

 

Það er ekki ásættanlegt að Landlæknisembættið taki ekkert tillit til stefnumörkunar stjórnvalda varðandi jafnt aðgengi að upplýsingasamfélaginu. 

 

Blindrafélagið hefur þegar gert formlega athugasemd við Landlæknisembættið með bréfi sem sjá má hér fyrir neðan.

 

 

"Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi hefur borist ábending varðandi aðgengishindranir að vefsíðunni:  http://www.heilsuvefsja.is/  Það liggur fyrir opinber stefnumörkun frá ríkisstjórn Íslands um aðgengismál á vefnum, sem m.a. birtist í tillögum sem settar voru fram árið 2006: http://www.ut.is/adgengi/Itarefni/  „Tryggt verði að rafræn þjónusta opinberra aðila taki mið af þörfum ólíkra hópa, s.s. blindra, sjónskertra og fatlaðra. Fyrirtæki verði hvött til að gera hið sama“.  Varðandi aðgengismál á vefnum þá gilda um þau ákveðnir staðlar sem notaðir eru til skilgreiningar. Þessir staðlar og skilgreiningar eru verkfæri sem vefforritarar eiga þekkja. Það er hinsvegar stefnumörkun ráðamanna vefsvæða sem ræður því hvort litið er til þess að almennar kröfur um aðgengi eru virtar að vettugi eða ekki.  ÖBÍ og SJÁ gefa sameiginlega út aðgengisvottun á vefsvæði.  Þeir alþjóðlegu staðla/gátlistar sem í þeirri vinnu eru notaðir, eru þeir sömu og stjórnarráðið (http://www.ut.is/adgengi) leggur til grundvallar varðandi  aðgengi á vefjum. Þá m.a. finna hér: http://www.w3.org/WAI/intro/wcag.php http://www.w3.org/WAI/WCAG20/quickref/ http://www.w3.org/WAI/gettingstarted/Overview.html  Þessir staðlar og gátlistar eru öllum opnir og án endurgjalds.  Þegar vefir eru vottaðir af SJÁ og ÖBÍ er farið ítarlega yfir vefina og þá eru hafðir til hliðsjónar þessir gátlistar. Þá er einnig farið yfir vefina með þeim búnaði sem fatlaðir notendur þurfa til að notfæra sér vefina. Það þarf þó alls ekki að votta vefi til að þeir séu aðgengilegir og má komast ansi langt með því að fylgja þeim stöðlum sem eru í gangi.  Hér má finna allar nánari upplýsingar varðandi kóða á vefjum o.fl. Þetta eru allt upplýsingar sem forritarar þekkja yfirleitt: http://www.w3.org/  Einnig má nefna að í mörgum tilfellum er hægt að gera vefi aðgengilega í samvinnu við þau vefumsjónarkerfi sem vefurinn heyrir undir og oft eru þessi atriði smíðuð í vefina frá upphafi.  Ef ekki hefur verið hugað að þessu frá byrjun, er oft hægt að hafa samband við þá aðila sem hafa með vefumsjónarkerfið að gera og fá ráðgjöf þeirra, þeir eiga að vera með þetta á hreinu.  Það sem helst hindrar aðgengi fatlaðra notenda að vefsvæðum er:
  • ALT texta vantar á myndir.
  • Mikilvægt efni er notað sem Flash myndir eða PDF.
  • Skerpa leturs og bakgrunns er ekki nægileg.
  • Ekki er hægt að stækka letur á vefnum.
  • Ekki er hægt að nota TAB lykil eingöngu.
  • Fyrirsagnir ekki rétt skilgreindar.
  • Tenglaheiti ekki nægilega skýr.
  • Flýtileiðir ekki í boði.
  • Málfar er óþarflega þungt og flókið.
Kröfur um aðgengi allra að upplýsingasamfélaginu fara vaxandi. Bætt aðgengi nýtist öllu samfélaginu, ekki eingöngu þeim sem eru fatlaðir. Hér er því um mikilvægt hagsmunamál að ræða sem snýr að mannréttindum og um leið að þeirri ímynd sem eigendur vefsvæða vilja gefa af starfsemi sinn og þeim gildum sem hún byggir á. Virðingarfyllst,  f.h. Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, Kristinn Halldór Einarsson,  formaður

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband