Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Skarphéðinn Andri Kristjánsson Barðsnes 01.03.1995 - 28.01.2014.

Skarphéðinn Andri

Í dag fylgdi ég til grafar ungum frænda mínum. Að fylgja til grafar ungu fólki sem látist hefur af slysförum er eitt það erfiðast sem við gerum. Þann hálfa mánuð sem frændi minn, hann Skarphéðinn Andri, barðist fyrir lífi sínu á gjörgæslu, létu foreldrar hans ættingja og vini fylgjast vel með baráttu hans. Það var tími tára og sorgar en um leið vonar. Samhugur með Skarphéðni Andra og fjölskyldu hans var ríkjandi tilfinning á þessum  erfiðu tímum. Öll báðum við þess að Skarphéðinn myndi hafa betur. Á þessum tíma kom vel í ljós að Skarphéðinn var í augum stórs vinahóps heilsteyptur og vinsæll. Í því tilgangsleysi sem manni finnst svona fráfall vera, þá eru aðrar og ekki síður sterkar tilfinningar sem fylgja fráfalli Skarphéðins. Enn það er þakklæti og stolt. Þakklæti samfélagsins, vil ég leyfa mér að segja, vegna þeirra stóru gjafa sem hann og fjölskylda hans, foreldrar og bræður, gáfu með afstöðu sinni til líffæragjafa. Og stoltið sem fylgir þessari lífgefandi afstöðu, sem þau gerðu opinbera og hefur nú þegar stuðla að varanlegri viðhorfsbreytingu til líffæragjafa. Mörgum lífum mun verða bjargað, mun fleiri en þeim sem nutu góðs af beinni gjöf Skarphéðins. Þau spor sem Skarphéðinn hefur markað í samfélaga okkar á sinni stuttu ævi eru dýpri og jákvæðari en við flest munum skilja eftir okkur á margfalt lengri ævi. Það eru miklir mannkostir sem birtast í Skarphéðni í þessu sorglega ferli. Mannkostir sem Skarphéðinn hefur öðlast í gegnum uppeldi foreldra sinna. Það er þeim fagur vitnisburðum. Styrkur ásamt stórhug, örlæti og heiðarleika hefur einkennt  fjölskyldu Skarphéðins á þessum erfiðu tímum. Það sést vel þegar atburðarásin er sett í samhengi við þau kjörorð sem Skarphéðinn Andri hafði tileinkað sér, og minnig hans mun lifa í: "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra."   

Okkar innilegustu samúðarkveðjur sendum við foreldrum, bræðrum, öfum, ömmum, öðrum ættingum og stórum vinahópi, vegna fráfalls Skarphéðins Andra Kristjánssonar Barðsnes. Megi huggun finnast í því sem hann skilur eftir sig fyrir okkur öll.

Kristinn Halldór, Kristín Sjöfn og Jón Héðinn.       


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband