Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Nú árið er liðið í aldanna skaut..... perónulegt uppgjör

Aðallega fyrir sjálfan mig, og einnig þá sem kunna að hafa áhuga á högum mínum, þá hef ég ákveðið að setja niður í texta eitt og annað sem gæti verið persónulegt uppgjör á árinu 2013.

Heilsufarið hefur verið gott á árinu og ég hef náð þeim markmiðamiðum mínum að vera duglegur i heilsuræktinni. Æfi reglulega og geri nokkuð af því að ganga. Þetta ásamt aukinni hófsemd í hversu mikið ég borða, mikið frekar en hvað ég borða, hefur leitt til þess að um þessi áramót er ég umtalsvert léttar en ég var um seinustu áramót. Í það heila hef ég létt mig um 15 kg frá því að ákvað að hætta að þyngjast með hverju árinu yfir í að koma mér í kjörþyngd, nokkuð sem ég er kominn mjög nálægt. Ég æfi heima og er með prógramm sem heitir Body Weigh Burn og er að virka ágætlega fyrir mig. Þeir sem hafa áhuga geta séð það hér. Það stendur ekkert annað til en að halda þessu áfram með það að markmiði að um næstu áramót verði ég í betra formi en ég er í núna.

Annað sem snýr að heilsufari er sjónin, en það er því miður eitthvað sem ég hef mjög takmarkaða, ef þá nokkra, stjórn yfir. Augnsjúkdómurinn (RP) sem ég er með veldur því að ljósnæmar frumur í sjónhimnunni (stafir og keilur) hætta að virka sem afleiðing af hrörnunarferli sem veldur því að  sjónin fer minnkandi ár frá ári. Hér má lesa um RP. Í mínu tilviki er þetta að gerast hægt miðað við önnur tilvik sem ég þekki til. Birtingamynd sjónskerðingarinnar hjá mér er að sjónsviðið þrengist og þrengist. Nú er það um og undir 10° sem þýðir að ég er með innan við 10% af fullri sjón, sem þýðir að ég er lögblindur. Ég hef hinsvegar ennþá góða sjónskerpu í þessu takmarkaða sjónsviði og get því ennþá lesið. Einnig gerist það að ég þarf alltaf meiri og meiri birtu og sterkari kontrast. Þar sem engar meðferðir eru ennþá komnar fram á sjónarsviðið þá hef ég ekki annan kost en að lifa sæmilega heilsusamlegu lífi í þeirri von að slíkur lífsmáti hægi eitthvað á þessu hrörnunarferli. Enn það eru mikil rannsóknarvinna i gangi víða um heim og meðferðir munu líta dagsins ljós. Sjá hér. Hvort það verður nægjanlega snemma til að gagnast mér verður bara að koma í ljós.

Af vettvangi fjölskyldunnar þá ber hæst að þrír einstaklingar kvöddu þennan heim. Fyrst skal telja Nonna fósturfaðir minn sem lést rúmlega 80 ára gamall í  maí mánuði, eftir erfið og  langvarandi veikindi. Sjá hér minningargrein sem ég skrifaði. Undir lok ársins létust svo móðursystir mín Elísabet Þorgeirsdóttir og móðuramma Kristínar konunnar minnar, Sigurbjörg Sveinsdóttir. Sjá hér minningargrein sem Kristín skrifaði. Sonur okkar hjóna Jón Héðinn heldur áfram að standa í sig vel sem matreiðslumaður á Tapasbar og hefur nú ákveðið að fara í meistaraskólann og verða matreiðslumeistari.  

Af starfsvettvangi þá hef ég verið í starfi hjá Blindrafélaginu  sem formaður og verkefnastjóri. Blindrafélagið sinnir mjög mikilvægu starfi. Meirihluti félagsmanna eru eldri borgarar, til marks um samsetningu félagsmanna þá er hægt að nota þumalputtaregluna 70% félagsmanna eru 70 ára og eldri. Til marks um mikilvægt hlutverk Blindrafélagsins er þessi frétt sem fékk enga athygli fjölmiðla. Enn hún segir frá því að af frumkvæði Blindrafélagsins hafi verið settar 150 milljónir króna í málaflokka blinds og sjónskerts fólks frá hruni. Ég hef einnig gegnt stjórnarformennsku hjá Blindravinnustofunni ehf. Enn okkur í stjórnin beið það verkefni að snúa við taprekstri sem ógnaði tilvist vinnustofunnar. Það hefur tekist að því marki að rekstrinn er núna í járnum. Ég hef einnig tekið þátt í starfi undirbúningshóps að stofnuna Almannaróms, en þar er að mínu viti verkefni sem eru bæði mikilvægari og meira aðkallandi en flestir gera sér grein fyrir varðandi notagildi íslenskrar tngu í tölvuheimum í nánustu framtíð. Sjá frekar á www.almannromur.is   


Á Snæfelli

Í sumar skipulagði ég metnaðarfulla 10 daga sumarferð Blindrafélagsins þar sem við vorum 22 saman. Ferðast var í rútu og gist í tjöldum og gengið var á Kristínartinda í Skaftafelli, á Fagradalsfjall við Grágæsadal, Snæfell, farið á Bræðsluna í Borgarfirði og gengið í Brúnavík og farið í hvalaskoðun á Húsavík. Samtals voru gengnir 60 km með heildarhækkun uppá 3500 m. Ferðin tókst einstaklega vel, jafnvel framar bjartsýnustu vonum. Hápunktur ársins er að hafa staðið í glaða sólskyni í 19 stiga hita kl 18:00 á toppi Snæfells með ótrúlegt útsýni yfir hálendi Austurlands.

Varðandi samfélagsmálin þá hef ég áhyggjur að því að aukinn ójöfnuður og þröngsýn þjóðernisleg gildi með tilheyrandi einangrunarhyggju sé að ryðja sér til rúms á kostnað frjálslyndis og jöfnuður. Ég er algerlega sannfærður um slíkt mun ekki færa samfélagi okkar gæfu. Ég verð líka að segja að mér finnst það vera ótrúleg staða að eftir að íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum annað eins fjármálahrun og hér dundi yfir árið 2008, þar sem samfélagið hafði verið holað að inna í gengdarlausri græðgisvæðingu, þar sem allt var leyft undir stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, að þá skuli þessir flokkar hafa verið leiddir aftur til valda eftir að öðrum hafi verið fengið það vanþakkláta hlutverk að þrífa upp eftir þá og reyna vinna úr einni mestu kjaraskerðingu sem íslenskt launafólk hefur þurft að taka á sig.  

Svo er það enski boltinn. Sem Man United maður þá er ekki af mörgu að gorta á seinnihluta ársins. Sir Alex Ferguson lét að störfum sem framkvæmdastjóri síðastliðið vor eftir að hafa landað 20. meistaratitlinum. Nú gengur allt á afturfótunum hjá David Moyes, arftakanum sem Sir Alex valdi sjálfur og ljóst að United mun eiga fullt í fangi að enda í einu af 4 efstu sætunum. Enn það voru önnur félög sem einnig skiptu um framkvæmdastjóra. Lið eins og Barcelona, Bayern, Chelsea og Man City. Öfugt við hjá Man United, þar sem talað var um aðlögunartíma fyrir nýjan framkvæmdastjóra, þá var ekkert slíkt inn í myndinni hjá hinum klúbbunum. Enda eru þeir í dag allir í toppbaráttunni. Reyndar held ég það sé til marks um hversu frábær framkvæmdastjóri Sir Alex var að honum hafi tekist að landa meistaratitli með þetta United lið, sem er bara alls ekki nógu vel mannað til að vera í toppbaráttu.

Árið 2014 leggst vel í mig. Ég mun taka við starfi framkvæmdastjóra Blindrafélagsins um mitt ár sem mun færa með sér nýjar og spennandi áskoranir.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband