16.11.2008 | 15:11
Þolir ekki bið - Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blint, sjónskert og daufblint fólk
Hinni nýju þjónustu- og þekkingarmiðstöð er ætlað að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar. Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá er henni ætlað að gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu og sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
Hlutverk miðstöðvarinnar er fyrst og fremst að auka möguleika þeirra einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra þegna þess.
Samstarfið um gerð frumvarpsins hefur um margt verið til mikillar fyrirmyndar. Að því hafa allir hagsmunaaðilar komið alveg frá upphafi. Það liggur því fyrir að þegar frumvarpið verður lagt fram er þegar búið að ná fram breiðri samstöðu um öll meginatriði þess.
Í þeim hremmingum sem íslenskt samfélag gengur nú í gegnum, er ekki óeðlilegt að óttast að málefni eins og þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blint, sjónskert og daufblint fólk, sé ekki ofarlega á forgangslista ráðamanna. Einnig er ekki óeðlilegt að óttast að í einhverjum tilvikum telji aðilar; ríkið, sveitarfélög eða skólar, forsvaranlegt að spara megi með því að veita ekki þeim einstaklingum sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir, þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá, mannréttindasáttmálum og núgildandi lögum.
Á Íslandi eru í dag 133 börn sem eru skilgreind blind eða sjónskert, með 30% sjón eða minna, og þurfa því á sértækri þjónustu og kennslu að halda. Þar af eru 26 börn á leikskólaaldri, 86 eru á grunnskólaaldri og 21 á framhaldsskólaaldri. Færa má fyrir því rök að mun fleiri börn myndu njóta góðs af starfsemi nýrrar þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar ef sjónskerðingarmörkin yrðu sett við 50% sjón eða minna.
Í lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla má sjá að þessi þrjú skólastig hafa m.a. þau sameiginlegu markmið að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Börn sem eru alvarlega sjónskert, blind eða daufblind eiga erfitt með að fylgja jafnöldrum sínum að í skólastarfi nema til komi sérhæfð þjónusta þar sem gefin eru ráð um hvernig best sé að koma til móts við þarfir þeirra í námi og námsumhverfi. Sumir nemendur þurfa beinlínis á sérhæfðri kennslu að halda í einstökum námsgreinum.
Slík þjónusta verður best veitt af sérhæfðu fólki sem áformað er að starfi á hinni nýju þjónustu- og þekkingarmiðstöð, þar verður þekkingin og færnin til staðar.
Þjónustuþörf hvers og eins getur verið mjög mismunandi og því er nauðsynlegt að fram fari einstaklingsmiðað mat í hvert sinn sem nýr notandi leitar eftir þjónustu og nauðsynlegt er að endurmeta þjónustuþörfina með tilliti til breytinga á aðstæðum og framförum notandans. Mikilvægt er að hafa í huga hversu dýrmætur tíminn er þegar börn eiga í hlut. Vikur í námi verða fljótt að mánuðum, mánuðir að önnum og annir að skólaárum. Þeir sem fara með stjórn þessara mála geta því ekki vikist undan þeirri ábyrgð að sá tími sem líður, þar sem þessi börn fá ekki tilskildan stuðning og þjónustu í skólakerfinu, eru glötuð verðmæti.
Þrátt fyrir að ráðamenn séu nú uppteknir af efnahagslegum verkefnum sem eru af áður óþekktum stærðargráðum, þá má það ekki fyrir nokkurn mun gerast að framlagning frumvarps um nýja þjónustu- og þekkingarmiðstöð verði frestað. Það er óhugsandi og mun leiða af sér mikið tjón. Í dag er unnið í bráðabirgðaástandi sem ekki verður framlengt. Miklir fjármunir hafa verið lagðir fram, bæði af Blindrafélaginu og Blindravinafélagi Íslands til að mennta fagfólk til starfa í þessari nýju stofnun. Starfsmenn sem unnið hafa að þessum málum hafa unnið mjög gott starf við óhemju erfiðar aðstæður. Öllu þessu verður teflt í tvísýnu verði frrumvarpið ekki afgreitt á yfirstandandi þingi.
Í ljósi þeirrar góðu samvinnu sem verið hefur við vinnslu þessa máls, þá treysti ég því að Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sem hefur forræði þessa máls, sjái til þess að þetta frumvarp verði lagt fram í tíma og hvet um leið Alþingi til að afgreiða það sem lög fyrir áramót.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Kristinn.
Mikið vona ég þess innilega heitt að þetta þarfa mál nái í gegn. Ég segi eins og þú. Leggjum allt traust á Jóhönnu. Hún er sko betri en engin það hefur hún sýnt og sannað.
Kærleikskveðjur til þín og allra sem lesa síðuna þína.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 15:33
Þakka þér fyrir góðar kveðjur Þórarinn.
Kristinn Halldór Einarsson, 16.11.2008 kl. 15:47
Já ég ætla rétt að vona að það verði ekki frestun á þessu máli, og vona jafn framt að eitthvað hafi bæst við. En þá á ég við í sambandi við sveitarfélögin og hver skuli ákvarða hver fær þessa þjónustu eður ei, Það er eitthvað sem verður að vera skýrt svo fleiri lendi ekki í sömu málum og ég.
(IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:05
Mikilvægast af öllu Sigurlaug, er að frumvarpið verði að lögum þannig að þessi mikilvæga starfsemi fái lagaramma. Þegar það hefur náðst þá er hægt að fara gera ríkari körfur varðandi þjónustuna. Á þessari stundu hafa engin skilaboð verið gefin út varðandi það að til standi að fresta málinu og vonandi verður engin breyting þar á.
Kristinn Halldór Einarsson, 16.11.2008 kl. 20:11
Jóhann klikkar ekki á þessu, hef ekki nokkra trú á því.
(IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.