27.1.2009 | 10:35
Aðgengishindranir í undirskriftarsöfnun Nýs lýðveldis
Athygli Blindrafélagsins hefur verið vakin á því að undirskriftarsöfnunin á vefsíðunni http://nyttlydveldi.is er ekki aðgengileg þeim sem notast við skjálesara. Sjá hér svar frá Sigrúnu Þorsteinsdóttur hjá Sjá varðandi hvað er athugavert:
"Þetta er svokölluð CAPTCHA eða ruslpóstvörn og er falin í kóðanum þ.e. ekki sýnileg skjálesurum og ekki með ALT texta. Þetta er auðvitað óþolandi. Mun betri lausn er að nota einfalt reikningsdæmi eins og t.d. mbl gerir. Það mætti benda þeim á að sú lausn virki fyrir langflesta notendur. Einnig má nota einfalda spurningu eins og "Hvernig er rautt epli á litinn?" (og notandi skrifar þá svarið "Rautt" í reitinn) eða álíka. Spambotar (eða ruslpóst vefþjónar) skilja ekki íslensku og þar af leiðandi geta þeir ekki komist fram hjá þessari hindrun. Erlendis er bannað að nota óaðgengilegt CAPTCHA eins og hér er gert."
Þar sem ég geri fastlega ráð fyrir því að það hafi ekki verið meiningin að útiloka blinda og sónskerta sem notast við skjálesara, frá því að taka þátt í undirskriftajöfnunni, reikna ég með að þessu verði kippt í lag án tafar. Að öðrum kosti verður ekki önnur ályktun dregin en hér sé verið að mismuna fólki og brjóta mannréttindi með aðgengishindrunum.
Því miður er það of algengt að aðilar, og þá jafnvel þeir sem tengjast réttindabaráttu á einn eða annan hátt, verða vísir að því í hugsakleysi sínu að setja upp aðgengishindranir á nettengdu efni. Þar má t.d. nefna svipað dæmi og hér er rakið og notkun á pdf skjölum sem viðhengi með tölvupóstum. Í raun er það svo að í því upplýsingasamfélagi sem við lifum í er engin afsökun gild fyrir því að huga ekki að aðgengi fyrir alla í þeim verkum og aðgerðum sem framkvæmd eru á netinu. Hér er um klárt mannréttindamál að ræða. Upplýsingar og leiðbeiningar varðandi þessi mál er hægt að fá hjá Sigrúnu Þorsteinsdóttur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Sjá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Kristinn Halldór.
Ég þakka þér fyrir þessa ábendingu og ég mun ræða þetta við vefstjóra síðunnar. En getur þú sagt mér, kostar þetta peninga eða áhættu að búa svo um hnútana eins og þú leggur til?
Sjálf er ég bý ég ekki yfir nægri tækniþekkingu til að meta það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.1.2009 kl. 10:59
Þetta á ekki að hafa áhrif á öryggi og lítil sem engin áhrif á kostnað eftir því sem mér skilst. Ég bendi þó á ráðgjöfina hjá http://sja.is/ í þessu samhengi. Best er að tala þar við Sigrúnu Þorsteinsdóttur.
Kristinn Halldór Einarsson, 27.1.2009 kl. 11:08
Sæll Kristinn Halldór.
Nú er búið að gera þær lagfæringar á síðunni www.nyttlydveldi.is sem þú gerir hér að umtalsefni og sjónskertir eiga þar með að hafa óhindraðan aðgang að undirskriftasöfnuninni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.1.2009 kl. 23:44
Flott hjá Ólínu, ekki lengi að redda málinu.
(IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 00:28
Kærar þakkir fyrir skjót og jákvæð viðbrögð Ólína.
Kristinn Halldór Einarsson, 28.1.2009 kl. 09:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.