26.8.2008 | 10:56
Að aflokn alheimsþingi World Blind Union
Yfir 600 aðalfulltrúar voru á þinginu og voru 40% atkvæða í höndum kvenna, en WBU hefur lagt mikla áherslu á að jafna þátttöku kynjanna í starfi aðildarfélaga sinna og samtakanna. Til dæmis þá var haldin sérstök kvennaráðstefna á undan þinginu. Sjá hér frásögn Lilju Sveinsdóttur sem var annar af tveimur fulltrúum Íslands á ráðstefnunni.
Í skýrslu William Rowland fráfarandi forseta WBU frá S-Afríku, og umræðum um skýrsluna báru þessi mál hæst:
- Mikilvægi Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðar og að aðildarsamtökin noti sáttmálann til að berjast fyrir og tryggja réttinda blindra og sjónskertra. Mikilvægt væri að aðildarfélög í löndum sem ekki hefðu skrifað undir eða staðfest sáttmálann ynnu að því að fá það gert.
- Komandi 200 ára afmæli Louis Braille á árinu 2009 og mikilvægi blindraleturs var mikið rætt. Fulltrúar þróunarlandanna voru virkir í þeirri umræðu og bentu m.a. á að vegna lítils öryggis með rafmagn þá kæmi ný tækni ekki af sömu notum og í þróaðri löndum. Að mati þeirra sem tóku til máls þá er mikilvægi blindraleturs síst að minnka þrátt fyrir að ný tækni sé mörgum blindraleturs notendum hjálpleg. Fulltrúar frá þróunarlöndunum lögðu áherslu á alþjóðlegt átak í tengslum við 200 ára afmæli Louis Braille.
- Vinnuhópur um málefni sjónskertra hefur verið starfandi innan WBU. M.a. benti forsetinn á það í máli sínu að huga þyrfti að stöðu sjónskertra innan WBU, en sjónskertir eru þrisvar sinnum fleiri en blindir. Málefni blindra hafi hins vegar oft borið mun hærra en málefni sjónskertra.
- WBU er aðili að verkefnum sem hafa það að markmiði að gefa öllum blindum og sjónskertum börnum í heiminum aðgang að menntun. Í dag eru 90% allra blindra og sjónskertra barna án aðgangs að menntun. Blindir og sjónskertir hafa ekki aðgang að 95% alls útgefins prentefnis, vegna þess á hvað formi útgáfan er. WBU vinnur að því að breyta þessu í verkefni sem kallast book famine".
Nokkur órói og umræða var um nýtt félagsgjaldakerfi fyrir WBU. Tillagan sem lá fyrir þinginu gat haft það í för með sér að lítil og févana samtök og samtök frá smáríkjum áttu það á hættu að fara illa út úr nýju fyrirkomulagi. Ísland hafði frumkvæði að því að vekja athygli á málinu auk þess sem heildarsamtökin í S-Ameríku lýstu mikill óánægju. Í samvinnu við samtök frá Hollandi, Þýskalandi og Möltu flutti Ísland tillögu sem átti að taka tillit til þeirra óánægjusjónarmiða sem fram höfðu komið. Tillagan var samþykkt, þó óvissa sé um hvort hún var samþykkt í heild sinni eða að hluta vegna mikils ruglings við atkvæðagreiðslu.
Á þinginu voru flutt nokkur áhugaverð ávörp sem tengdust þema þingsins. Meðal þeirra sem töluðu voru: Ms Kyung-what KANG Deputy High Commissioner for Human Rights OHCHR og Marc Maurer Bandarískur mannréttindalögfræðingu og aðgerðarsinni sem hefur verið blindur frá fæðingu, Don Makay sendiherra og Larry Campbell, President International Council for Education of People with Visual Impairment (ICEVI),Á þinginu var kosin ný stjórn samtakanna. Nýr forseti WBU er Maryanne Diamond frá Ástralíu, Arnt Holt frá Noregi var kosinn 1 varaforseti.
Þó nokkrar ályktanir voru samþykktar á þinginu og munu þær verða þýddar yfir á íslensku og birtar um leið og þær verða tilbúnar.
Seinustu daga þingsins var síðan kynning og sýninga á ýmsum hjálpartækjum fyrir blinda og sjónskerta. Ég er að vonast til þess að Blindrafélagið geti stuðlaða að því að hluta af því sem þar var sýnt megi taka í notkun hér á landi og eru nokkur atriði þegar í skoðun.
Þingið var vel skipulagt, eins og við er að búast þegar Svisslendingar sjá eiga í hlut. Ráðstefnuhöllin sem þingið fór fram í var hinsvegar bagaleg út frá sjónarhóli sjónskertra vegna birtuskilyrða, sem voru mjög breytileg. Lítill tími var gefinn til umræðna vegna þess hversu þétt dagskráin var. Í umræðum voru sjónarmið þróunarlandanna mjög áberandi og fulltrúar þeirra mjög virkir í umræðum.
Alheimsþing World Blind Union fara fram á 4 ára fresti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.9.2008 kl. 11:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.