Ekki gott að búa í Kópavogi fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga - Opið bréf til stjórnmálaforingja í Kópavogi

Á höfuðborgarsvæðinu er búsettir um 470 einstaklingar sem eru lögblindir (minna en 10% sjón). Fjölmennastir í þessum hópi eru eldri borgarar. Í þessum hópi eru einstaklingar á virkum vinnualdri sem hafa fulla starfsorku og vilja vera virkir í samfélaginu. Algeng orsök þess að blindum og sjónskertum einstaklingum tekst ekki að vera samfélagslega virkir, er einangrun sem hlýst af því að geta ekki keyrt bifreið eða notað strætisvagna og komist þannig leiðar sinnar á sjálfstæðan máta.

Af þeim 470 lögblindu einstaklingum sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu eiga 411 kost á akstursþjónustu með leigubílum, samkvæmt samningum milli Blindrafélagsins, Hreyfils og  viðkomandi sveitarfélags, sem sérstaklega eru sniðnir að þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga. Af þeim 59 sem ekki eiga kost á þess konar akstursþjónustu, eru 51 búsettir í Kópavogi, eða tæp 90%. Þessi akstursþjónusta hefur gefist einstaklega vel og reynst mjög hagkvæm.

Nú er það svo að Ferðaþjónusta fatlaðra, sem er valkostur sem Kópavogsbær býður blindum og sjónskertum, er mjög takmarkandi þjónustuúrræði sem engan vegin svarar þörfum allra einstaklinga sem vilja vera virkir í samfélaginu. Þjónustustig Ferðaþjónustu fatlaðra er einfaldlega ekki ásættanlegt í mörgum tilvikum, þó að í öðrum sé það vissulega fullnægjandi. Þarfir einstaklingana eru mismunandi og ekki er með neinu móti hægt að alhæfa að allir sem þurfa á aksturs og ferðaþjónustu að halda, hafi sömu þjónustuþörf.

Mikilvægast er að þjónustan sé skipulög og veitt út frá þörfum þeirra sem eiga nýta sér þjónustuna en ekki þeirra sem veita hana.

Í lögum nr 52 frá 1992 um málefni fatlaðra er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða segir m.a.:

 „35. gr. Sveitarfélög skulu gefa fötluðum kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um rekstur ferðaþjónustu fatlaðra.  ...

Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, sem íslenska ríkisstjórnin hefur skrifað undir, er fjallað um ferðaþjónustu við fatlaða. Þar segir:

„20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi, ....“

Með undirskrift ríkisstjórnar Íslands á Sáttmála sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er komin fram stefnumörkun stjórnvald í málefnum fatlaðra.

Sé tekið mið af lögblindum einstaklingum í Kópavogi, sem ég þekki persónulega til,  þá get ég sagt með fullri vissu, að sú ferðaþjónusta sem stendur þeim til boða, er ekki að mæta þörfum þeirra og gera þeim kleyft að stunda atvinnu eða nám og njóta tómstunda, eins og kveðið er á um í 35 grein laga um málefni fatlaðra, svo ekki sé nú minnst á ákvæði 20 greinar í Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um málefni fatlaðra.. Fyrir vikið eru lögblindir Kópavogsbúar mun verr settir á flest allan hátt en  lögblindir einstaklingar sem búa í Reykjavík, og svo hefur verið lengi.

Með þessu opna bréfi, óska ég eftir því við forustumenn stjórnmálaflokkanna í Kópavogi, að þeir svari því hvort þeir séu tilbúnir til að tryggja, að blindum og sjónskertum Kópavogsbúum, verði tryggð þjónustu sem mætir þörfum þeirra og er í samræmi lög,  gildandi sáttmála, nútímakröfur og sambærileg þeirri þjónustu sem aðrir blindir og sjónskertir íbúar höfuðborgarsvæðisins njóta.

Kristinn Halldór Einarsson
Formaður Blindrafélagsins,
samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband