18.6.2008 | 21:29
Blint kaffihús og málverkasýningin Ljós í myrkri
Þann 17 júní hóf UngBlind starfrækslu Blinds kaffihús að Hamrahlíð 17. Daginn eftir, eða þann 18 júní opnaði Halldór Dungal listmálari og félagi í Blindrafélaginu, málverkasýningu í húsakynnum Blindravinnustofunnar, einnig að Hamrahlíð 17. Sýninguna kallar Halldór Ljós í myrkri.
Blinda kaffihúsið er þannig að gestir panta sér veitingar áður en þeim er fylgt inn í almyrkvaðan salinn. Veitingarnar eru síðan bornar fyrir gesti og þeir verða að gæða sér á þeim í myrkrinu. Af veitingunum er enginn svikinn, þjónustan er í fínu lagi og tónlistin sem er spiluð er vel valin og eykur á þægilegt andrúmsloft staðarins. Nú kunna einhverjir að velta því fyrir sér hvort að tilgangurinn með blindu kaffihúsi sé að veita hinum sjáandi innsýn inn í þá veröld sem blindir búa við? Að hluta til er það rétt, að svo miklu leiti sem það snýr að því að geta ekki notað sjónina sem skynfæri inni á veitingastað, að því leyti sem það snýr hinsvegar að myrkrinu þá er það ekki rétt, því hinum sjáandi er ekki ætlað að draga þær ályktanir að blindir búi í myrkri. Það er góð reynsla að setjast niður í blindu kaffihúsi, njóta þeirra góðu veitinga sem þar er boðið uppá og spjalla við unga fólkið sem vinnur á kaffihúsinu. Það er óhætt að mæla með t.d. ferð í hádeginu og fá sér gómsæta og matarmikla súpu og brauð.
Halldór Dungal listmálari hefur unnið að list sinni í áratugi, hann stundaði nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 1965 og 1972 og eftir það í Myndlista og handíðaskóla Íslands. Hann er það sem kallað er lögblindur, er með 2% sjón. Á sýningunni Ljós í Myrkrinu eru til sýnis og sölu 30 málverk sem flest eru nýlega unnin. Halldór líkir vinnslu verka sinna við það að skjóta blindandi ör af boga. Hann hugleiðir mikið og málar verkin fyrst í huganum og þegar tilfinningin er orðin nógu sterk þá vinnur hann verkið á örskotsstund.
Að gera sér ferð í Hamrahlíð 17 á málverkasýningu í Blindravinnustofunni og fara á Blint kaffihús er vel þess virði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.6.2008 kl. 10:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.