Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Að aflokn alheimsþingi World Blind Union

 Á  7.  Þingi World Blind Union, sem fram fór í Genf daganna 18 - 23 ágúst,  kom meðal annars fram að markmiðið með  alheimsþinginu er að ná samkomulagi um  ályktanir sem er hægt að hrinda í framkvæmd og að þær hafi það í för með sér að breytingar verði á því hvað það merkir að vera blindur eða sjónskertur og að blindir og sjónskertir geti  tekið sinn réttláta sess í samfélaginu.

Yfir 600 aðalfulltrúar voru á þinginu og voru 40% atkvæða í höndum kvenna, en WBU hefur lagt mikla áherslu á að jafna þátttöku kynjanna í starfi aðildarfélaga sinna og samtakanna. Til dæmis þá var haldin sérstök kvennaráðstefna á undan þinginu. Sjá hér frásögn Lilju Sveinsdóttur sem var annar af tveimur fulltrúum Íslands á ráðstefnunni.

Í skýrslu William Rowland fráfarandi forseta WBU frá S-Afríku, og umræðum um skýrsluna báru þessi mál hæst:

  • Mikilvægi Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðar og að aðildarsamtökin noti sáttmálann til að berjast fyrir og tryggja réttinda blindra og sjónskertra. Mikilvægt væri að aðildarfélög í löndum sem ekki hefðu skrifað undir eða staðfest sáttmálann ynnu að því að fá það gert.
  • Komandi 200 ára afmæli Louis Braille á árinu 2009 og mikilvægi blindraleturs var mikið rætt. Fulltrúar þróunarlandanna voru virkir í þeirri umræðu og bentu m.a. á að vegna lítils öryggis með rafmagn þá kæmi ný tækni ekki af sömu notum og í þróaðri löndum. Að mati þeirra sem tóku til máls þá er mikilvægi blindraleturs síst að minnka þrátt fyrir að ný tækni sé mörgum blindraleturs notendum hjálpleg. Fulltrúar frá þróunarlöndunum lögðu áherslu á alþjóðlegt átak í tengslum við 200 ára afmæli Louis Braille.
  • Vinnuhópur um málefni sjónskertra hefur verið starfandi innan WBU. M.a. benti forsetinn á það í máli sínu að huga þyrfti að stöðu sjónskertra innan WBU, en sjónskertir eru þrisvar sinnum fleiri en blindir. Málefni blindra hafi hins vegar oft borið mun hærra en málefni sjónskertra.
  • WBU er aðili að verkefnum sem hafa það að markmiði að gefa öllum blindum og sjónskertum börnum í heiminum aðgang að menntun. Í dag eru 90% allra blindra og sjónskertra barna án aðgangs að menntun. Blindir og sjónskertir hafa ekki aðgang að 95% alls útgefins prentefnis, vegna þess á hvað formi útgáfan er. WBU vinnur að því að breyta þessu í verkefni sem kallast „book famine".

Nokkur órói og umræða var um nýtt félagsgjaldakerfi fyrir WBU. Tillagan sem lá fyrir þinginu gat haft það í för með sér að lítil og févana samtök og samtök frá smáríkjum áttu það á hættu að fara illa út úr nýju fyrirkomulagi. Ísland hafði frumkvæði að því að vekja athygli á málinu auk þess sem heildarsamtökin í S-Ameríku lýstu mikill óánægju. Í samvinnu við samtök frá Hollandi, Þýskalandi og Möltu flutti Ísland tillögu sem átti að taka tillit til þeirra óánægjusjónarmiða sem fram höfðu komið. Tillagan var samþykkt, þó óvissa sé um hvort hún var samþykkt í heild sinni eða að hluta vegna mikils ruglings við atkvæðagreiðslu.

Á þinginu voru flutt nokkur áhugaverð ávörp sem tengdust þema þingsins. Meðal þeirra sem töluðu voru: Ms Kyung-what KANG Deputy High Commissioner for Human Rights OHCHR og  Marc Maurer Bandarískur mannréttindalögfræðingu og aðgerðarsinni sem hefur verið blindur frá fæðingu, Don Makay sendiherra og Larry Campbell, President International Council for Education of People with Visual Impairment (ICEVI),

Á þinginu var kosin ný stjórn samtakanna. Nýr forseti WBU er Maryanne Diamond frá Ástralíu, Arnt Holt frá Noregi var kosinn 1 varaforseti.

Þó nokkrar ályktanir voru samþykktar á þinginu og munu þær verða þýddar yfir á íslensku og birtar um leið og þær verða tilbúnar.

Seinustu daga þingsins var síðan kynning og sýninga á ýmsum hjálpartækjum fyrir blinda og sjónskerta. Ég er að vonast til þess að Blindrafélagið geti stuðlaða að því að hluta af því sem þar var sýnt megi taka í notkun hér á landi og eru nokkur atriði þegar í skoðun.

Þingið var vel skipulagt, eins og við er að búast þegar Svisslendingar sjá eiga í hlut. Ráðstefnuhöllin sem þingið fór fram í var hinsvegar bagaleg út frá sjónarhóli sjónskertra vegna birtuskilyrða, sem voru mjög breytileg. Lítill tími var gefinn til umræðna vegna þess hversu þétt dagskráin var. Í umræðum voru sjónarmið þróunarlandanna mjög áberandi og fulltrúar þeirra mjög virkir í umræðum.
Alheimsþing World Blind Union fara fram á 4 ára fresti.


Alheimsþing World Blind Union

 Daganna 15 - 23 ágúst fer fram kvennaráðstefna World Blind Union og Alheimsþing samtakanna í Genf í Sviss. Blindrafélagið mun eiga fulltrúa á bæði kvennaráðstefnunni og Alheimsþinginu.

Yfirskrift þingsins er: Changing What It Means to Be Blind - Taking Our Place in the World

Blindrafélagið sendir 6 fulltrúa á þingið, þar af er einn aðstoðarmaður. Fulltrúar Blindrafélagsins eru auk mín, Halldór Sævar Guðbergsson, Bergvin Oddsson, Lilja Sveinsdóttir, Inga Sæland og Ólafur Haraldsson, sem er aðstoðarmaður.

Heimasíða þingsins er: http://www.wbu2008.ch/e.

Útvarpað mun verða frá ráðstefnunni: http://www.acbradio.org

 


Í minningu Helgu Einarsdóttur

Fimmtudaginn 14 ágúst er borin til grafar góð vinkona mín og baráttufélagi, Helga Einarsdóttir.  

Það var að morgni fimmtudagsins 31 júlí sem mér bárust þær sorglegu fréttir að Helga Einarsdóttir hefði orðið bráðkvödd, nokkrum dögum fyrir 43 ára afmælisdag sinn.

Helga Einarsdóttir

Helga "okkar" Einars, eins og hún var gjarnan nefnd af mörgum félagsmönnum og starfsmönnum Blindrafélagsins, var einn ötulasti talsmaður fyrir réttindum, sjálfstæði og virðingu blindra og sjónskertra einstaklinga. Að hún skuli hafa fengið viðurnefnið „okkar" við nafnið sitt sýnir betur en margt annað í hversu miklum metum hún var hjá hinum fjölmörgu félagsmönnum sem kynntust henni.

Það má segja að Helga hafi drukkið í sig baráttuandann með móðurmjólkinni, þar sem móðir hennar, Rósa Guðmundsdóttir, var blind og ötul í réttindabaráttu blinds og sjónskerts fólks, var m.a. formaður Blindrafélagsins um nokkurra ára skeið og þær mæðgur bjuggu m.a. í blindrafélagshúsinu. Skilningur Helgu á aðstæðum blindra og sjónskertra var þannig vaxinn upp úr grasrótinni og þegar hún svo bætti við sig fagmenntun á þessu sviði var innsæi hennar og skilningur orðin einstakur. 

Helga var sérlega hressandi manneskja. Hún var glaðvær, hláturmild, litaglöð, skarpgreind og hafði til að bera óbilandi bjartsýni og baráttuanda

Öll höfum við okkar eigin ástæður til að syrgja fráfall Helgu, hún gegndi mismunandi hlutverkum í lífi okkar sem einstaklinga. Til viðbótar við að vera eiginkona og móðir þá var hún mikil útivistarkona, hún var kennari og fræðimaður,  hún var einnig uppspretta eldmóðs í baráttu fyrir málstaðnum ásamt því að vera hugmyndafræðilegur brunnur í málefnum blindra og sjónskertra. Þá var hún jafnframt mörgum hvatning til að gera meira og betur, að brjótast út úr þægindaumhverfinu og láta reyna á sig, ekki vera fórnarlamb aðstæðnanna heldur taka stjórn á aðstæðum og gera það besta sem hægt er að gera. Síðast en ekki síst var hún góður vinur og félagi.  

Hópurinn sem stendur í þakkarskuld við Helgu og þau verk sem hún vann, á alltof stuttri ævi, er stór og þar af eru margir félagsmenn Blindrafélagsins, og ég þar með talinn. Helga var ófeimin við að hafa samband við einstaklinga sem voru að ganga í gegnum það að missa sjón til að hvetja þá til dáða og ekki loka sig af.

Með elju sinni og krafti, stuðlaði Helga að því að margir blindir og sjónskertir  einstaklingar lifa í dag sjálfstæðara og innihaldsríkari lífi en þeir hefðu gert, ef ekki hefði komið til afskipta hennar.

Mér er vel minnistætt þegar ég hitti Helgu fyrst og hvað þessi kona var öðruvísi en ég átti von á, þegar ég fékk í heimsókn ráðgjafa frá Sjónstöð Íslands á þáverandi vinnustað minn. Hún var svo glaðvær og hvetjandi og í svo litríkri peysu. Hún talaði um lausnir. Ég kunni strax vel við þessa konu og leið vel í návist hennar.

Helga er sjálfsagt sú manneskja sem ber mesta ábyrgð á því að ég gaf kost á mér í stjórn Blindrafélagsins. Hún hringdi í mig þegar ég var staddur á Ítalíu. Hún varð reyndar hissa á því að ég hafði ekki boðið henni með, þegar ég sagði henni hvar ég væri, en það var oft viðkvæðið okkar á milli, hún ætlaði alltaf að koma með í næstu ferð. Í þessu símtali sagðist hún vera með frábæra hugmynd, ég þyrfti bara að segja já. Hún vildi að ég gæfi kost á mér í stjórn Blindrafélagsins. Reyndar væru einungis 15 mínútur þar til framboðsfrestur rynni út. Og ég sagði já.

Reyndar náðum við Helga að fara í ferðir saman. Í maí s.l. lögðum við af stað á Hvannadalshnjúk ásamt fleira fólki, þar af nokkrum sjónskertum einstaklingum, en Helga hafði borið höfuðþungann að skipulagi ferðarinnar og hvatt mjög til hennar. Því miður urðum við frá að hverfa í um 1600 metra hæð vegna veðurs. Af sinni alkunnu jákvæðni þá fannst Helgu það fela í sér ný tækifæri, við hefðum þá góða ástæðu til að koma aftur. Var þá ákveðið að reyna aftur að ári.

Aðra ferð fórum við í saman, um Snæfellsnes og Breiðafjörð í júlí s.l. með hópi af góðu fólki. Helga, Jakob, eiginmaður Helgu, og Kalli 9 ára sonur þeirra voru þá að koma úr gönguferð í kringum Langasjó með allt á bakinu. Þar styrktust vinaböndin enn frekar og á ég frábærar minningar úr þeirri ferð. Eftirminnilegt er þegar Kalli gerði við það athugasemdir hverskonar gönguferð þetta væri eiginlega, alltaf verið að stoppa. Honum fannst greinilega ekki mikið til um, eftir gönguna í kringum Langasjó. Önnur skemmtileg minning er, þegar Helga og önnur kona sem var í gönguhópnum, tóku að sér að tína blóðberg til að krydda grillsteikina með. Gengust þær stöllur upp í því að þar með væru þær kryddpíur.

Helga gegndi lykilhlutverki í mótun starfsemi hinnar nýju þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, sem áformað er að hefji starfsemi á næsta ári.

Þegar kom að faginu og því málefni sem Helga hafði helgað líf sitt, þá bjó hún yfir einstæðum eiginleikum. Hún var allt í senn eldhugi, fræðimaður, kennari, frumkvöðull og hugmyndafræðingur, auk þess sem málstaðurinn stóð hjarta hennar svo nærri sem nokkur kostur var. Þegar litið er til reynslu, menntunnar,  þekkingar og  hugmyndafræðilegrar nálgunar á málefnum blindra og sjónskertra hér á landi, þá stóð Helga þar fremst. Mikið liggur eftir Helgu og hún taldi sig einnig eiga mikið ógert.

Minningin um Helgu, glaðværa baráttukonu, verður best heiðruð með því að láta ekki hugfallast, það væri ekki í anda Helgu „okkar" Einars.

Þeir sem koma að málefnum blindra og sjónskertra og vilja stand vörð um hagsmuni þeirra, verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja áframhaldandi faglegan metnað og að þeir hugmyndafræðilegu vegvísar sem Helga lagði okkur til, verði okkur áfram til leiðsagnar í þeim verkefnum sem Helga vann að. Þar mun Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi leggja sitt af mörkum.

Það má ljóst vera að við fráfall Helgu Einars er stórt skarð höggvið í samfélag okkar. Vissulega er missirinn mestur fyrir nánustu fjölskyldu, en hinn stóri vinahópur og samstarfsmenn Helgu er stórum fátækari eftir en áður. Um leið þá má líka segja að við sem höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að verða samferða Helgu „okkar" Einars erum ríkari á eftir. Það ferðalag hefur verið mannbætandi.

Fyrir hönd Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, færi ég fjölskyldu Helgu, vinum hennar og samstarfsfólki innilegustu samúðarkveðjur.    


Blindrabókasafn Íslands

Blindrabókasafn Íslands tók nýlega í gagnið nýja heimasíðu. Á nýju heimasíðunni er m.a. ný hljóðbókaleit, ýmsar fréttir, upplýsingar um  þjónustu, nýjustu bækur, upplýsingar um lesara, spurt og svarað og skáld mánaðarins svo eitthvað sé nefnd.
Sjá http://www.bbi.is/

 

 

Break the chain - Myndband með lagi Elkie Brooks - Barátta fyrir að finna lækningu við ættgengum augnsjúkdómum sem valda alvarlegri sjónskerðingu eða blindu.

Bresku RP Fighting blindness samtökin voru að gefa út myndband með lagi Elkie Brooks, Break the chain (með hennar samþykki). Myndbandinu er ætlað að kynna baráttu samtakann fyrir að finna lækningu við ættgengum hrörnunarsjúkdómum í augum sem valda alvarlegri sjónskerðingu eða blindu og eru í dag ólæknandi.

Bresku samtökin hvetja til hlustað sé á háum styrk og að myndbandinu verði dreift sem víðast.

Myndbandið má sjá neðantöldum hlekkjum:

- on YouTube at http://www.youtube.com/watch?v=IriRhIe0hOA
- on my blog at http://brpsnews.wordpress.com/
- on our homepage (small version) at http://www.brps.org.uk/
- on FaceBook if you are a member at
 
http://www.facebook.com/groups.php?ref=sb#/group.php?gid=16533098961


Helga "okkar" Einars er látin

Í gærmorgunn, fimmtudaginn 31 júlí,  bárust þær fréttir að Helga Einarsdóttir, kennsluráðgjafi á Sjónstöð Íslands, hefði orðið bráðkvödd, 42 ára að aldri.

Helga "okkar" Einars, eins og hún var gjarnan nefnd af mörgum félagsmönnum og starfsmönnum Blindrafélagsins, var einn ötulasti talsmaður fyrir réttindum, sjálfstæði og virðingu blindra og sjónskertra einstaklinga. Hún gegndi jafnframt lykilhlutverki í mótun starfsemi hinnar nýju þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, sem áformað er að hefji starfsemi á næsta ári.

Helga drakk í sig baráttuandann með móðurmjólkinni þar sem móðir hennar, Rósa Guðmundsdóttir, var blind og ötul í réttindabaráttu blinds og sjónskerts fólks,var m.a. formaður Blindrafélagsins um nokkurra ára skeið.

Við fráfall Helgu "okkar" Einars er stórt skarð höggvið í samfélag okkar. Vissulega er missirinn mestur fyrir nánustu fjölskyldu, en hinn stóri vinahópur Helgu er stórum fátækari eftir en áður.

Fyrir hönd Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, færi ég fjölskyldu Helgu,  vinum og samstarfsfólki innilegustu samúðarkveðjur.

Óskandi er, að fjölskyldu Helgu og hinum fjölmörgu vinum hennar, lánist að finna leið til að sækja þann styrk sem þarf til að komast í gegnum áfall sem þetta.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband