Einhverfur drengur skilinn eftir einn - Dæmi af þeirri ferðaþjónustu sem fatlaðir þurfa að búa við

Í gær birtist frétt í Fréttablaðinu af hremmingum fjögurra ára einhverfs drengs sem þarf að nýta sér Ferðaþjónustu fatlaðra. Fréttin fylgir hér á eftir

"Fjögurra ára drengur hefur í tvígang verið skilinn eftir í reiðileysi fjarri áfangastað sínum af Ferðaþjónustu fatlaðra. Faðir drengsins segir mildi að ekki hafi farið verr. Komið sé fram við son sinn eins og dauðan hlut en ekki lítið barn. 

Steingrímur Páll Viderö, fjögurra ára þroskahamlaður og einhverfur drengur úr Mosfellsbæ, hefur í tvígang verið skilinn eftir einn og yfirgefinn af starfsmönnum Ferðaþjónustu fatlaðra. Steingrímur getur ekkert tjáð sig. Martin Viderö, faðir Steingríms, segir mildi að ekki hafi farið illa.

Martin segir sárt að vita til þess að sonur sinn sé skilinn eftir á stöðum fjarri þeim áfangastað sem hann átti að vera sendur á fyrir það fyrsta og þess ekki gætt að hann komist í réttar hendur. Það sé ólíðandi meðferð, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.

"Það gengur ekki að barnið okkar sé ítrekað skilið eftir einhvers staðar niðri í bæ, eitt og yfirgefið, því starfsmennirnir hafa ekki fyrir því að finna leikskólann hans," segir Martin. Í stað þess að leita betur fóru starfsmenn ferðaþjónustunnar tvívegis með drenginn í Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á Háaleitisbraut. Í annað skiptið var honum fylgt inn en bílstjórinn gat ekki sagt starfsfólki Styrktarfélagsins hvað drengurinn héti. Slík vinnubrögð segir Martin lýsa miklu fálæti í garð lítils barns.

Seinna skiptið hafi þó verið mun alvarlegra en þá skildi bílstjórinn Steingrím eftir í anddyri Styrktarfélagsins. "Hann getur ekkert tjáð sig en þykir spennandi að fara út og skoða. Hann hefði ekki þurft að hafa mikið fyrir því að ganga út um sjálfvirku dyrnar sem þarna eru. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvað hefði getað gerst," segir Martin. Sem betur fer veitti starfsfólk Styrktarfélagsins drengnum athygli og sá til þess að hann kæmist í réttar hendur.

Martin og Júlíana Steingrímsdóttir, móðir drengsins, furða sig einnig á að hann sé látinn sitja í framsæti bíla ferðaþjónustunnar. "Ég hélt að lög í landinu bönnuðu slíkt," segir Martin. Hann segir að starfsmenn hafi tjáð honum að stundum væri fullorðið fólk meðal farþega sem gæti reynst barninu hættulegt og því mætti hann ekki sitja aftur í. Ekki hafi komið til greina að sækja Steingrím á öðrum bíl.

Unnur Erla Þóroddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Mosfellsbæ, segir athugasemdir sem þessar litnar alvarlegum augum og reynt yrði að finna lausn á málinu. Hún benti á að Mosfellsbær væri með samning við Ferðaþjónustu fatlaðra og Gunnar Torfason svaraði fyrir það fyrirtæki. Hann vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband.
karen@frettabladid.is"

Því miður er það svo að Ferðaþjónusta fatlaðra virðist vera þjónusta sem skipulögð er út frá þörfum þeirra sem veita þjónustuna frekar en þeirra sem nýta sér hana. Dæmi er um að þeir sem þurfa að nota þessa þjónustu þurfi að sætta sig við að vera keyrðir á sinn áfangastað allt að 2 klst fyrr en þeim er ætlað að mæta, vegna þess að það hentar þeim rúnti sem bílinn fer þann daginn. Ef notendur þessara þjónustu þurfa að bregða sér eitthvað, er eins gott að þeir ákveði það deginum áður, því það er sá fyrirvari sem þarf að hafa á því að fá akstursþjónustu frá Ferðaþjónustu fatlaðra. Þetta er fyrirkomulag sem er ekki ásættanlegt því það tryggir fötluðum ekki það ferðafrelsi sem þeir eiga rétt á.

Ég mun síðar fjalla meira um ferðaþjónustumál fatlaðra og þá sérstaklega blindra og sjónskertra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæll!

j'a,ljótt er að heyra. Á sjálfur innhverfan (nota það hugtak frekar en einhverfan, eldra hugtakið og á betur við í mínu tilfelli) bróðurson sem á þessum aldri tjáði sig einmitt lítt, en með mikilli hjálp og þróun hefur ræst mjög vel úr honum á margan hátt. Spurning hvort Öbi eða einstök félagasamtök fatlaðra þyrftu ekki bara að reyna að fara að fordæmi Blindrafélagsins, leita eftir tví- eða þríhliða samningum um þessi ferðaþjónustu/ferlismál!?(t.d. í þessu tilfelli Mosfellsbær, félög eða samtök fatlaðra í bænum og einvherra er veita ökuþjónustu, t.d. leigubifreiðastöð!)

Nánari útfærsla yrði svo auðvitað að einvherju eða öllu leiti samofin þörfum og sem mundi henta sem flestum væntanlega!

Magnús Geir Guðmundsson, 26.9.2008 kl. 22:22

2 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Sæll Magnús
Það er að mínu viti hárrrétt athugasemd hjá þér, að ferðaþjónusmál fatlaðra væru í mun betra lagi og þjónuðu þörfum þjónustuþega mun betur, ef það fyrirkomulag sem er á ferðaþjónustmálum lögblindra væri viðhaft. Hinsvegar er það avo að lögblindir njóta ekki allstaðar sömu réttinda í efrðaþjónustumálum og fer það eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir búa. Þannig stendur lögblindum íbúum  Mosfellsbæjar og Kópavogs ekki til boða samskonar ferðaþjónusta og lögbindum íbúum annar sveitarfélaga á Íslandi. Afstaða þessara sveitarfélaga fram til þess hefur verið að lögblindir íbúar þeirr skuli nýta sér ferðaþjónustu fatlaðara, sem eins og kunnug er veitir mjög takmarkaða þjónustu.  Þetta skerðir að sjálfsögðu læifsgæði viðkomandi einstaklinga mjög mikið og ef einhver hefur t.d. flust búferlum frá Reykjavík til Mosfellsbæjar, eins og dæmi eru um, þá þarf viðkomandi að sætta sgi við mikla lífsgæðaskerðingu. Það er m.a.a verkefni okkar að vinna í því að fá þessu breytt.

Kristinn Halldór Einarsson, 27.9.2008 kl. 13:50

3 Smámynd: Lilja Sveinsdóttir

Já. Þennan litla dreng þekki ég og foreldra hans. Það er ekki bara búið að skilja hann eftir heldur hefur líka verið gleymt að ná í hann. Strax var farið í að finna lausn á þessu máli á föstudaginn og eiga þau von á svari á morgunn. Þetta hefur verið mikil þrautarganga fyrir þau. Kveðja Lilja

Lilja Sveinsdóttir, 28.9.2008 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband