Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
18.5.2008 | 18:52
Aðalfundur Blindrafélagsins
6.5.2008 | 10:36
Verkefnaskrá
Varðandi verkefni sem ég tel mikilvægt að Blindrafélagið sinni, án þess að upptalningin geti verið tæmandi, vil ég hér nefna nokkur. Fjöldi annarra verkefna mun síðar eiga eftir að rata inn á borð stjórnar félagsins sem ekki verður gerð grein fyrir hér.
Aðgengismál
Aðgengismál hafa verið að öðlast nýja merkingu í upplýsingasamfélagi nútímans. Mikilvægt er að vinna áfram að bættu ferilfræðilegu aðgengi, sem full þörf er á að bæta víða á Íslandi. En jafnframt er mjög mikilvægt að huga að öðrum aðgengismálum, eins og aðgengi að upplýsingum. Vinna verður gegn þeirri þróun að upplýsingar séu klæddar í búning sem eru óaðgengilegri blindum og sjónskertum einstaklingum en öðrum. Hér má t.d. nefna atvinnuauglýsingar sem birtar eru sem myndir og því óaðgengilegar blindum tölvunotendum.
Akstursþjónusta
Þar sem aksturþjónustusamningar hafa náðst við sveitarfélög ríkir almenn ánægja meðal félagsmanna Blindrafélagsins. Ég vil beita mér fyrir því að fjölga enn frekar slíkum samningum þannig að félagsmenn í t.d. Kópsvogi, Mosfellsbæ, Árborg og fleiri sveitarfélögum geti notið sambærilegrar akstursþjónustu og í boðið er í t.d. í Reykjavík, Hafnarfirði og Akureyri.
Arfleifð
Að mínu mati býr Blindrafélagið að dýrmætri arfleifð sem m.a. lýsir sér í því að félaginu hefur farnast vel í að efna til samstarfs við ólíka aðila, bæði opinbera og óopinbera, til að vinna hagsmunamálum félagsmanna framgang. Blindrafélagið nýtur almenns velvilja í samfélaginu og ég vil leggja mitt af mörkum til að vernda hið góða orðspor félagsins sem er forsenda þessa velvilja.
Blindrafélagið 70 ára
Á árinu 2009 verða liðin 70 ár frá stofnun Blindrafélagsins og ég tel að þeirra tímamóta eigi að minnast með viðeigandi hætti.
Blindraletur - 200 ára afmæli Louis Braille
Á árinu 2009 eru 200 ár liðin frá fæðingu Louis Braille, höfundi blindraletursins. Þessara tímamóta verður víða minnst og mikilvægt er að Blindrafélagið noti tækifærið til að kynna mikilvægi blindraleturs og notkun þess.
Erlent samstarf
Ég legg áherslu á að Blindrafélagið sé fullgildur aðili í alþjóðasamstarfi. Í æ ríkari mæli eru lög og reglugerðir sem varða baráttu gegn hvers konar misrétti að verða til á vettvangi alþjóðastofnanna s.s. eins og ESB og Sameinuðu Þjóðanna. Á vettvangi alþjóðasamstarfs blindrafélaga er unnið að kröfugerðum og eftirfylgni til að tryggja sem best hagsmuni félagsmanna þessara samtaka. Blindrafélagið á að vera fullgildur þátttakandi í þessu starfi.
Hjálpartæki
Ég vil leggja áherslu á að úrval hjálpartækja sem blindu og sjónskertu fólki stendur til boða sé eins gott og kostur er. Mikilvægt er að Blindrafélagið fylgist vel með þeirri miklu þróun sem er í þessum málaflokki og sé virkt í því að hafa áhrif á framboð hjálpartækja. Skoða þarf sérstaklega fjármögnun hjálpartækja sem blindir og sjónskertir einstaklingar þurfa á að halda vinnu sinnar vegna.
Innra starf
Ég legg áherslu á að innra starf félagsins verði áfram öflugt. Ég vil stuðla að því að deildum og ráðum innan félagsins verði skapað gott svigrúm til að starfa og að áfram verði haldið úti tómstundastarfi í samræmi við óskir og þarfir félagsmanna. Í því sambandi er mikilvægt að taka tillit til óska þess stóra hluta félagsmanna sem kominn er á efri ár.
Leiðsöguhundaverkefnið
Mjög mikilvægt er að vel takist til með kynningu og framkvæmd á þessu verkefni þannig að leiðsöguhundarnir nýtist eigendum sínum sem best. Fara þarf í öflugt kynningarstaf til að kynna fyrir öllum almenningi umgengni við hundana og eigendur þeirra. Jafnframt þarf að kynna vel þann rétt sem eigendur og leiðsöguhundarnir hafa samkvæmt gildandi lögum og reglum. Ég vil síðan stuðla að því að fleiri félagsmönnum Blindrafélagsins gefist kostur á því að fá leiðsöguhund.
Rekstur félagsins
Ég legg mikla áherslu á að félagið verði áfram rekið af ráðdeild og hagkvæmni og að vel verði farið með eignir félagsins, og þær nýttar af ábyrgð og hagsmunum félagsmanna til framdráttar.
Sjálfsmat
Ég vil beita mér fyrir umræðu, bæði innan félagsins og á opinberum vettvangi, um hvernig blint og sjónskert fólk upplifir sig í samfélaginu, og eins hvort blindir og sjónskertir einstaklingar hafi til að bera einhverja staðlaða ímynd meðal almennings. Erum við kannski öll föst í einhverjum stöðluðum ímyndum, bæði meðal okkar sjálfra og meðal almennings, sem kunna að vera okkur fótakefli, og ástæða er til að gera atlögu að og breyta?
Sjónskertir
Staða sjónskerts fólks er mér hugleikin vegna minnar persónulegu reynslu. Ég vil beita mér fyrir fræðslu og umræðu um hvernig mismunandi sjónskerðingar geta haft áhrif á hæfni einstaklinga við mismunandi aðstæður í umhverfinu. Ég vil skoða sérstaklega hvort ástæða væri til að sjónskertir einstaklingar hefðu möguleika á að bera sérstakt auðkenni sem gæfi til kynna sjónskerðingu þeirra. Það myndi leiða til að þessi hópur væri ekki eins ósýnilegur og hann er oft á tíðum.
Tæknimál
Mikil og hröð þróun er í tæknimálum. Meðal þess má nefna að hin nýja stafræna tækni er nú að ryðja sér til rúms á miklum hraða. Víða erlendis eru systrasamtök Blindrafélagsins mjög virk að tryggja aðgang blinds og sjónskerts fólks að þessari tækni. Við þurfum að fylgjast vel með þessum málum og vinna að því að tryggja aðgengi blindra og sjónskertra einstaklinga að þessari tækni, og þeirri þjónustu sem mun byggja á henni. Ný tækni er sífellt að verða mikilvægari í nútímasamfélagi og því brýnt að Blindrafélagið sé vakandi fyrir að tryggja hagsmuni blindra og sjónskertra einstaklinga þegar kemur að innleiðingu hennar.
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð
Ný þjónustu- og þekkingarmiðstöð er nú í mótun á vegum hins opinbera með þátttöku hagsmunaaðila, meðal annars Blindrafélagsins. Mjög mikilvægt er að Blindrafélagið taki virkan þátt í þeirri vinnu og geri allt sem í þess valdi er til að tryggja farsælan framgang þess verkefnis.
Hér má finna slóð inn á nefndarálit og tillögur sem sérstakur framkvæmdahópur vinnur nú eftir.
Þjónustuna undir eitt þak
"Þjónustuna undir eitt þak" er verkefni sem miðar að því að koma sem mest af lykilþjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga á einn stað.Ég legg áherslu á að áfram verði unnið að þessu verkefni í samræmi við ályktun sem samþykkt var á félagsfundi Blindrafélagsins þann 5. febrúar 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.5.2008 | 10:11
Náms-, félagsmála og starfsferill
Námsferill
1980 - 1985 Rafeindavirkjun Iðnskólanum í Reykjavík
1999 - 2000 Viðurkenndur bókari, Háskólinn Reykjavík
2008 - Rekstrar og viðskiptafræði við Endurmenntun Háskóla Íslands, nám með vinnu.
Félagsmálaferill
1982 - 1984 Formaður Iðnnemasambands Íslands
1984 - 1985 Fræðslustjóri Iðnnemasambands Íslands
1986 - 1988 Seta í samráðs og samninganefnd námsmanna
samtakanna á Íslandi sem átti í samningaviðræðum við stjórnvöld um breytingar á námslánakerfinu.
1986 - 1988 Í stjórn OBESSU, Evrópskra námsmanna samtaka. Fyrstur íslendinga sem þar náði kjöri.
1987 - 1989 Fyrsti formaður og einn af stofnendum SAGA, Suður Afríkusamtakanna gegn Apartheid.
2006 - 2008 Gjaldkeri stjórnar Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.
Starfsferill
1985 - 1986 Tæknimaður hjá RUV sjónvarpi.
1986 - 1988 Framkvæmdastjóri Bandalags Íslenskra sérskólanema.
1986 - 1988 Seta í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
1990 - 1993 Framkvæmdastjóri Iðnnemasambands Íslands.
1990 - 1993 Seta í Fræðsluráði iðngreina, skólanefnd Iðnskólans í Reykjavík og samninganefnd ASÍ.
1993 - 1996 Framkvæmdastjóri Félagsíbúða iðnnema.
1997 - 2000 Framkvæmdastjóri bókhalds og rekstrarþjónustufyrirtækis sem sá um launaútreikninga, bókhald og skrifstofurekstur fyrir mörg ólík fyrirtæki.
2000 - 2004 Framkvæmdastjóri eigin reksturs í innflutningi, dreifingu og sölu á matvörum.
2004 - 2007 Markaðsstjóri hjá Nathan og Olsen, innflutningur og sala á matvörum á smásölumarkað.
2007 - 2008 Sölu og markaðsstjóri Ekrunnar, innflutningur og dreifing á matvöru á veitingamarkað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá ákvörðun að gefa kost á mér í embætti formanns Blindrafélagsins tók ég eftir að hafa átt samtal við marga félagsmenn Blindrafélagsins. Í þeim hópi eru almennir félagsmenn, fyrrverandi forustumenn og fólk sem skipar núverandi forustu. Allt eru þetta einstaklingar hverra álit og viðhorf ég met mikils. Þessi samtöl hafa leitt í ljós að framboð mitt virðist njóta nokkuð breiðs stuðnings og því ekki sett fram í tómarúmi. Að auki hef ég verið fullvissaður um að ég muni njóta bæði stuðnings og liðsinnis margra þessara einstaklinga, verði ég kjörinn formaður.
Ég heiti félagsmönnum Blindrafélagsins því,nái ég kjöri sem fomaður, þá muni ég starfa af alúð og heiðarleika fyrir félagið og leggja mitt af mörkum til að vinna hagsmunamálum félagsins og félagsmanna brautargengi sem best ég get.
Ég
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)