28.1.2009 | 12:56
Ferðaþjónusta fatlaðar - Brot á mannréttindum
Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur skrifað undir, segir m.a. í 20 grein sem er um: Ferlimál einstaklinga:
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með þvÍ:
a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi, .......
Embla Ágústsdóttir skrifaði nýverið grein í Morgunblaðið þar sem hún fjallaði um þá ferðaþjónustu sem fötluðum er boðið uppá. Sjá greinina hér fyrir neðan. Frásögn Emblu er enn eitt dæmið um að Ferðaþjónusta fatlaðra er ekki að bjóða upp á þjónustu sem er ásættanleg fyrir fólk sem vill taka virkan þátt í samfélaginu. Þessi málaflokkur er á forræði sveitarfélaganna. Fyrir nokkru vakti ég athygli á frásögn af hrakförum ungs einhverfs drengs sem skilin var eftir á vergangi af Ferðaþjónustu fatlaðra. Sjá hér.
Blindrafélaginu hefur tekist að gera samninga við nokkur sveitarfélög, þar sem Reykjavíkurborg reið á vaðið, um ferðaþjónustu í samstarfi við Hreyfil. Það fyrirkomulag hefur verið að virka einstaklega vel og ekki sýnt sig vera kostnaðarsamara en aðrir ásættanlegir kostir, auk þess sem þjónustan sem fæst er mjög góð og gefur þeim sem hana nota möguleika til virkrar samfélagslegrar þátttöku. Því miður hafa tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu dregið lappirnar í að tryggja blindum og sjónskertum sambærilega þjónustu að aðrir njóta á höfuðborgarsvæðinu og hafa vísað á Ferðaþjónustu fatlaðra, en það eru Kópavogur og Mosfellsbær.
Samfélagið ýmist dregur úr eða ýkjir áhrif og afleiðingar fötlunar með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.
Þessi mál eru í eðli sinu mannréttindamál og því hafin yfir það að vera afgreidd sem kröfugerð minnihlutahóps sem hafi í för með sér kostnað.
Hér kemur greinin hennar Emblu og ég læt lesendur um að dæma hvort að sú þjónusta sem hún lýsir er boðleg.
Ferðaþjónusta fatlaðra
Embla Ágústsdóttir
FERÐAÞJÓNUSTA fatlaðra er þekkt félagslegt úrræði sem kom fram í dagsljósið þegar fatlað fólk fór að skríða út af stofnunum landsins, hægt og bítandi. Í dag er þessi þjónusta hugsuð sem eins konar strætisvagnar fyrir fatlað fólk. Munur er auðvitað mikill og það er ekki á nokkurn hátt hægt að líta á strætisvagnakerfið og ferðaþjónustu fatlaðra sem einhverjar hliðstæður. Þegar farþegi ætlar að nýta sér ferðaþjónustuna þarf hann auðvitað fyrst af öllu að senda inn formlega umsókn (að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári) til síns sveitarfélags til þess að fá leyfi til að nýta sér þessa þjónustu. Að því leyfi fengnu á hann að panta ferðina með minnst dags fyrirvara, sem er svo sem ekkert stórmál. Það sem er hins vegar stórmál í þessu samhengi og veruleiki nánast allra þeirra sem þurfa að nota þessa þjónustu er að ekki er hægt að treysta því að ferðapöntunin standist. Hér á ég ekki við fimm til tíu mínútur til eða frá, stöku sinnum. Ég á við hálftíma til fimmtíu mínútna seinkun, ekki stöku sinnum, heldur oft, jafnvel oft í viku. Svo kemur það auðvitað fyrir að bíllinn kemur bara alls ekki og þá eru góð ráð dýr. Ég veit ekki hversu mörgum klukkutímum ég eyði í hverjum mánuði, starandi út um gluggann í þeirri von að hvítur bíll með blátt merki renni í hlaðið. Nú finnst eflaust sumum ég vera að velta mér upp úr einhverju yfirstéttarvandamáli í stað þess að vera þakklát fyrir það sem ég þó hef. Auðvitað hef ég það mjög gott, búandi á Íslandi, og ég er afar þakklát fyrir það. Ég tel þó að mitt hlutverk sé ekki bara að þegja og brosa. Fyrir mér er þessi þjónusta sem í boði er fyrir fatlaða raunverulegt vandamál sem fáir virðast átta sig á. Ég upplifi og heyri nánast daglega eitthvað neikvætt um þessa þjónustu. Í fötlunarfræðum er fötlun skoðuð út frá félagslegu sjónarhorni og þá er gjarnan talað um að samfélagið fatli einstaklinginn. Það er, að skert geta einstaklingsins kemur fyrst og fremst til vegna þess úrræðaleysis sem ríkir í samfélaginu. Ég hef verið mátulega hlynnt þessari nálgun hingað til. Ég hika þó ekki við að fullyrða að ferðaþjónusta fyrir fatlaða, í þeirri mynd sem hún er í dag, fatlar fólkið sem hana notar. Ég efast um að fólk átti sig almennilega á því hversu heftandi þessi þjónusta er í raun. Vegna þess hve ótraust og ónákvæm ferðaþjónustan er verður það hið mesta mál fyrir mig að geta stundað þá vinnu sem ég stefni á að gera. Ég stunda nám í framhaldsskóla þar sem mikilvægt er að vera stundvís. Því miður hef ég margoft verið of sein vegna tafa ferðaþjónustunnar. Þar að auki hef ég nú þegar starfað við stundakennslu við háskóla hér á landi og þegar ég sinni þeirri vinnu get ég ekki með nokkru móti nýtt mér þjónustuna. Ég get ekki verið hálftíma of sein í kennslustund þar sem ég sjálf er kennarinn. Vanvirðing við minn tíma er algjör. Ég þarf þá alfarið að treysta á góða vini og hugulsama ættingja sem jafnvel skreppa frá á miðjum vinnudegi til þess að ég komist í mína vinnu. Það er deginum ljósara að það fyrirkomulag sem nú ríkir hentar flestum mjög illa. Úrræðaleysið er mikið og engin lausn virðist sjáanleg. Ég er þó þeirrar skoðunar að stærsta og erfiðasta vandamálið (í þessu máli) sé það viðhorf sem virðist enn ríkja í samfélaginu. Hugsunin virðist vera sú að fatlaðir eru ekki mikilvægir, þeim liggur ekkert á, þeir þurfa ekkert endilega að mæta á réttum tíma því þeir eru hvort sem er ekki að sinna neinu mikilvægu hlutverki.
Það gefur augaleið að lítil þörf þykir á breytingum ef þetta viðhorf ræður ríkjum. Staðreyndin er sem sagt sú að ég get menntað mig mikið í því ágæta menntakerfi sem við höfum á Íslandi. Ég get tekið margar háskólagráður og jafnvel sérmenntað mig á ákveðnu sviði. Ég sæki um vinnu sem ég hef mikinn áhuga á og er tengd minni sérþekkingu. Hreyfihömlun mín sem slík hamlar mér ekkert í þessari vinnu.
Þetta er ábyrgðarfullt starf og í því felst mikið innanbæjarflakk þar sem ég þarf að sitja fjölda funda og mæta á ýmsar uppákomur. Ég þarf að hafna þessu
starfi vegna þess að það er ekki nokkur leið fyrir mig að sinna því sökum ferðaþjónustunnar sem í boði er fyrir mig. Viðhorfið að fatlaðir séu byrði á samfélaginu lifir greinilega enn góðu lífi. Það virðist gleymt og grafið að notendur þessarar þjónustu eru fullgildir þegnar samfélagsins og hafa margt fram að færa til þessa samfélags ef þeir aðeins fá tækifæri til þess. Samfélagið hefur fatlað mig og gert mínar þarfir og þekkingu óþarfar og lítils virði. Gætir þú sinnt þeirri vinnu sem þú sinnir og gert allt hitt sem gera þarf á hverjum degi ef sú ferðaþjónusta sem ég þarf að nota væri eina úrræðið sem í boði væri?
Höfundur er framhaldsskólanemi og stundakennari.
**************************************************************************************
Friðsæll situr fagur í logninu
fléttar saman orðum í værð sinni.
Ljómar af lífsþorsta eingöngu,
Ljósálfurinn í kyrrðinni!
Höf. M.Geir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.