Hjálpartækjaleigu Blindrafélagsins hleypt af stokkunum

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur sett á fót hjálpartækjaleigu. Tilgangurinn er m.a. að bjóða skólum landsins upp á þann valkosta að leigja hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta nemendur, í stað þess að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar við kaup á slíkum tækjum.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, hefur sett á fót hjálpartækjaleigu. Tilgangurinn er m.a. að bjóða skólum landsins upp á þann valkosta að leigja hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta nemendur, í stað þess að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar við kaup á slíkum tækjum. Hjálpartækjaleigunni er þar með ætlað að auðvelda skólum landsins að uppfylla lagalegar skyldur sínar gagnvart blindum og  sjónskertum nemendum og tryggja jafnt aðgengi þeirra að menntun. Hjálpartækjaleigan hefur þegar undirritað fyrsta leigusamninginn, sem er við Hvolsskóla á Hvolsvelli, um leigu á öflugu  stækkunartæki. Tækið stækkar upp texta á blöðum og í bókum og getur jafnframt stækkað það sem skrifað er á töfluna eða annað í kennslustofunni. Verður tækið afhent formlega við hátíðlega athöfn í skólanum nk. miðvikudag, 7. apríl, kl. 13.30.

Að sögn Kristins Halldórs Einarssonar, formanns Blindrafélagsins, stendur fyrirtækjum og stofnunum einnig til boða að leigja hjálpartæki fyrir starfsmenn sína. Hann gerir ráð fyrir að vegna mikils niðurskurðar, í skólakerfinu sem og annarstaðar, komi þjónusta hjálpartækjaleigunnar til með að nýtast skólum landsins sérlega vel enda talsvert auðveldara fyrir skólana að leigja tæki þegar á þarf að halda í stað þess að fjárfesta í tilskyldum búnaði.

Hagkvæmur kostur
Hluti þeirra sérhæfðu hjálpartækja sem blindir og sjónskertir einstaklingar þurfa á að halda geta verið kostnaðarsöm í innkaupum. Blindir og sjónskertir  nemendur sem ekki hafa aðgang að nauðsynlegum hjálpartækjum geta ekki stundað nám sitt á sömu forsendum og aðrir nemendur, eins og lög gera ráð fyrir.  Núgildandi fyrirkomulag gerir  ráð fyrri því að bæði skólar og vinnustaðir kaupi þau hjálpartæki sem nemendur þeirra eða starfsmenn þurfa á að halda. Það getur leitt til þess að aðilar sitji uppi með búnað, t.d. í kjölfar náms- eða starfsloka hjá notendum tækjanna, án þess að aðrir með sömu þarfir komi jafnóðum í staðinn. Slíkt getur leitt til verðmætasóunar. Hjálpartækjaleigu Blindrafélagsins er því ætlað að auðvelda bæði skólum og vinnustöðum að láta blindum og sjónskertum nemendum, eða starfsmönnum, í té nauðsynleg hjálpatæki þegar nauðsyn krefur á sem hagkvæmastan hátt.

Blindrafélagið

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, stofnað 1939, er samfélagslegt afl  – mannréttindasamtök -  sem berst fyrir að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Kjörorð félagsins er: Stuðningur til sjálfstæðis.

Frekari upplýsingar veitir Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, í síma 525 0020 eða á netfangið khe@blind.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband