Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
30.12.2008 | 15:55
Um áramót
Áríð 2008 mun eflaust skipa stóran sess í íslandsögunni. Tvenna atburði vil ég gera hér að umfjöllunarefni. Fyrst er að nefna alþjóðlegu fjármálakreppuna, sem leikið hefur íslendinga verr en aðrar þjóðir, hvort sem er einstaklinga, fjölskyldur og/eða fyrirtæki, ásamt því sem orðspor íslendinga á alþjóðavetfangi hefur orðið fyrir verulegu tjóni. Þessir atburðir hafa síðan skyggt verulega á hinn atburðinn, sem er mesta afrek sem íslendingar hafa unnið í íþróttum. Silfurverðlaun íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Olympíuleikunum í Peking. En það afrek færði íslensku þjóðinni bæði gleði og stolt og jók allverulega við hróður íslendinga á alþjóðavettvangi.
Öll íslenska þjóðin hreyfst með og fagnaði þegar hennar fræknustu íþróttahetjur unnu þetta mesta afrek íslenskrar íþróttasögu. Silfurverðlaun á Ólympíuleikum. Allir sem fylgdust með sáu að liðið var drifið áfram af jákvæðum og uppbyggilegum gildum undir forustu einstaklinga sem höfðu tileinkað sér þessi gildi. Þar var til staðar, einbeittur vilji og skýr markmið, virðing og heiðarleiki, samhugur og samvinna og gagnkvæmt traust, gagnvart því verkefni sem tekist var á við. Örfáum vikum seinna skal fjármálakreppan á og sér ekki ennþá fyrir endann á þeim hildarleik.
En hvernig hefur liðið sem valist hefur til að takast á við verkefni fjármálakreppunnar staðið sig? Að hversu miklu leiti hafa jákvæð og uppbyggileg gildi, sem voru í hávegum höfð hjá strákunum okkar í Peking, verið látin í fyrirrúm? Því miður þá eru miklar líkur á því að afrek handboltalandsliðsins muni falla í skuggann af fjármálakreppunni og þeim orðum og athöfnum sem aðalleikarar þess hildarleiks bera ábyrgð á. Þar hafa farið bæði orð og athafnir sem síst hafa verið til þess fallin að auka okkur gleði og stolt eða auka á orðspor okkar íslendinga sem þjóðar.
Það er hinsvegar á valdi okkar allra sem einstaklinga að hafna neikvæðum gildum eins og t.d. rógburði, óheiðarleika og sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna, en stuðla frekar að þeim jákvæðu gildum sem hverju farsælu mannlegu samfélagi eru lífsnauðsynleg; ábyrgð, heiðarleika, samhug, samvinnu, og gagnkvæmu trausti og virðingu. Kannski má draga einhvern lærdóm af því hvernig þessir tveir atburðir; fjármálakreppan og silfurverðlaun íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum, gerast á nánast sama tíma í íslandssögunni, og því hvaða gildi hafa verið valin til leiðsagnar í hvoru tilviki fyrir sig. Upp í huga kemur gömul speki sem fylgt hefur íslendingum alla tíð og kemur úr Hávamálum: Deyr fé, deyja frændur en orðstír deyr eigi. Hverjir skyldu verða dómar sögunnar?
Ef ég lít meira inn á við, á vettvang Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur árið ekki síður verið viðburðarríkt. Ég tók við embætti formanns félagsins í maí mánuði og í þeim sama mánuði gerðu við nokkrir félagsmenn atlögu að Hvannadalshnjúk, en urðum frá að hverfa vegna veðurs. Áformað er að gera aðra atlögu í maí 2009.
Ég sótti stórmerkilega alheimsráðstefnu Retina International í Helsinki í júlí mánuði. Ég gerði ítarlega grein fyrir helstu niðurstöðum ráðstefnunnar. Sjá frásagnir hér.
Stórt skarð var höggvið í samfélag okkar þegar Helga Einarsdóttir féll frá um mitt sumar, í blóma lífsins, rétt fyrir 43 ára afmælisdaginn sinn. Sjá minningargrein. Minningu Helgu og verkum hennar mun verða sýnd tilhlýðileg virðing á vettvangi félagsins í nánu samstarfi við aðstandendur.
Í ágúst sótti ég ásamt fleirum frá Blindrafélaginu 7 alheimsþing þing World Blind Union, yfir 600 einstaklingar allstaðar úr heiminum sátu þingið. Þingið er haldið á fjögurra ára fresti. Sjá frásögn hér.
Í september mánuði voru fjórir leiðsöguhundar afhentir notendum sínum, en við það fjölgaði leiðsöguhundum á Íslandi úr einum í fimm. Sjá hér frásögn. Mjög vel hefur gengið hjá notendum og leiðsöguhundum og ríkir almenn ánægja með hvernig til tókst. Leiðsöguhundaverkefnið var unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og með öflugum stuðningi Lions hreyfingarinnar á Íslandi. Um tilraunaverkefni var að ræða og nú hefur heilbrigðisráðherra skipað starfshóp til að fara yfir og gera tillögu að framtíðarskipulag þessara mála.
Á síðustu dögum Alþingis fyrir jól samþykkti þingið lög um þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Mun stofnunin taka til starfa strax í upphafi árs 2009. Með þessari nýju miðstöð er stigið stórt framfaraskref í þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga. Blindrafélagið lagði mikla áherslu á að þetta mál yrði afgreitt. Nú þegar miðstöðin er orðin að veruleika þá tekur við uppbyggingar og mótunarstarf sem Blindrafélagið hefur fullan hug á að vera virkur þátttakandi í. Sjá hér frásögn og tengil inn á lögin.
Árið 2009 mun færa með sér ný viðfangsefni. Árið er m.a. merkilegt fyrir þær sakir að 70 ár verða liðin frá stofnun Blindrafélagsins á árinu og í janúar verður haldi upp á að 200 ár eru liðin frá fæðingu Louis Braille, höfundar blindraletursins. Blindrafélagið mun minnast þessara tímamóta með viðeigandi hætti.
Af þessu tilefni hefur Blindrafélagið m.a. látið gera sérstaka afmælisútgáfu af bréfsefni og merki félagsins. Afmælismerki félagsins er talan 70 með lampann inni í tölustafnum núll. Á bréfsefni, umslögum og öðru efni merktu félaginu, er búið að setja nafn félagsins (Blindrafélagið) í blindraletri fyrir ofan nafn félagsins í hefðbundnu letri. Blindraletrið mun vera bæði upphleypt og litað hinum bláa lit félagsins á bréfsefni og öðru því efni þar sem það er mögulegt.
Fleira er fyrirhugað og verður kynnt þegar þar að kemur.
Á þessum áramótum vil ég færa félagsmönnum, velunnurum, samstarfsaðilum Blindrafélagsins og öllum öðrum kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða, um leið og ég læt í ljós þá von að áframhald verði á á árinu 2009.
Megi ykkur og fjölskyldum ykkar farnast sem best á komandi ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.12.2008 | 16:09
Þakklætisvottur til starfsfólks Sjónstöðvar Íslands og Guðmundar Viggóssonar
Mánudaginn 22 desember var haldið jóla kaffisamsæti að Hamrahlíð 17 fyrir starfsfólk og íbúa hússins. Við það tækifæri var að sjálfsögðu fagnað samþykkt laganna um Þjónustu og þekkingamiðstöðina. Í tilefni þess að Sjónstöðin er að hætta starfsemi, þá færði Blindrafélagið Guðmundi Viggóssyni, blómvönd og gjafabréf á veitingastað, fyrir hann og frúnna, sem smávægilegan þakklætisvott fyrir það ötula starf sem hann hefur innt af hendi sem yfirmaður Sjónstöðvar Ísland, allt frá því að stofnunin hóf starfsemi sína árið 1987.
Öllu starfsfólki Sjónstöðvar Íslands verður boðið starf á hinni nýju þjónustu og þekkingarmiðstöð og vonandi munu sem flestir sjá sér hag í að þiggja það.
Myndin sýnir Guðmund veita viðurkenningunni viðtöku. Á myndinni eru frá vinstri: Ólafur Haraldsson, Kristinn Halldór Einarsson og Guðmundur Viggósson.
18.12.2008 | 20:30
Mikilvægt framfaraskref stigið í þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga
Nú undir kvöld, þann 18 desember, samþykkti Alþingi Íslendinga, lög um þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Mikil samstað var um málið á Alþingi og mæltist m.a. stjórnarandstæðingum svo fyrir að málið væri ljós i myrkrinu og besta mál þessa þings.
Tengill inn á málið hjá Alþingi hér.
Allir sem að þessu máli hafa komið er mikil sómi af sinni aðkomu. Þar má nefna marga aðila svo sem eins og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem að ýtti málinu úr vör af hálfu hins opinbera, Guðlaug Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, fyrir að koma málinu inn á þing við núverandi aðstæður. Einnig er rétt að nefna til sögunar Helga Hjörvar, sem er ötull talsmaður og gegndi lykilhlutverki á úrslitastundu í því að málið komst á dagskrá.
Margir aðrir eiga þakkir skyldar fyrir sitt framlag, eins og t.d. allir þeir einstaklingar sem sátu í framkvæmdanefndinni, en henni var stýrt af Þór Þórarinssyni frá félagsmálaráðuneytinu og Hrönn Pétursdóttur rekstrarhagfræðingi.
Eina manneskju vil ég einnig nefna til sögunnar, sem á stóran hlut í þessum merka áfang, þó ekki sé hún lengur meðal okkar, en það er Helga heitin Einarsdóttir, sem lést langt fyrir aldur fram nú í sumar. Engin ein manneskja bar meiri ábyrgð á því frumkvæðið að fá hingað til lands erlenda fagmenn, sem unnu þær skýrslur um ástand skólamála blindra og sjónskertra, sem varð til að opna augu ráðamenna fyrir alvarleika stöðunnar.
Öll vinnsla á málinu og undirbúningur var í samráði við alla megin hagsmunaaðila og er það til mikillar fyrirmyndar. Þau vinnubrögð skýra fremur en nokkuð annað þá breiðu samstöðu sem var um málið á öllum afgreiðslustigum.
Í raun má segja að alþjóðlegt kjörorð fatlaðra og öryrkja " Ekkert um okkur án okkar" hafi hér verið virt. Árangurinn ætti að vera hvatning til áframhaldandi vinnubragða af sama toga.
Hér hefur mikilvægt framfaraskref verið stigið í þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Allir þeir sem að málinu hafa komið er mikill sómi af.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2008 | 17:26
Heilbrigðisráðherra skipar starfshóp um notkun leiðsöguhunda á Íslandi
Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast mér að heilbrigðisráðherra hefði ákveðið, að tillögu Blindrafélagsins, að skipa starfshóp um notkun leiðsöguhunda á Íslandi, var ég ásamt fleirum skipaður í hópinn.
Verkefni hópsins er að kanna tilhögun við að gefa blindum og sjónskertum einstaklingum kost á að nýta sér leiðsöguhunda, kostnað því samfara og þróun þjónustunnar. Hópnum er ætlað að skila ráðherra áliti og tillögum fyrir 1.mars 2009.
Starfshópurinn er þannig skipaður að auk mín eru í honum: Eva Þengilsdóttir, sem er formaður, Friðgeir Jóhannesson leiðsöguhundanotandi, Guðbjörg Árnadóttir umferliskennari og Vigdís Hallgrímsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Þetta sýnist mér vera vel skipaður starfshópur.
Það er ástæða til að færa heilbrigðisráðherra þakkir fyrir að setja þetta brýna mál í þennan farveg, sem vonandi verður til að koma farsælli skipan á málefni leiðsöguhunda fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.
Síðast liðið haust fengu 4 félagar í Blindrafélaginu afhenta leiðsöguhunda, sem komu frá norska leiðsöguhundaskólanum, en það var samstarfsverkefni Blindrafélagsins og Heilbrigðisráðuneytisins, dyggilega stutt af Lions hreifingunni á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2008 | 10:05
Stórmerk tíðindi - Frumvarpi til laga um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga
Á dagskrá þingfundar Alþingis í dag, 12 desember 2008, er 1. umræða að frumvarpi til laga um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Málið er flutt af félags og tryggingarmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem unnið hefur verið að á undanförnu eina og hálfu ári í mjög góðu samstarfi allra hagsmunaaðila. Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir öflugt og virkt samráð, enda er mjög breið samstaða um öll meginatriði frumvarpsins. Að samráðinu komu félags og tryggingarmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samband Íslenskra Sveitarfélaga, Blindrafélagið, foreldradeild Blindrafélagsins, Daufblindrafélagið, starfsfólk Sjónstöðvar Íslands og kennsluráagjafar blindra og sjónskertra nemenda.
Á tímabili leit út fyrir að þetta mál myndi ekki ná inn á þing fyrir áramót og hefði það haft í för með sér mikið upplausnarástand í málaflokki sem hefur verið vanræktur til margra ára. Eftir að ég og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins áttum stuttan fund með Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir milligöngu okkar öfluga liðsmanns Helga Hjörvar, komst hreyfing á málið. Í kjölfarið sendi stjórn Blindrafélagsins bréf til allra þeirra þriggja ráðherra sem komið hafa að málinu og afrit til forsætisráðherra, þar sem grein var gerð fyrir hversu alvarlegar afleiðingar það gæti haft ef málið yrði ekki lagt fram og samþykkt fyrir áramót.
Nú er málið komið á dagskrá sem ríkisstjórnarfrumvarp og ber að fær ríkisstjórninni þakkir fyrir sinn þátt í málinu. Nú er hinsvegar komið að Alþingi og vil ég hvetja þingmenn til að afgreiða málið, enda er um það breiða samstaða allra megin hagsmunaaðila og allur undirbúningur og samráð við frágang málsins hefur verið til fyrirmyndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2008 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2008 | 09:52
Eyþór útnefndur íþróttamaður ársins
Sonju Sigurðardóttur sundkonu úr IFR er einnig færðar hamingjuóskir með nafnbótina íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Eyþór og Sonja íþróttafólk ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 09:32
Í minningu Sir John Wall frá Englandi
Sunnudaginn 30 nóvember s.l. lést Sir John Wall, 78 ára að aldri, lífstíðar heiðursfélagi að World Blind Union (WBU). Ég átti þess kost að hitta og spjalla við Sir John á þingi WBU í Sviss í ágúst síðastliðnum. Sir John var líflegur maður og við þetta tækifæri rifjaði hann upp fyrir mér heimsókn sína til Íslands fyrir nokkrum árum, en í þeirri heimsókn veiktist hann. Sir John fullyrti að ef ekki hefði komið til inngrip frá Björk Vilhelmsdóttur, þáverandi félagsráðgjafa Blindrafélagsins, og manni hennar, Sveini Rúnari Haukssyni lækni, þá hefði hann yfirgefið Ísland í líkkistu. Kvaðst Sir John standa í mikilli þakkarskuld við þetta góða fólk, Blindrafélagið og Íslendinga.
Sir John var aðalritari (Secretary General) European Blind Union (EBU) frá 1994 -1996 og forseti frá 1996-2003. Sem slíkur þá var hann jafnfram einn af forustumönnum WBU þann tíma. Eftir að hann lét af forustustörfum hjá EBU þá hélt hann áfram að vera virkur á vettvangi WBU, og þá sérstaklega í málum sem snéru að samskiptum við Alþjóðlegu póstsamtökin (Universal Postal Union), ásamt því að sinna ýmsum öðrum málefnum.
Sir John var jafnframt formaður RNIB (Royal National Institute of Blind People) frá 1990 til 2000. Árið 1990 var Sir John skipaður Deputy Master í hæstarétti Englands og Wales, nokkuð sem er mikil virðingarstaða og til vitnis um framúrskarandi hæfni hans sem lögmanns. Sir John hafði mikil áhrif á málefni sem tengjast blindu og sjónskerðingu og stöðu blindra og sjónskertra einstaklinga í samfélaginu.
Eitt af seinustu verkum hans fyrir WBU var umsjón sem 25 ára afmælisbók WBU: "Að breyta því hvað það þýðir að vera blindur - Litið til baka á fyrstu 25 ár WBU" (Changing What it Means to Be Blind - Reflections on the First 25 Years of the World Blind Union). Þessu verki lauk hann s.l. sumar og var bókin kynnt og afhent á 7unda þingi WBU í Sviss síðast liðið sumar. Bókin er tilhlýðilegur minnisvarði um hið mikilvæga starf sem Sir John vann fyrir WBU yfir margra ára tímabil. Blindir og sjónskertra um allan heim horfa nú á eftir einum af sínum öflugustu baráttumönnum fyrir jöfnum tækifærum og réttindum í samfélaginu.
Sir Johns verður sárt saknað af fjölmörgum vinum og félögum sem hann eignaðist um allan heim og þar af voru þó nokkrir hér á landi.
Hér má sjá minngarorð um Sir John á síðu RNIB
http://www.rnib.org.uk/xpedio/groups/public/documents/publicwebsite/public_sirjohnwall.hcsp
Hér má lesa frásögn Sir John um lögfræðiferil sinn
http://juniorlawyers.lawsociety.org.uk/node/137
Grein eftir Sir John Wall "The rights og blind people"
http://www.pubmedcentral.nih.gov/articlerender.fcgi?artid=1705870
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 08:07
Tveir sjónskertir stúdentar fá styrk úr Þórsteinssjóði
Í gær, 3 desember, hlutu tveir sjónskertir nemendur við Háskóla Íslands styrk úr Þórsteinssjóði en styrkurinn er ætlaður blindum og sjónskertum nemendum við Háskólann.
Hvor styrkhafi hlaut 500 þúsund krónur. Styrkurinn var afhentur á Háskólatorgi á alþjóðadegi fatlaðra en þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn en þau Páll Þór Sigurjónsson og Sigríður Björnsdóttir hlutu styrkinn í ár. Páll Þór stundar BA-nám í kínverskum fræðum og Sigríður BA-nám í norsku. Bæði leggja þau stund á nám við deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda sem tilheyrir Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006 og er til minningar um Þórstein Bjarnason, stofnanda Blindravinafélags Íslands.
Megintilgangur sjóðsins er að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins, sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands þann 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til stuðnings fötluðu fólki á Ísland. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum á Íslandi á tuttugustu öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir og lagði hann félaginu til fé úr eigin vasa.
Tekið af heimasíðu Háskóla Íslands.
Fréttina ásamt mynd má sjá hér
2.12.2008 | 14:08
Neikvæð gildishleðsla "blindu" eykst
Það hefur vakið eftirtekt mína í umræðum að undanförnu, hvers margir hafa notað hugtakið blindur, til að varpa ljósi á vanhæfni ráðamann í því efnahagslega gerningarveðri sem hér ríkir. Nú seinast sá Steingrímu J. Sigfússon ástæðu til að biðjast afsökunar á því að hafa í viðtali við Visir.is líkt stjórnvöldum við að vera blind og heyrarlaus þegar hann gagnrýndi þau fyrir að að hlusta ekki á kröfuna um kosningar.
Hugtakið blinda virðist í augum margra vera hlaðið mjög neikvæðum gildum, og ef eitthvað er þá eykst sú hleðsla þessa dagana, vegna þess orðfæris sem margir nota í umræðunni.
Hvaða áhrif er líklegt að það hafi á mat samfélagsins, á færni og hæfni blindra einstaklinga, að hugtakið blinda er þessa dagana yfirleitt sett í samhengi við mjög neikvæða hegðun eða eiginleika?
Það er rétt að hafa það í huga að það eru oft litlar þúfur sem velta þungum hlössum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.12.2008 | 13:09
Second Sight útvíkkar alþjóðlega klíniskar prófanir á rafeindasjónarbúnaðinum Argus II
Second Sight® Medical Products, Inc., sem er leiðandi fyrirtæki í þróun á rafeindasjón fyrir blinda, hefur tilkynnt að það ætli að auka við fjölda þeirra einstaklinga sem taka þátt í prófunum á ArgusTM II, rafeindasjónbúnaðinum, í tilraunarstöðvum fyrirtækisins í Evrópu.
Þriggja ára áræðanleika prófun á búnaðinum er nú komin vel á veg í bæði Bandaríkjunum, Evrópu og Mexíkó. Í þeim prófunum er fólk sem hefur orðið alveg blint vegna RP, sem er erfða sjúkdómur sem veldur blindu.
Við eru virkilega ánægð með þá útkomu sem við höfum séð hjá þeim 17 einstaklingum sem hafa tekið þátt í prófununum til þessa," er haft eftir Robert Greenberg, MD, PhD, forseta og CEO hjá Second Sight. Nú munum við útvíkka prófanirnar í þeim tilgangi að bæta og auka við upplýsingagrunninn, styrkja enn frekar áræðanleika aðferðarfræðinnar og hefja það ferli að fá leyfi til markaðssetningar.
Rafeindasjón (Retinal Prostheses) er á þessu stigi eina aðferðarfræðin sem er í þróun sem miðar að því að færa aftur einhverja sjón til þeirra sem hafa misst alla sjón af sökum hrörnunar í ytri sjónhimnu, eins og t.d. af völdum langt gengins RP (Retinis Pigmentosa). Það var snemma árs 2002 sem Second Sight stóð fyrir fyrstu klínísku prófununum til að staðfesta að aðferðarfræðin sem Argus byggir á gengi upp. Þær prófanir fóru fram á Doheny Eye Institute við Háskólann í Suður Kaliforníu (USC) í Los Angeles. Í þeim prófunum fólst að sex sjálfboðaliðar sem voru blindir af völdum RP fengu Argus I ígræðslu, nokkrir þeirra notuðu búnaðinn aukalegaí nokkrar klukkustundir á dag heima við.
Argus II sem er nýrri útgáfa og er nú í klínískri prófun, er önnur kynslóð rafeindasjónar og inniheldur 60 rafeindaörflögu grind, sem er með skurðaðgerð komið fyrir á sjónhimnunni. Rafeindaörflögurnar fá upplýsingar frá video myndavél, sem er komið fyrir á gleraugum, sem síðan berast til sjóntaugarinnar og þaðan til heilans. Rafeindaörflögugrindin er hönnuð með það í huga að hún geti enst alla ævi en jafnframt er auðvelt að fjarlægja hana ef þess gerist þörf..
Frumniðurstöður úr áræðanleikaprófun á Argus II búnaðinum var kynnt í október 2008 við American Society of Retinal Specialists (ASRS) í Hawaii. Að sögn Mark Humayun, MD, PhD, Professor í Augnlækningum við Doheny Eye Institute at USC, þá komu ekki upp neinar bilanir í búnaði og fá alvarleg höfnunar tilvik komu fram hjá þeim 17 þátttakendum sem höfðu verið þátttakendur í tilrauninni, að meðaltali í 14 mánuði. Í alvarlegustu tilvikunum þurfti að fjarlægja Argus II búnaðinn, og var það gert án vandræða eða skaða fyrir viðkomandi einstakling. Til viðbótar þá kom fram hjá Dr. Greenberg að fyrstu 11 sjálfboðaliðarnir í prófuninni hefðu sýnt aukna ferlifærni og eins aukna færni við að staðsetja sig í rýmum. Notkun Argus II búnaðarins gerði þeim kleyft að finna dyr í 20 feta (6 - 7 m) fjarlægð og labba að enda á 20 feta línu sem teiknuð var í gólfið.
Það eru þrjár evrópskar stofnanir sem taka þátt í áreiðanleika prófununum, það eru: Service d'Ophtalmologie, Hôpital Cantonal Universitaire de Genève in Geneva, Le Centre Hospitalier National d'Ophtalmologie des Quinze-Vingts in Paris, og Moorfields Eye Hospital in London. Second Sight mun halda áfram að vinna með einstaklinga hjá þessum stofnunum og í athugun er að bæta fleiri samstarfsaðilum við í Evrópu. Að auki þá hafa frekari endurbætur verið gerðar á Argus II búnaðinum sem ætlað er að auka virkni hans.
Þessar fyrstu niðurstöður færa með sér ný og áður óþekkt fyrriheit fyrir blinda einstaklinga sem og lækna og vísindamenn sem hafa tækifæri til að taka þátt í þeirri frumkvöðla tilraun sem hér er á ferðinni", sagði Jose-Alain Sahel, MD, (Principal Investigator and Chairman, Department of Ophthalmology, Centre Hospitalier National d'Ophtalmologie des Quinze-Vingts, Paris). Við höfum fengið öfluga hvatningu til að halda áfram og útvíkka aðgerðir okkar til að prófa enn frekar þessa nýju tækni"
Fjórar leiðandi augnlæknamiðstöðvar í Bandaríkjunum hafa tekið þátt í verkefninu fram til dagsins í dag það eru: Doheny Eye Institute við Háskólann í Suður Kaliforníu (USC) í Los Angeles, CA, Wilmer Eye Institute við Johns Hopkins Háskólann í Baltimore, MD, Háskóli Kaloforníu í San Francisco og Retina Foundation of the Southwest in Dallas, Texas.
Second Sight er núna í því ferli að afla leyfa frá Bandaríska lyfjaeftirlitinu (US Food and Drug Administration) til að útvíkka prófanirnar enn frekar. Verkefnið er jafnframt í gangi hjá Centro de Retina Medica y Quirurgica, SC, Centro Medico Puerta de Hierro, CUCS and Universidad de Guadalajara in Guadalajara, Mexico.
Retina International, ásamt aðildarfélögum í yfir 40 löndum, eru virkilega spennt yfir því að þessar framsæknu tilraunir séu komnar á svona spennandi stig, þær færa með sér von til þúsunda einstaklinga sem eru með sjónhimnu sjúkdóma sem eru langt gengnir" segir Christina Fasser, forseti Retina International og CEO Retina Switzerland. Svipaðar yfirlýsingar hafa borist frá Bresku Retinitis Pigmentosa Samtökunum, Retina France, Fédération des Aveugles de France og Fondation Ophtalmologique Rothschild.
Þú hefur verið að lesa lauslega endursögn á fréttatilkynningu frá bandaríska fyrirtækinu Second Sight® Medical Products, Inc. Frekari upplýsingar og fyrirvarar sem settir eru, ásamt kynningu á Second Sight fyrirtækinu er að finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar sem nálgast má í meðfylgjandi PDF skrá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)