Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ályktun útifundar BSRB, Félags eldri borgara í Reykjavík, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands

Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember 2008 skorar á stjórnvöld að beita öllum tiltækum ráðum til að verja velferðarkerfið sem byggt hefur verið upp af almenningi á undanförnum áratugum. Þegar kreppir að í samfélaginu er mikilvægt að beita velferðarkerfinu til jöfnunar. Áralangri baráttu fyrir réttlátu þjóðfélagi má ekki kasta á glæ.

Fundurinn telur að afleiðingar 10% niðurskurðar á velferðarútgjöld ríkisins verði skelfilegar og þjónusta margra stofnana muni lamast og atvinnuleysi aukast. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur þeim stjórnvöldum sem standa að slíkum aðgerðum.

Fundurinn krefst þess að staðið verði við lögbundin ákvæði um hækkun grunnbóta almannatryggingakerfisins nú um áramót. Þeir hópar sem þurfa að framfleyta sér af greiðslum frá almannatryggingum þola enga skerðingu þar sem greiðslurnar nægja ekki fyrir nauðþurftum.

Þeir hópar sem að þessum fundi standa bera enga ábyrgð á hruni bankakerfisins. Í okkar hópi er ekki að finna fólkið sem skammtaði sér sjálfu ríkulega og tók sér vald til að ráðskast með velferð þjóðarinnar. Við lýsum fullri ábyrgð á hendur þeim öflum sem þannig véluðu og ætlumst til að þeir axli ábyrgð á gerðum sínum enda réttlættu þeir ofurlaun sín með þeirri ábyrgð sem þeir bæru. Nú er komið að skuldadögum.

Íslenskt samfélag stendur á krossgötum. Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember skorar á alla landsmenn að standa saman í því að sjá til þess að hið nýja Ísland byggi á samkennd og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert á öðru. Það að vega að núverandi velferðarkerfi er ekki fyrsta skrefið á þeirri vegferð. Verjum því velferðina sem fyrsta áfanga að bættri framtíð.


Verjum velferðina!

Í dag, mánudaginn 24 nóvember kl 16:30 hafa BSRB, Félag eldri borgara, Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands, með 30 aðildarfélög innan sinna vébanda, boðað til útifundar á Ingólfstorgi undir yfirskriftinni Verjum velferðina.  

Fjölmennum á fundinn og sýnum að við látum ekki brjóta velferðarþjónustuna niður. Við höfnum því að ráðist verði að undirstöðum samfélagsins með stórfelldum niðurskurði á velferðarkerfinu.

Þegar þrengir að er mikilvægt að ekki sé vegið að almenningi.

Við höfnum sérhverri aðför og krefjumst þess að stofnanir samfélagsins verði styrktar á erfiðum tímum.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Tónlistaratriði: Tómas R. Einarsson og Ragnheiður Gröndal

Ávörp flytja: 

Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar

Árni Stefán Jónsson varaformaður BSRB

Halldór Sævar Guðbergsson formaður Öryrkjabandalags

Margrét Margeirsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík

Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir

Blind og sjónskert börn á norðurlöndunum

Dagana 19 og 20 nóvember eru norrænu blindrasamtökin með árlegan sameiginlegan fund. Fundurinn er að þessu sinni haldinn á Hótel Örk. Aðalþema fundarins er aðstæður blindra og sjónskertra barna á norðurlöndunum. Skiljanlega þá er mikil áhersla lögð á aðstæður barnanna í skólakerfinu. Munurinn á aðstæðum á Íslandi og hinum norðurlöndunum að þessu leiti er töluverður. Fyrir það fyrst þá hafa málefnum blindra og sjónskertra barna í skólakerfinu verið stórlega vanrækt á undanförnum árum á Íslandi, eins og staðfest hefur verið með skýrslum sérfræðinga. Af þessum sökum hefur mikil sérþekking á þessum málum glatast. Á yfirstandandi þingi er  áformað að Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, sem ætlað er að taki til starfa 1. Janúar n.k. Mjög mikilvægt er að af því verði.

Sameiginlegt vandamál sem blindir og sjónskertir nemendur standa frammi fyrir á öllum norðurlöndunum má rekja til samskipta við minni og fjárvana sveitarfélög sem eru í erfiðleikum með að veita, eða greiða fyrir, þá sértæku þjónustu sem mörg blind og sjónskert börn þurfa til að geta notið jafnréttis til náms. Dreifð ábyrgð í stjórnkerfinu á málefnum sem snúa að hagsmunum blindra og sjónskertra barna er víða vandamál og virka sem hindranir á að þessi börn fái viðeigandi þjónustu.

Bent var á að aukin hætta væri á því að nemendur, sem eru blindir eða sjónskertir, hætti í námi þegar kemur að framhaldsskólanámi, ef viðeigandi þjónusta stendur þeim ekki til boða á grunnskólastigi. Það er því sérstaklega mikilvægt að blindum og sjónskertum börnum sé gert kleift að standast námskröfur grunnskólanna þannig að þau eigi einhverja möguleika á því að fara í framhalds- og háskólanám, kjósi þau að gera það.  Mikilvægt er þó að stuðla ekki að því að börnin verði ofvernduð því það mun leiða til minna sjálfstraust og að endingu leiða til einangrunar. Fræðsla til foreldra blindra og sjónskertra barna er mjög mikilvæg en virðist víðast vera vanrækt.

Samþykkt var á fundinum að setja í farveg sameiginlega vinnu sem m.a. myndi huga að:

  • Hinu mikilvæga hlutverki sem foreldrasamtökin gegna í því að halda á lofti kröfum um að börnin njóti viðeigandi þjónustu og sé gert að verða samferða jafnöldrum sínum í skóla.
  • Mikilvægi þess að uppfræða almenna kennara um þau sértæku þjónustuúræði sem standa blindum og sjónskertum börnum til boða, þannig að kennarar verði bandamenn blindra og sjónskertra nemenda sinna í því að tryggja að þau njóti þeirra sértæku þjónustuúrræða sem gagnast þeim í námi.
  • Koma upp norrænu tengslaneti meðal almennra kennara og fagfólks sem sérhæft er í kennsluráðgjöf og þjónustu viðblinda og sjónskerta nemendur.

Þolir ekki bið - Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blint, sjónskert og daufblint fólk

Á yfirstandandi þingi er áformað að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blint, sjónskert og daufblint fólk og er henni ætlað að taka til starfa þann 1. janúar nk. Frumvarpið er unnið í framhaldi af afar dökkum skýrslum sem höfðu verið gerðar um ástandið í menntunarmálum blindra og sjónskertra nemenda hér á landi.

Hinni nýju þjónustu- og þekkingarmiðstöð er ætlað að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar.  Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá er henni ætlað að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu og sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Hlutverk miðstöðvarinnar er fyrst og fremst að auka möguleika þeirra einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og  þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra þegna þess.

Samstarfið um gerð frumvarpsins hefur um margt verið til mikillar fyrirmyndar. Að því hafa allir hagsmunaaðilar komið alveg frá upphafi. Það liggur því fyrir að þegar frumvarpið verður lagt fram er þegar búið að ná fram breiðri samstöðu um öll meginatriði þess.

Í þeim hremmingum sem íslenskt samfélag gengur nú í gegnum, er ekki óeðlilegt að óttast að málefni eins og þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blint, sjónskert og daufblint fólk, sé ekki ofarlega á forgangslista ráðamanna. Einnig er ekki óeðlilegt að óttast að í einhverjum tilvikum telji aðilar; ríkið, sveitarfélög eða skólar, forsvaranlegt að spara megi með því að veita ekki þeim einstaklingum sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir, þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá, mannréttindasáttmálum og núgildandi lögum.   

Á  Íslandi eru í dag  133 börn sem eru skilgreind blind eða sjónskert, með 30% sjón eða minna, og þurfa því á sértækri þjónustu og kennslu að halda. Þar af eru 26 börn á leikskólaaldri, 86 eru á grunnskólaaldri og 21 á framhaldsskólaaldri. Færa má fyrir því rök að mun fleiri börn myndu njóta góðs af starfsemi nýrrar þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar ef sjónskerðingarmörkin yrðu sett við 50% sjón eða minna.  

Í lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla má sjá að þessi þrjú skólastig hafa m.a. þau  sameiginlegu markmið að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Börn sem eru alvarlega sjónskert, blind eða daufblind eiga erfitt með að fylgja jafnöldrum sínum að í skólastarfi nema til komi sérhæfð þjónusta þar sem gefin eru ráð um hvernig best sé að koma til móts við þarfir þeirra í námi og námsumhverfi. Sumir nemendur þurfa beinlínis á sérhæfðri kennslu að halda í einstökum námsgreinum.

Slík þjónusta verður best veitt af sérhæfðu fólki sem áformað er að starfi á hinni nýju þjónustu- og þekkingarmiðstöð, þar verður þekkingin og færnin til staðar.

Þjónustuþörf hvers og eins getur verið mjög mismunandi og því er nauðsynlegt að fram fari einstaklingsmiðað mat í hvert sinn sem nýr notandi leitar eftir þjónustu og nauðsynlegt er að endurmeta þjónustuþörfina með tilliti til breytinga á aðstæðum og framförum notandans. Mikilvægt er að hafa í huga hversu dýrmætur tíminn er þegar börn eiga í hlut. Vikur í námi verða fljótt að mánuðum, mánuðir að önnum og annir að skólaárum. Þeir sem fara með stjórn þessara mála geta því ekki vikist undan þeirri ábyrgð að sá tími sem líður, þar sem þessi börn fá ekki tilskildan stuðning og þjónustu í skólakerfinu, eru glötuð verðmæti.

 Þrátt fyrir að ráðamenn séu nú uppteknir af efnahagslegum  verkefnum sem eru af áður óþekktum stærðargráðum, þá má það ekki fyrir nokkurn mun gerast að framlagning frumvarps um nýja þjónustu- og þekkingarmiðstöð verði frestað.  Það er óhugsandi og mun leiða af sér mikið tjón. Í dag er unnið í bráðabirgðaástandi sem ekki verður framlengt. Miklir fjármunir hafa verið lagðir fram,  bæði af Blindrafélaginu og Blindravinafélagi Íslands til að mennta fagfólk til starfa í þessari nýju stofnun. Starfsmenn sem unnið hafa að þessum málum hafa unnið mjög gott starf við óhemju erfiðar aðstæður. Öllu þessu verður teflt í tvísýnu verði frrumvarpið ekki afgreitt á yfirstandandi þingi.

Í ljósi þeirrar góðu samvinnu sem verið hefur við vinnslu þessa máls, þá treysti ég því að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sem hefur forræði þessa máls, sjái til þess að þetta frumvarp verði lagt fram í tíma og hvet um leið  Alþingi til að afgreiða það sem lög fyrir áramót.


Í fréttum er þetta helst - Hvað kemst í fréttir?

Undanfarna daga hefur hart verið deilt á fréttamat og frásagnir fjölmiðla af útifundinum á laugardaginn. Margir eru þeirra skoðunar að fréttaflutningurinn hafi ekki verið sanngjarn og of mikið verið gert úr uppákomum eftir fundinn, á kostnað þeirra málefna sem fundurinn snérist um og hversu margir voru mættir á fundinn. Hvað er eiginlega nýtt?, getur maður spurt

Samtökin almannheill voru með fund í síðustu viku, þar sem fjallað var um hlutverk almannaheillasamtaka á erfiðleikatímum. Fundurinn var vel sóttur og fróðleg erindi voru haldinn, auk þess sem tveir ráðherrar, félagsmála- og heilbrigðisráðherra, mættu á fundinn og hvöttu samtökin til dáða um leið og þeir viðurkenndu mikilvægi þeirra. Sjá hér ályktun frá fundinum. Allt fékk þetta sáralitla athygli fjölmiðla.

Meðal þeirra sem starfa innan almannaheillasamtaka, er það vaxandi áhyggjuefni, að samtökin eru að lenda í auknum erfiðleikum við að koma á framfæri við fjölmiðla, fréttum af starfi, málflutningi og hagsmunum samtakanna. Efnið þykir ekki áhugavert nema um sé að ræða  hneyksli, átök, eymd, persónulega harmleiki eða aðra neikvæða atburði, nema ef vera skyldi stuðningur fyrrum auðmanna.

Blöð sem áður voru jákvæð gagnvart því að birta innsendar greinar og greina frá starfi þessara samtaka, eru nú orðin tregari til og margt af því sem gert er fær aldrei pláss í fjölmiðlum. Þessi þögn leiðir síðan til þess að samtökunum gengur verr og verr að endurnýja og fjármagna starfsemi sína.

Að komast inn í ljósvakamiðlana getur oft verið mjög torsótt. Þó ber að halda til haga að á Rás 1 er ætlað meira pláss undir umfjöllun sem gagnast almannheillasamtökum, en á öðrum ljósvakafjölmiðlum.

Nú fara í hönd tímar þar sem mikilvægt er að niðurskurðarhnífnum verði ekki beitt gegn almannaheillasamtökum, sem mörg hver eru með öflugt sjálfboðaliðastarfi, vinna samfélaginu mikið gagn og stand fyrir mikilvægum verkefnum. Mikilvægt er að fjölmiðlar taki ekki þátt í að umvefja starfsemi þessara samtaka þögn, heldur skýri frá því uppbyggilega starfi sem þessi samtök inna af hendi. Það mun verða jákvætt innlegg í uppbyggingu hins Nýja Íslands.


Mikilvægi almannasamtaka á erfiðleikatímum - Ályktun samþykkt á fundi Samtakanna almannaheill

Samtökin almannaheill, sem eru regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka sem starfa að almannaheillum, minna á mikilvægi starfsemi sinnar í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu, og skora á Alþingi að skera ekki niður fjárframlög til slíkra samtaka við endurgerð fjárlaga.   Vegna mikillar sjálfboðavinnu innan almannaheillasamtaka margfaldast hver króna sem til þeirra er veitt og samtökin þurfa á fjármunum að halda til þess að geta sinnt starfi sínu af krafti.  Jafnframt skorar Almannaheill á fyrirtæki og einstaklinga að koma til liðs við almannaheillasamtök og leggja þar með sitt af mörkum til uppbyggingar íslensks samfélags.

Tveir ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, ávörpuðu fundinn, sem haldinn var fimmtudaginn 6 nóvember, og hvöttu almannaheillasamtök til að taka af krafti þátt í að leysa þau viðfangsefni sem fjármálakreppan hefur leitt af sér.

Aðildarfélög Samtakanna almannaheilla

Aðstandendafélag aldraðra

Bandalag íslenskra skáta

Blindrafélagið

Geðhjálp

Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs

Heimili og skóli

Hjálparstarf kirkjunnar

Krabbameinsfélag Íslands

Kvenréttindafélag Íslands

Landvernd

Neytendasamtökin

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra

Ungmennafélag Íslands

Öryrkjabandalag Íslands

Landsamtökin Þroskahjálp

Greinargerð: Verum virk-veitum liðsinni

Á næstu vikum og mánuðum mun mikið reyna á íslensk almannaheillasamtök. Þau þurfa að leggja sig fram sem aldrei fyrr, virkja það afl sem í þeim býr og fá nýja sjálfboðaliða og félagsmenn til starfa. Þessi samtök almennings þurfa með öllum tiltækum ráðum að vinna að lausnum á viðfangsefnum sem knýja dyra til að draga úr afleiðingum þeirra áfalla sem fólk af öllum stéttum hefur orðið fyrir í fjármálakreppunni sem gengur yfir heiminn.

Á það skal minnt að fjöldi manns treystir á starfsemi frjálsra félagasamtaka hvað varðar fjárhagslega afkomu, atvinnu, þjónustu og annars konar stuðning. Skjólstæðingar þessara íslensku samtaka í öðrum löndum eiga einnig mikið undir að reglulegur stuðningur  berist til þeirra.

Mörg almannaheillasamtök hafa sjálf orðið fyrir tjóni vegna  fjármálakreppunnar. Þau hafa sum tapað fjármunum, og stuðningsaðilar annarra hafa orðið að draga saman seglin eða beinlínis horfið af vettvangi. Því er hætta á að starfsemi íslenskra almannaheilla­samtaka veikist á næstunni. Til þess að samtökin geti áfram gegnt sínu mikilvæga hlutverki fyrir samfélagið,  hvetur fundur á vegum Samtakanna almannaheilla landsmenn til sjálfboðaliðastarfa og aukinnar þátttöku í þágu samfélagsins.

Ennfremur eru íslensk stjórnvöld eindregið hvött til að skapa starfsemi frjálsra félagasamtaka hagstætt lagalegt umhverfi til frambúðar og til að beita sér fyrir því að starfsumhverfi samtakanna verði ekki síðra, hvað skattgreiðslur varðar, heldur en gerist í nágrannalöndunum.


Hvernig bregðast almannaheillasamtök við breyttu samfélagi?

Viðbrögð íslenskra almannaheillasamtaka við afleiðingum fjármálakreppunnar?
Á hvern hátt ættu þau að breyta forgangsröðun verkefna sinna?
Hvernig förum við að því að styrkja þessi samtök til að takast á við krefjandi aðstæður?

Samtök um almannaheill boða til fundar að Hallveigarstöðum Túngötu 14, Reykjavík fimmtudaginn 6. nóvember kl. 09.00 - 12.00 um breytt hlutverk almannaheillasamtaka á erfiðum tímum i samfélaginu.

DAGSKRÁ
Kl.  9.00          Ávarp og setning:
Guðrún Agnarsdóttir formaður Samtakanna almannaheilla
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra 

Kl.  9.15         Erindi
Ann Armstrong, gestakennari við Háskólann í Reykjavík:
Brýnustu verkefni og breytt starfsemi almannaheillasamtaka á erfiðum tímum (flutt á ensku; úrdráttur á íslensku ef óskað er)

Kl. 10.00         Kaffi

Kl. 10.15        Fjögur stutt innlegg
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra
Steinunn Hrafnsdóttir dósent Háskóla Íslands
Sigurður Ólafsson verkefnastjóri Háskólanum í Reykjavík
Þórir Guðmundsson yfirmaður alþjóðasviðs Rauða krossins

Kl. 10.40         Umræður í hópum

Kl. 11.20         Skýrslur hópa og almennar umræður. Ályktun.

Kl. 12.00         Fundarslit

Öll aðildarfélög Samtaka um almannaheill eru hvött til að senda 3 eða fleiri einstaklinga á fundinn. Þá eru þau einnig hvött til að fá 2-3 úr forustu annarra almannaheillasamtaka til þátttöku. 

Komum á fundinn, skiptumst á hugmyndum, förum yfir möguleika almannaheillasamtaka til að byggja upp nýtt og betra samfélag.

Ekkert gjald er fyrir þátttöku í fundinum. Vinsamlegast skráið ykkur sem fyrst með tölvuskeyti á netfangið almannaheill@internet.is.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband