Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins ítrekar athugasemdir til Hæstaréttar

Þann 4 febrúar s.l. sendi aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins Hæstarétti athgasemdir vegna aðgegnishindranna á vefsvæði réttarins. Til þess hefur Hæstirétur ekki hirt um að svara framkomnum athugasemdum. Aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins hefur því brugðið á það ráð að ítreka fyrri athugasemdir í bréfi sem sent var 18 febrúar. Hér á eftir eru bréfin til Hæstaréttar, fyrst bréfið frá 18 febrúar:

"Kæri viðtakandi

Hér kemur ítrekun á pósti sem sendur var þann 4. febrúar sl. varðandi aðgengi blindra notenda að heimasíðu Hæstaréttar.

Okkur finnst sorglegt, furðulegt og, í raun, fremur mikil vanvirðing, að Hæstirétttur hefur ekki haft fyrir því að svara þessu bréfi síðan það var sent fyrir rúmlega tveimur vikum síðan.

Sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins hef ég haft afskipti af tugum fyrirtækja með vefsíður sem voru ekki alltaf aðgengilegar og í 95% tilfella hef ég fengið svör innan nokkurra daga þar sem vettvangur hefur skapast til þess að laga þá hluti sem valda blindum notendum aðgengistruflunum, en því miður hafið þið ekki séð ykkur hæft, eða fært, að svara þessum pósti einu orði.

Aðgengisvandamálin hafa ekki horfið og svarleysi ykkar er byrjað að valda ákveðinni ólgu meðal félagsmanna Blindrafélagsins, skiljanlega.

Því bið ég ykkur vinsamlegast að svara og setja upp samskipti um hvernig leysa megi þetta vandamál þannig að aðgengi félagsmana Blindrafélagsins sé virt, og jafnframt þörf Hæstaréttar ti þess að vernda fólk sem nefnt er í dómum réttarins.

Við erum boðin og búin að aðstoða við að finna ásættanlega lausn, en þegar afskiptaleysi og þögn, er allt sem fellur í okkar hlut verðum við að grípa til róttækari aðgerða.

mbk og bestu þakkir.

Birkir Gunnarsson"

 

 

Bréfið frá 4 febrúar:

 

"Kæri viðtakandi

Ég starfa sem aðgengisfulltrúa Blindrafélagsins, Samtaka Blindra og Sjónskertra á Íslandi (www.blind.is) á sviði upplýsingatækni.

Meðal annars starfa ég við að tryggja aðgengi blindra og sjónskertra að vefsíðum og að rafræna upplýsingasamfélaginu.

Okkur þykir það mjög miður að heimasíða Hæstaréttar hefur verið gerð þannig úr garði að blindir notendur geta alls ekki nýtt sér þær upplýsingar sem þar er að finna.

Ástæða þess er að notendum er ekki leyft að skoða síðuna nema með því að slá inn tölur sem birtast á mynd á síðunni, en myndin er ekki aðgengileg með þeim skjálestrarforritum sem blindir og sjónskertir einstaklingar nota til þess að skoða vefinn.

Skjálestrarforrit sem notuð eru til þess að lesa heimasíður, (þ.e.a.s. breyta rituðum texta á síðu í talmál eða punktaletur) geta ekki túlkað myndir (þar sem myndir eru í raun ekkert nema fylki af lituðum punktum en ekki eiginlegir stafir), og skjástækkunarforrit eiga erfitt með að stækka myndir, nema þær séu gerðar með svokallaðri SVG tækni.

Vegna þeirra skilyrða sem sett eru á síðunni, og okkur skilst séu þar til þess að vernda nöfn þeirra sem koma við skráð dómsmál, geta blindir og sjónskertir notendur skjálesara ekki flett neinu upp á síðunni (þmt dagsskrá réttarins og fleiru).

Það hlýtur að vera réttur allra landsmanna að geta verið meðvitaðir um hvaða lög og reglur gilda í landinu og eiga alir landsmenn því rétt á að geta nálgast svo mikilvæg gögn sem dómar Hæstaréttar eru.

Auk þess vil ég benda á Upplýsingastefnu íslenskra stjórnvalda um netríkið Ísland, sem finna má hér:

www.ut.is/media/Skyrslur/Stefnuskjal_2,5.pdf - en stefnuskráin nær yfir stefnu stjórnvalda í rafrænum upplýsingamálum fram til ársins 2012.

Í fjórða lið um markmið þjónustu í skránni segir:

"Gæði opinberrar þjónustu á netinu verði aukin með því að miða hana við þarfir og ávinning netborgarans. Hugað verði að aðgengi og þörfum allra samfélagshópa ss fatlaðra ....."

og einnig

"Opinberir vefir fullnægi skilyrðum um aðgengi fatlaðra (amk kröfur W3C  um a-vottun).

Reyndar er þessi tilvísun ónákvæm, en eini W3C (Worldwide Web Consortium) staðallinn sem hér á við er WCAG (Web Content Accessibility Guidelines) útgáfa 2, vottun (compliance level) a.http://www.w3.org/TR/WCAG20

í 1.1.1. lið segir:

"Non-text Content: All non-text content that is presented to the user has a text alternative that serves the equivalent purpose, except for the situations listed below. (Level A)

CAPTCHA: If the purpose of non-text content is to confirm that content is being accessed by a person rather than a computer, then text alternatives that identify and describe the purpose of the non-text content are provided, and alternative forms of CAPTCHA using output modes for different types of sensory perception are provided to accommodate different disabilities.

Þetta þýðir að vissulega má setja einhvers konar "CAPTCHA" eða ritvernd á síðuna en þá verður að bjóða upp á ritvernd sem gagnast notendum sem skjá ekki á skjáinn. Sem dæmi má sjá bloggvef mbl.is, eins og Arnþór Helgason hefur þegar bennt á. Einnig eru oft notaðar hljóðupptökur af talmáli sem spilaðar eru og texti sem slá þarf inn er lesinn.

Að lokum mætti ímynda sér þjónustu þar sem tölur eru sendar í gegnum sms skilaboð og notendur geta skráð sig inn, þannig að einungis þurfi að fara í gegnum svoleiðis feril einu sinni.

Ég tel einnig alveg óþarft að öll síða réttarins sé læst með þessum hætti þmt dagsskrá og aðrir tenglar sem hafa ekki beint með dómsmál að gera.

Telja má upp fleiri skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig og varða aðgengi fatlaðra að netinu ss. ráðherrayfirlýsingu EES um rafræna stjórnsýslu, sem nálgast´ má hér:

http://www.ut.is/frettir/nr/4274

en þar segir í 9. lið enskrar útgáfu:

"...We will develop inclusive services that will help to bring down barriers experienced by digitally or socially excluded groups..."

Að þessu gefnu teljum við alveg augljóst að opinberum stofnunum á Íslandi beri skylda til þess að tryggja aðgengi allra landsmanna, þ.á.m. blindra og sjónskertra einstaklinga, að almennum upplýsingum á vef þeirra. Við vonumst til þess að Hæstiréttur sjái sóma sinn í, og leggi metnað í, að aðgengi allra að þeim mikilvægu upplýsingum sem þar er að finna, sé tryggt.

Að sjálfsögðu skiljum við vel að aðgengi blindra notenda er oft ekki eitthvað sem hugsað er út í almennt og erum við að vinna að betri uppfræðslu og menntun vefforritara svo þeir viti af þeim sérþörfum sem sinna þarf fyrir slíka notendur (en þær þarfir eru oft áþekkar þeim sem farsímanotendur með litla skjái hafa einnig).

Hins vegar vitum við að Hæstiréttur vissi af þessum sérþörfum vegna samskipta sem áttu sér stað fyrir nær sléttu ári síðan og enduðu með að tölulæsingu var aflétt af síðunni, amk umtíma.

Það að læsingin hafi verið sett á aftur án samráðs við Blindrafélagið eða án þess að leiða hafi verið leitað til að finna aðgengilegri lausnir þykir okkur hins vegar miður.

Við erum alltaf tilbúin að koma að umræðum um hugsanlegar lausnir og aðstoða við prófanir og rannsaka bestu tækni sem tryggir öryggi vefsíðu en einnig aðgengi félagsmanna okkar, en þetta er okkur það mikilvægt mál að við verðum að ganga hart fram í því að aðgengi félagsmanna okkar sé tryggt.

Ég treysti því að við höfum sömu markmið í þessum málum og að við finnum farsæla lausn sem bæði tryggir það öryggi sem þið teljið ykkur þurfa án þess að það skaði rétt félagsmanna okkar til þess að geta skoðað upplýsingar sem varða daglegt líf, lög og reglur í íslensku samfélagi.

Virðingarfyllst

Birkir R. Gunnarsson"

 


Nýr íslenskur talgervill í þjóðareign. Bætt lífsgæði - íslensk málrækt

Blindrafélagið hefur tekið ákvörðun um að hafa forgöngu um smíði á nýjum íslenskum talgervli (Text To Speach Engine eða TTS) sem stenst samanburð við það besta sem þekkist í erlendum málum.

Hvað er talgervill?

Talgervill er hugbúnaður sem hægt er að keyra á ýmis konar vélbúnaði s.s tölvum, fartölvum, símum, hraðbönkum, mp3 spilurum og fleiru, og breytir texta á tölvutæku formi í upplestur. Gæði talgervla eru metin út frá því hversu góður upplesturinn er og hversu nálægt  náttúrulegum upplestri . Hafa ber í huga að lestur talgervils getur aldrei komið alfarið í stað fyrir mannsrödd, en talgervlar nú á tímum ná að komast ótrúlega nálægt því.

Samstarfsaðilar
Fjölmargir aðilar koma að þessu verkefni með Blindrafélaginu, þeir eru helstir:

  • Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
  • Blindrabókasafnið
  • Blindravinafélag Íslands
  • Íslenskur orðasjóður við Háskólann í Leipzig
  • Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík
  • Lions á Íslandi
  • Máltæknisetur
  • Royal national institude of blind people RNIB), Bretlandi
  • Stofnun Árna Magnússonar
  • Velferðarráðuneytið
  • Öryrkjabandalag Íslands.

Verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir

Fyrir hverja
Þetta verkefni mun hafa mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra mörg þúsund einstaklinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti, hvort sem er vegna blindu, sjónskerðingar, lesblindu eða annarra fatlanna.  Verkefnið er jafnfram mjög mikilvægt sem málræktarverkefni. Það eru nefnilega talgervlar sem ráða því hvernig íslenska er lesin í tölvuheimum. Með tilkomu góðs íslenskt talgervils er betur hægt að nýta íslenskun á ýmsum hugbúnaði sem notendur hafa orðið að keyra á ensku hingað til.  Mikilvægi góðs íslensks talgervils er meðal þess sem fjallað er um í Íslenskri málstefnu, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu árið 2009 (bls 62)

Meginskilgreiningar
Verkefna-og stýrihópur hefur verið starfandi fyrir verkefnið frá því í sumar. Hans helsta hlutverk hefur verið að finna framleiðanda sem getur mætti þeim megin þörfum og væntingum sem skilgreind hafa verið fyrir verkefnið, en þær  eru:

  • Gæði - Að hlustunargæði verði eins og best þekkist í erlendum hágæða talgervlum og upplesturinn verði eins réttur og nokkur kostur.
  • Notkunarsvið - Að talgervilinn geti unnið á þeim stýrikerfum sem við skilgreinum mikilvægust.
  • Leyfisgjaldafyrirkomulag og eignarréttur - Að talgervilinn verði þjóðareign og í vörslu Blindrafélagsins og þeir einstaklingar sem þurfa að nota talgervil og þær stofnanir sem sinna þjónustu við blinda, sjónskerta og aðra lesfatlaða fái talgervilinn endurgjaldslaust.
  • Áframhaldandi þróun - Að hægt verði að þróa talgervilinn áfram í samstarfi við aðila á Íslandi, svo sem eins og Háskólann í Reykjavík.
  • Sveigjanleiki - Að hægt verði, í samstarfi við framleiðanda, að flytja talgervilinn yfir á ný tæki og stýrikerfi þegar þau ná útbreiðslu og almennum vinsældum, eða uppfylla áður óuppfyllta þörf fatlaðra hvað varðar aðgengi að upplýsinga og samskiptatækni.

Sérfræðingar verkefnisins
Helstu fræðilegu ráðgjafarnir í þessu verkefni eru Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og Jón Guðnason, doktor í rafmagnsverkfræði og sérfræðingur í talmerkjafræði við Háskólann í Reykjavík. Aðrir sérfræðingar eru: Hlynur Hreinsson og Birkir Rúnar  Gunnarsson, báðir eru sérfræðingar í tölvuhjálpartækjum hjá Þjónustu-og þekkingarmiðstöð fyrir blinda sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Birkir er auk þess tölvuforritari og notandi tölvuhjálpartækja fyrir blinda og sjónskerta.

Framleiðandi
Að undangengnu gæðamati og verðkönnun meðal allra helstu talgervilsframleiðenda í heiminum Út frá þeim meginskilgreiningum sem settar voru fram fyrir nýjan íslenskan talgervil hefur pólska fyrirtækið Ivo software verið valið til að smíða talgervilinn. Bresku blindrasamtökin (RNIB) hafa átt mjög gott samstarf við þetta fyrritæki. Fyrirtækið hefur einnig verið að fá verðlaun fyrir talgervlana sína á sýningum á undanförnum árum.  Frekari upplýsingar um Ivo softeware fyrirtækið, aðferðarfræði þeirra við talgervlasmíðina, verðlaun og viðurkenningar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.  Þar má einnig heyra hlustunardæmi frá þeim talgervlum sem Ivo software hefur framleitt.
http://www.ivona.com/

Kostnaður og tímaáætlanir
Samningar um smíðina verða undirritaðir í febrúar 2011. Stefnt er að því að kynna prufu (beta) útgáfu talgervilsins á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2011 og talgervilinn verði síðan tilbúinn til notkunar í mars eða apríl 2012.
Umsamin framleiðslukostnaður er 495 þúsund evrur. Heildarkostnaður í íslenskum krónum er áætlaður um 80 - 85 milljónir króna. Áætlanir liggja fyrir um fjármögnun framleiðslukostnaðar og er stór hluti fjármögnunar tryggður. Meðal annas var skrifað undir samning um 15 milljón króna styrk  Velferðarráðuneytisins, fyrir hönd Framkvæmdasjóðs fatlaðra í verkefninu mánudaginn 7 febrúar.Þessi styrkur er veittur með því skilyrði að talgervilinn verði til afnota án endurgjalds fyrir Þjónustumiðstöð fyrir blinda , sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Blindrabókasafnið og alla þá sem eru skráðir notendur þessara stofnanna og þurfa á talgervli að halda

Lions á Íslandi styrkir talgervlaverkefnið með sölu Rauðu fjaðrarinnar 8 - 10 apríl 2011
Mikilvægur hluti af fjármögnun talgervlaverkefnisins verður sala félagsmanna Lions á Rauðu fjöðrinni helgina 8 - 10 apríl næst komandi, enn allur afrakstur sölunnar rennur til styrktar talgervlaverkefninu.  Verndari söfnunarinnar verður Vigdís Finnbogadóttir. Lionshreyfingin og félagsmenn eiga  miklar þakkir skyldar fyrir þetta rausnarlega framlag til að bæta lífsgæði þeirra mörg þúsund íslendinga sem ekki geta lesið með hefðbundnum hætti sökum fötlunar. Vonandi mun íslenska þjóðinn taka vel á móti Lionsmönnum og kaupa Rauðar fjaðrir í stórum stíl helgina 8 - 10 apríl 2011.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband