6.4.2009 | 12:38
Ráðningar og starfslýsingar - Ályktun stjórnar Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi
"Félagsfundur í Blindrafélaginu haldinn 26. mars að Hamrahlíð 17 lýsir furðu sinni og undrun á ráðningu starfsmanns sem á að sjá um gerð blindraletursefnis við Þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga. Þar var umsækjanda sem gjör þekkir blindraletrið og hefur unnið um áratugaskeið að þróun þess hafnað.
Fundurinn felur stjórn félagsins að fylgja þessari ályktun eftir og fer fram á rökstuðning fyrir því af hverju viðkomandi einstaklingi var hafnað. Félagsfundurinn álítur að þar hafi nýr sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verið þver brotinn. Félagsfundurinn minnir á kjörorð Öryrkjabandalagsins Ekkert um okkur án okkar".
Stjórn félagsins hefur kynnt sér athugasemdir sem gerðar hafa verið við ráðninguna og rökstuðning settan fram af Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
Í rökstuðningi miðstöðvarinnar kemur m.a. fram að á stjórnvöldum hvíli sú skylda að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi og felst í rökstuðningi miðstöðvarinnar að það hafi verið gert.
Úr lögum um málefni fatlaðra
Í 31 grein laga um málefni fatlaðra númer 59 frá 1992 segir:"Fatlaðir skulu eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sé að mati svæðisráðs gengið á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs getur það krafið veitingarvaldhafa um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitinguna."
Hæfi og starfslýsingar
Þegar verið er að ráða í störf sem að snúa að vinnu og þjónustu við fatlaða einstaklinga þá hlýtur sú spurning að vakna að hve miklu leyti stjórnvöld meta til hæfni reynslu af því að vera fatlaður og þekkingu á málefnum þeirra hópa sem verið er að þjónusta. Það má vera ljóst að í mörgum tilvikum getur þar verið um að ræða mikilvæga eiginleika sem geta nýst í starfi betur en formlega menntun. Jafnframt er ljóst að stjórnvaldi er í lófa lagið að setja upp þannig hæfiskilyrði að fatlaðir einstaklingar eigi ekki möguleika á ráðningu og að rökstuðningi stjórnvaldsins verði ekki hnekkt út frá þeim hæfiskilyrðum sem sett voru.
Í auglýsingu um umrætt starf virðist vera sem þeir verkþættir sem tilheyra umræddu starfi séu margir þess eðlis að blindur eða sjónskertur einstaklingur ætti að geta sinnt þeim. Einnig eru þar verkþættir sem blindum einstaklingi er nánast ófært að sinna. Það verður ekki séð af verklýsingu umrædds starfs að hið opinbera hafi gert hina minnstu tilraun til að móta þarna starf sem blindir eða sjónskertir einstaklingar hefðu geta notið jafnræðis við að sækja um.
Samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Hér á landi er nú unnið að innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en Ísland hefur skrifað undir sáttmálann. Í 27 grein sáttmálans, sem fjallar um vinnu og starf, eru taldar upp skyldur aðildarríkjanna, en þær eru :
- a) að leggja bann við mismunun sakir fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
- b) að vernda rétt fatlaðra, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra skilyrða í starfi, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,
- c) að tryggja að fötluðum sé gert kleift að nýta sér atvinnuréttindi sín og réttindi sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
- d) að gera fötluðum kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfsþjálfun og símenntun sem almenningi stendur til boða,
- e) að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlaða og stuðla að starfsframa þeirra á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,
- f) að stuðla að tækifærum til að starfa sjálfstætt, fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur, þróa samvinnufélög og hefja eigin starfsemi,
- g) að ráða fatlaða til starfa innan opinbera geirans,
- h) að stuðla að því að fatlaðir verði ráðnir til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í uppbyggilegum aðgerðaáætlunum, hvatningu og öðrum aðgerðum,
- i) að tryggja að viðeigandi hagræðing fari fram í þágu fatlaðra á vinnustað,
- j) að stuðla að því að fatlaðir geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
- k) að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðra, að því að þeir haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að þeir geti snúið aftur til starfa.
Stefnumörkun Blindrafélagsins
Stjórn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, skorar á allar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem starfa að málefnum fatlaðra að setja sér það markmið að starfsþáttum sé þannig raðað saman til geti orðið störf sem henta fötluðum starfsmönnum. Í þessu felst að leytast skuli eftir því að fremsta megni að hagræða í þágu fatlaðra þannig að ekki séu í starfslýsingum starfsþættir sem fela í sér hindranir sem valda því að fatlaður einstaklingur eigi ekki möguleika á að vera metinn hæfur.
Samþykkt á fundi stjórnar Blindrafélagsins þann 2 apríl 2006.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.