Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
Full ástæða er til að óska táknmálsnotendum til hamingju með þann merka áfanga að tákbnmál skulu hafa öðlast stöðu í lögum sem íslenskt tungumál.
Með samþykkt þessara laga var jafnframt staðfest staða íslensks punktaleturs sem ritmál þeirra sem það þurfa að nota.
Blindrafélagið hafði frumkvæði af því að óska eftir að gefa umsögn umþetta mál. Umsögnin var svohljóðandi:
Almennt er það afstaða Blindrafélagsins að frumvarpið sé til bóta. Hins vegar saknar félagið að ekki sé hugað að réttindum blindra við setningu slíkra laga og stöðu íslensks punktaleturs (braille). Blindrafélagið telur það réttlát og eðlileg krafa að fest verði í lög að íslenskt punktaletur verði lögfest sem íslenskt ritmál þeirra sem það nota."
Umsögninni fylgdi síðan tillaga til breytinga á frumvarpinu þar sem punktaletur var sett inn sem fullgilt íslenskt ritmál.
Menntamálanefnd Alþingis lagði til að fallist yrði á tillögur Blindrafélagsins og að íslenskt punktaletur yrði lögfest sem íslenskt ritmál. Í þessu felast umtalsverðar réttarbætur fyrir þá sem nota punktaletur og styrkir stöðu þeirra við að fá efni frá hinu opinbera á punktaletri.
Lög um táknmál samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.5.2011 | 14:34
Úrskurðarnefnd í Velferðarráðuneytinu fellur á fyrsta prófinu og tekur ekkert tillit til Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Í umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, frá 13 maí s.l. í stjórnsýslukæru á hendur Kópavogsbæ, heldur Kópavogsbær því fram að úrskurðurinn feli í sér að bæjarfélagið uppfylli lagaskyldur sínar við blinda íbúa bæjarfélagsins þegar kemur að ferðaþjónustu. Þetta er algerlega röng ályktun. Úrskurður nefndarinnar fjallar eingöngu um stjórnsýslukæru vegna eins einstaklings og er ekki allsherjar heilbrigðisvottorð fyrir ferðaþjónustu við blinda Kópavogsbúa.
Blindrafélagið er reyndar þeirrar skoðunar að úrskurðurinn sé rangur og mun senda kvörtun til Umboðsmanns Alþingis til að fá úr því skorið hvort að sú stjórnsýsla sem hér um ræðir, bæði að hálfu Kópavogsbæjar og Velferðarráðuneytisins standist markmið þeirra laga sem við eiga og ákvæða í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Sjá frekar í meðfylgjandi yfirlýsingu frá Blindrafélaginu:.
Yfirlýsing frá stjórn Blindrafélagsins í tiilefni úrskurðar úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í stjórnsýslukæru um ferðaþjónustu fyrir blindan einstakling hjá Kópavogsbæ.
Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks léttvægur fundinn af úrskurðarnefnd í Velferðarráðuneytinu
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála kvað þann 13. maí s.l. upp úrskurð sinn í máli nr. 1/2011. Í málinu var tekist á um rétt blinds einstaklings til að fá ferilþjónustu frá Kópavogsbæ. Ágreiningur var á milli aðila um það hvort að slík þjónustu þyrfti að taka mið af þörfum hans og miða að því að gera hann eins settan og ófatlaðan einstakling í sömu eða sambærilegri stöðu eða hvort það væri fullnægjandi að veita almenna þjónustu sem ekki næði því markmiði. Einnig var um það deilt hvort að rannsóknarskylda hvíldi á Kópavogsbæ þannig að nauðsynlegt væri fyrir bæjarfélagið að meta þarfir hvers einstaklings og getu þeirra til þátttöku í samfélaginu.
Í málinu reyndi einnig í fyrsta sinn á nýtt ákvæði laga um málefni fatlaðra þess efnis að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Taldi kærandi málsins að það ákvæði leiddi til þess að m.a. ætti að horfa til 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra þar sem fjallað er um ferilmál einstaklinga, en þar kemur fram:
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,
Skemmt er frá því að segja að Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála staðfesti þann úrskurð Kópavogsbæjar að ekki þyrfti að huga að markmiðum laganna þess efnis að gera fötluðu fólki kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir með sambærilegum hætti og ófatlaðir. Þá var ekki fundið að því að Kópavogsbær kynnti sér hvorki þarfir kæranda né getu hans til að lifa eðlilegu lífi. Þá var ekkert tillit tekið til þeirra sjónarmiða sem koma fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Blindrafélagið telur þessa niðurstöðu bersýnilega ranga og óviðunandi með hliðsjón af mannréttindum fatlaðra. Þá telur félagið það ótækt að mál er varða réttindi fatlaðra fái aðra og óvandaðri stjórnsýslumeðferð en lög kveða á um. Félagið vinnur því að því að leggja fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna málsins.
Niðurstaða þess máls er sár vonbrigði fyrir þá sem bundið höfðu vonir við að innleiðing Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks myndi hafa í för með sér breytingar á stjórnsýslumeðferð málefna fatlaðra. Þá er einnig ljóst að loforð um að jafnræði skyldi vera meðal fatlaðra eftir að málefni þeirra voru flutt til sveitarfélaganna reyndust innihaldslaus.
Kópavogur uppfyllir lagaskyldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)