Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Minningargrein - Jón Sigurðsson f. 24.06.1932 d. 12.05.2013.

Jón Sigurðsson

 

Jón Sigurðsson fæddist í Neskaupstað 24. júní 1932. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 12. maí 2013. Foreldrar hans voru: Sigurður Halldórsson, f. 16. janúar 1900, d. 4. ágúst 1980 og Margrét Halldórsdóttir, f. 12. september 1899, d. 19. júní 1982. Systkini Jóns, öll látin, voru: Stefanía, f. 1925, d. 1972, Halla, f. 1926, d. 2009, Halldór, f. 1930 drukknaði 1946 og Gunnlaugur, f. 1937, d. 2006.  Jarðaför Jóns verður frá Guðríðarkirkju mánudaginn 27 maí kl. 13:00.

Kveðja frá Kristni Halldóri, Kristínu Sjöfn og Jóni Héðni.

Allar vegferðir taka enda og það eitt vitum við um lífshlaup okkar að það mun á endanum renna sitt skeið. Stundum með algerlega ótímabærum og sviplegum hætti, enn sem betur fer oftar að genginni langri og farsælli ævi.
Fósturfaðir minn Jón Sigurðsson, eða Nonni, eins og hann var kallaður, hefur nú kvatt þennan heim saddur lífsdaga og fengið hina endanlegu líkn frá erfiðum veikindum sem hann glímdi við sín seinustu æviár.

Fyrir mér markast lífshlaup Nonna að miklu leiti af sviplegum fráföllum þar sem ungir menn fórust af slysförum langt fyrir aldur fram.
Árið 1971 er mikið örlagaár í ævi okkar. Í desember 1971 ferst Stígandi NK 33 í línuróðri og með honum bræðurnir Einar Þór Halldórsson, faðir minn, og Björn Björgvin Halldórsson. Faðir minn lét eftir sig eiginkonu, móður mína Rósu Skarphéðinsdóttur sem þá var um þrítugt og fjögur börn, systur mínar Gunnu Stínu, Siggu og Sólveigu, auk þess sem sú fjórða, Þórey Björg, fæddist í mars 1972. Ég var elstur, 11 ára og systur mínar frá 6 – 10 ára á þessum tíma.

Það er að sjálfsögðu mikið áfall fyrir lítið samfélaga þegar að slys sem þessi verða og fyrir unga fjölskyldu er eins og tilverunni sé kippt í burtu og allt verður mikilli óvissu háð og tilfinningar eins og reiði og sorg verða alls ráðandi.    

Nonni og faðir minn höfðu verið góðir vinir og ég man eftir Nonna strax sem lítill strákur, ásamt föður sínum gerði hann út trilluna Sillu. Enn ævistarf Nonna var að vera smábátasjómaður austur á Neskaupstað.

Á þeim vikum og mánuðum sem liðu eftir Stígandaslysið var mikill gestagangur á heimilinu og vinir og kunningjar lögðu sig fram um að veita okkar ungu fjölskyldu stuðning. Nonni var í þeim hópi. Hann og móðir mín fella svo hugi saman og hann gengur okkur systkinunum fimm í föðurstað. Í desember 1973 fæðist svo sjötta systkinið Einar Björn Jónsson.

Að stíga inn í það hlutverk sem Nonni gerði er meira heldur en að segja það. Eftir því sem ég hef elst og þroskast hef ég betur gert mér grein fyrir því örlæti og þeim stórhug sem þarf til að bera til að vera tilbúinn til að axla þá ábyrgð sem í þessu fólst. Nokkuð sem ég held að fáum mönnum sé gefið.

Ég naut leiðsagnar Nonna á unglingárum og var töluvert á sjó með honum. Nonni reyndist mér í alla staði mjög vel. Hann sýndi mér ótakmarkaða þolinmæði og hvatti mig og aðstoðaði í að láta drauma mína rætast. Nonni var örlátur, hlýr og glaðvær maður.

Nonni naut þess að sjá barnabörn vaxa úr grasi sem öll voru frá unga aldri mjög hænd að honum vegna meðfæddrar hlýju og örlætis. Nafni hans og sonur okkar hjóna, Jón Héðinn, naut þess sem ungur strákur að heimsækja ömmu og afa austur á Neskaupstað og fara með afa á Sillunni út á fjörð að veiða fisk. Sem gjarnan var svo matreiddur af ömmu og borðaður með bestu lyst.

Nú er lokið okkar vegferð saman og ég, ásamt konu minni Kristínu Sjöfn og afanafna þínum Jóni Héðni, kveð þig Nonni minn, og geymi í huga mér minninguna um hlýjan, örlátan og stórhuga mann.

Kristinn Halldór Einarsson

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband