30.12.2008 | 15:55
Um áramót
Áríð 2008 mun eflaust skipa stóran sess í íslandsögunni. Tvenna atburði vil ég gera hér að umfjöllunarefni. Fyrst er að nefna alþjóðlegu fjármálakreppuna, sem leikið hefur íslendinga verr en aðrar þjóðir, hvort sem er einstaklinga, fjölskyldur og/eða fyrirtæki, ásamt því sem orðspor íslendinga á alþjóðavetfangi hefur orðið fyrir verulegu tjóni. Þessir atburðir hafa síðan skyggt verulega á hinn atburðinn, sem er mesta afrek sem íslendingar hafa unnið í íþróttum. Silfurverðlaun íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Olympíuleikunum í Peking. En það afrek færði íslensku þjóðinni bæði gleði og stolt og jók allverulega við hróður íslendinga á alþjóðavettvangi.
Öll íslenska þjóðin hreyfst með og fagnaði þegar hennar fræknustu íþróttahetjur unnu þetta mesta afrek íslenskrar íþróttasögu. Silfurverðlaun á Ólympíuleikum. Allir sem fylgdust með sáu að liðið var drifið áfram af jákvæðum og uppbyggilegum gildum undir forustu einstaklinga sem höfðu tileinkað sér þessi gildi. Þar var til staðar, einbeittur vilji og skýr markmið, virðing og heiðarleiki, samhugur og samvinna og gagnkvæmt traust, gagnvart því verkefni sem tekist var á við. Örfáum vikum seinna skal fjármálakreppan á og sér ekki ennþá fyrir endann á þeim hildarleik.
En hvernig hefur liðið sem valist hefur til að takast á við verkefni fjármálakreppunnar staðið sig? Að hversu miklu leiti hafa jákvæð og uppbyggileg gildi, sem voru í hávegum höfð hjá strákunum okkar í Peking, verið látin í fyrirrúm? Því miður þá eru miklar líkur á því að afrek handboltalandsliðsins muni falla í skuggann af fjármálakreppunni og þeim orðum og athöfnum sem aðalleikarar þess hildarleiks bera ábyrgð á. Þar hafa farið bæði orð og athafnir sem síst hafa verið til þess fallin að auka okkur gleði og stolt eða auka á orðspor okkar íslendinga sem þjóðar.
Það er hinsvegar á valdi okkar allra sem einstaklinga að hafna neikvæðum gildum eins og t.d. rógburði, óheiðarleika og sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna, en stuðla frekar að þeim jákvæðu gildum sem hverju farsælu mannlegu samfélagi eru lífsnauðsynleg; ábyrgð, heiðarleika, samhug, samvinnu, og gagnkvæmu trausti og virðingu. Kannski má draga einhvern lærdóm af því hvernig þessir tveir atburðir; fjármálakreppan og silfurverðlaun íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum, gerast á nánast sama tíma í íslandssögunni, og því hvaða gildi hafa verið valin til leiðsagnar í hvoru tilviki fyrir sig. Upp í huga kemur gömul speki sem fylgt hefur íslendingum alla tíð og kemur úr Hávamálum: Deyr fé, deyja frændur en orðstír deyr eigi. Hverjir skyldu verða dómar sögunnar?
Ef ég lít meira inn á við, á vettvang Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur árið ekki síður verið viðburðarríkt. Ég tók við embætti formanns félagsins í maí mánuði og í þeim sama mánuði gerðu við nokkrir félagsmenn atlögu að Hvannadalshnjúk, en urðum frá að hverfa vegna veðurs. Áformað er að gera aðra atlögu í maí 2009.
Ég sótti stórmerkilega alheimsráðstefnu Retina International í Helsinki í júlí mánuði. Ég gerði ítarlega grein fyrir helstu niðurstöðum ráðstefnunnar. Sjá frásagnir hér.
Stórt skarð var höggvið í samfélag okkar þegar Helga Einarsdóttir féll frá um mitt sumar, í blóma lífsins, rétt fyrir 43 ára afmælisdaginn sinn. Sjá minningargrein. Minningu Helgu og verkum hennar mun verða sýnd tilhlýðileg virðing á vettvangi félagsins í nánu samstarfi við aðstandendur.
Í ágúst sótti ég ásamt fleirum frá Blindrafélaginu 7 alheimsþing þing World Blind Union, yfir 600 einstaklingar allstaðar úr heiminum sátu þingið. Þingið er haldið á fjögurra ára fresti. Sjá frásögn hér.
Í september mánuði voru fjórir leiðsöguhundar afhentir notendum sínum, en við það fjölgaði leiðsöguhundum á Íslandi úr einum í fimm. Sjá hér frásögn. Mjög vel hefur gengið hjá notendum og leiðsöguhundum og ríkir almenn ánægja með hvernig til tókst. Leiðsöguhundaverkefnið var unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og með öflugum stuðningi Lions hreyfingarinnar á Íslandi. Um tilraunaverkefni var að ræða og nú hefur heilbrigðisráðherra skipað starfshóp til að fara yfir og gera tillögu að framtíðarskipulag þessara mála.
Á síðustu dögum Alþingis fyrir jól samþykkti þingið lög um þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Mun stofnunin taka til starfa strax í upphafi árs 2009. Með þessari nýju miðstöð er stigið stórt framfaraskref í þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga. Blindrafélagið lagði mikla áherslu á að þetta mál yrði afgreitt. Nú þegar miðstöðin er orðin að veruleika þá tekur við uppbyggingar og mótunarstarf sem Blindrafélagið hefur fullan hug á að vera virkur þátttakandi í. Sjá hér frásögn og tengil inn á lögin.
Árið 2009 mun færa með sér ný viðfangsefni. Árið er m.a. merkilegt fyrir þær sakir að 70 ár verða liðin frá stofnun Blindrafélagsins á árinu og í janúar verður haldi upp á að 200 ár eru liðin frá fæðingu Louis Braille, höfundar blindraletursins. Blindrafélagið mun minnast þessara tímamóta með viðeigandi hætti.
Af þessu tilefni hefur Blindrafélagið m.a. látið gera sérstaka afmælisútgáfu af bréfsefni og merki félagsins. Afmælismerki félagsins er talan 70 með lampann inni í tölustafnum núll. Á bréfsefni, umslögum og öðru efni merktu félaginu, er búið að setja nafn félagsins (Blindrafélagið) í blindraletri fyrir ofan nafn félagsins í hefðbundnu letri. Blindraletrið mun vera bæði upphleypt og litað hinum bláa lit félagsins á bréfsefni og öðru því efni þar sem það er mögulegt.
Fleira er fyrirhugað og verður kynnt þegar þar að kemur.
Á þessum áramótum vil ég færa félagsmönnum, velunnurum, samstarfsaðilum Blindrafélagsins og öllum öðrum kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða, um leið og ég læt í ljós þá von að áframhald verði á á árinu 2009.
Megi ykkur og fjölskyldum ykkar farnast sem best á komandi ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Kristinn og gleðilegt árið komandi.
(IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 22:50
Jamm formaður, góð samantekt!
Magnús Geir Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 15:09
Þakka ykkur Sigurlaug og Magnús fyrir innlitið og kvittunina
Kristinn Halldór Einarsson, 4.1.2009 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.