Meðferðir við arfgengum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu í nútíð og framtíð - Fyrsti hluti

Á ráðstefnu Retina International í Helsinki þann 4 og 5 júlí s.l. flutti Gerald J. Cahder (Ph.D.,M.D.hc - Chief Scientific officer,  Doheny Retina International USC Medical school í Los Angeles)  ávarp í ráðstefnulok, þar sem hann dró saman helstu niðurstöður úr þeim erindum sem flutt voru á  ráðstefnunni. Ég hef fengið leyfi til að endurbirta þýðingu úr ávarpinu og jafnframt minnispunktana inn á bloggsíðuna sem hlekk hér neðst á síðunni.

Ég biðst velvirðingar ef þýðingar eru ónákvæmar á einhverjum stöðum og bið um að viljinn sé tekinn fyrir verkið. Þessari þýðingu er ekki ætlað að vera lærður pistill heldur fyrst og fremst til upplýsinga fyrir þá sem eru með RP og aðra tengda sjúkdóma og fjölskyldur þeirra og vini.

Hér fer lausleg þýðing á fyrsta hluta ávarpsins. Ávarpið mun verða sett fram í þremur hlutum. 

 "Þarfirnar: Fáanlegar meðferðir

  • Enginn almenn virk meðferð er til í dag við Retinitis Pigmentosa eða tengdum sjúkdómum svo sem eins og Usher syndrome (daufblindu).
  • Hugsanlegt er að A-vítamín geti hjálpað einhverjum.
    Á sama hátt er enginn virk meðferð, nema bætiefnameðferð (nutyritional supplements), til fyrir þær milljónir fólks sem er með þurra ellihrörnun í augnbotnum (dry AMD).
  •  Meðferð við votri ellihrörnun (vet AMD) er fáanleg, en hún er dýr og þarf stöðugt að vera endurtaka.

Fáanlegar- og framtíðarmeðferðir 

Í framtíðinni  munu ekki allar meðferðir gagnast öllum sjúklingum. Meðferðir munu skiptast í tvo flokka:

  1. Meðferð þegar einhverjir ljósnemar eru á lífi og virkir. Meðferðin mun þá miða að því að framlengja líf þessara ljósnema.
  2. Meðferð þegar ljósnemar eru ekki á lífi og þörf er á að koma nýjum fyrir.

Sem betur fer er nú til tækni sem gefur möguleika á að taka mynd af sjónhimnunni til að greina hvort ljósnemar eru á lífi eða ekki. Tæknin er nefnd OCT.

Klínískar tilraunir í nútíð og framtíð 

Ef sjúklingur hefur lifandi og virka ljósnema eru þrenns konar meðferðir sem til greina gætu komið.

  1. Genameðferð (Gene replacement therapy) 
  2. Lyfja meðferð (Pharmaceutical Therapy)
  3. Næringarfræðileg meðferð (Nutritional Therapy)

1. Genameðferð (Gene replacement therapy) 

  • Genemeðferð byggir á því að hið gallaða (stökkbreytta) gen er lagfært með því að koma fyrir heilu geni í stað þess gallaða. Þar með fara ljósnemarnir að virka betur og lifa lengur.
  • Í genameðferð er breyttur vírus (kallaður vector) notaður til að ferja heilt gen inn í frumurnar.  

Þar sem áætlað er að um helmingur þeirra gena sem stökkbreytast og valda hrörnun í sjónhimnu hjá mönnum (RP) sé þekktur, þá er fræðilega sá möguleiki fyrir hendi að hægt sé að skiptu út gölluðu genunum og hjálpa þar með fjölmörgum sem eru með RP. 

Á seinast áratug sýndu þó nokkrir vísindahópar fram á að hægt var að skipta út gölluðu geni í dýrum sem orsakaði RP, með þeim árangri að ná til baka hluta af tapaðri sjón. Sem dæmi:

  • Árið 2001 greindi vísindahópur frá því að góður árangur hefði náðst í meðferð á hundi sem var með Leber sjúkdóminn þannig að hann fékk aftur sjón. Nú 7 árum seinna er hundurinn ennþá með góða sjón. Fleiri hundar hafa síðan verið meðhöndlaðir með góðum árangri.
  • Klínískar tilraunir í genameðferð (LCA) eru þegar hafnar í London og Fíladelfíu (USA). Fleiri tilraunir eru í undirbúningi víða um heiminn.
  • Engar niðurstöður varðandi öryggi eða virkni hafa ennþá verið birtar, en fyrstu niðurstöður lofa góðu.

2. Lyfjameðferð (Pharmaceutical Therapy)

Lyfjameðferð byggir á notkun efna (agent) sem ætlað er að lengja líf og auka virkni ljósnemanna (photoreceptor cell).

  • Sum þeirra efna sem í dag eru fáanleg eru náttúruleg prótein sem finnast í líkamanum og kallast "neuron-survival agents". Önnur efni eru tilbúin en með sambærilega virkni.
  • Árið 1990 var sýnt fram á að náttúrulegir vaxtahvatar (natural growth factor, bFGF) gátu hægt á hrörnun ljósnemanna í tilraunadýrum.
  • Síðan þá hafa margir náttúrulegir vaxtahvatar fundist í smáu mæli í heila, sjónhimnu og öðrum vefjum, sem hafa sýnt sig hægja á dauða ljósnemanna þegar þeir hafa verið settir í sjónhimnu tilraunadýranna.

Lyfjameðferð - Klínískar rannsóknir

  • Sem stendur er tvær klínískar lyfjatilrauna meðferðir í gangi á mönnum. Önnur á RP sjúklingi hin á AMD sjúklingi. Þessar tilraunir miða að því að prófa efnið CNTF (neuron-survival).
  • Fyrirtækið Neurotech er að prófa sérstaklega þunnt hylki sem hægt er að græð inn í augað og gefur frá sér CNTF. CNTF fer síðan inn í sjónhimnuna og er ætlað að hjálpa til við að halda lífi í ljósnemunum og jafnvel að auka virkni þeirra.
  • Ef tilraunirnar verða árangursríkar þá verður þetta líklega fyrsta almenna meðferðin sem mun verða fáanleg fyrir RP og AMD sjúklinga.

Klínísku tilraunir Neurotech

  • Aðferð Neurotech með CNTF var margprófuð á tilraunadýrum með RP og sýndi sig hafa afgerandi áhrif í að hægja á hrörnunarferlinu.
  • Öryggisniðurstöður úr fyrsta stigs tilraunum Neurotech eru mjög góðar. Í þremur af tíu RP sjúklingum sem voru prófaðir sást að sjón hafði batnað. 
  • Með þessar niðurstöður í huga eru miklar vonir bundnar við annars og þriðja stigs tilraunir Neurotech.
  • Retina International mun fylgjast vel með tilraununum og koma upplýsingum um framgang þeirra á framfæri.

(Weng Tao M.D.,PH.D frá Neurotech USA var með fyrirlestur á ráðstefnunni og skýrði þar frá því að ef allt gengi að óskum þá væri von til þess að fyrstu meðferðir gæru hafist eftir um 2 ár. Innsk. KHE)

3. Bætiefni fyrir RP  (Nutrition: For RP)

  • Notkun bætiefna sem meðferð við RP er umdeilanleg en ber þó núna að taka alvarlega sem vörn,  eða í það minnsta til að hægja á hrörnunarferlinu.
  • Árið 1993 komst Dr. Eliot Berson að því að inntaka á A-vítamíni gat hægt örlítið á hrörnunarferlinu hjá sumum sjúklingum. E-vítamín hafði aftur á móti sýnt sig hafa skaðleg áhrif.
  • Fram til þessa hefur inntaka A-vítamíns verið eina fáanlega meðferðin við RP.
  • En þar sem áhrifin hafa verið svo lítil og eingöngu virkað fyrir fáa, þá hafa sumir augnlæknar ekki viljað mæla með A-vítamín meðferð.

   Aðrar tilraunir með A- og E-vítamín

  • Til að ganga betur úr skugga um gagn A-vítamíns fyrir RP sjúklinga og ákvarða hvaða áhrif E-vítamín (góð eða slæm) hefur var annarri tilraun hleypt af stokkunum.
  • Þessari tilraun er nú lokið, þó niðurstöðurnar hafi ekki verið birtar.
  • Í tilrauninni voru áhrif A- og E-vítamína á þróun RP prófuð. Bæði var virkini vítamínanna prófuð ein og sér sem og saman.
  • Retina International mun koma niðurstöðunum á framfæri.

Andoxunarefni hægja á dauða ljósnema í RP

  • Nýlega þá skýrði Prof. Theo van Veen frá því að notkun andoxunarefnablöndu hefði reynst mjög vel í því að hægja á þróunarferli RP í nagdýrum.
  • Með notkun háþróaðs tæknibúnaðar sýndi hann fram á að alvarlegar súrefnisskemmdir komu fram á ljósnemum sjónhimnunnar sem síðan leiddi til dauða ljósnemanna í tilraunadýrunum.  
  • Blanda af sérstökum andoxunarefnum hafði hinsvegar þau áhrif að draga stórlega úr súrefnisskemmdunum og hæga þar með á dauða ljósnemanna - bæði stöfum og keilum (rods and cones) 
  • Mikilvægt er að bætiefnin voru gefin í gegnum munn - ekki var þörf á að sprauta þeim í tilraunadýrin.

Væntanlegar klínískar tilraunir með bætiefni

Klínískar tilraunir eru nú hafnar til að prófa áhrif andoxunarefna á menn.

  • Þessi tilraun fer fram á Spáni undir umsjón Dr. F.J. Romero. Gert er ráð fyrir að það taki að minnsta kosti tvö ár að ljúka tilrauninni.

Það er hinsvegar hægt að fá þessa andoxunarblöndu keypta í gegnum internetið. Blandan er kölluð RetinaComplex.

  • Blandan ætti að vera örugg þar sem efnin í henni er flokkuð af Bandaríska matvæla og lyfjaeftirlitinu (US FDA) sem örugg bætiefni en ekki óprófuð lyf." 

Í seinni hlutanum er m.a. fjallað um tilraunir með rafrænan sjónbúnað sem ætlað er m.a. að koma í stað tapaðrar sjónar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heill og sæll Kristinn!

TAkk kærlega fyrir þýðinguna og bíð ég spenntur eftir seinni hlutanum af greininni. Hef svona sæmilega fylgst með þróuninni og víst er að sl. árin hefur býsna margt verið að gerjast og þróast í augnlækningunum. Tímaritið Lifandi vísindi hefur held ég oftar en einu sinni birt fróðlegar greinar um framþróun í augnvísindum, m.a. eina þar sem nokkuð vel var farið ofan í saumana á glersjónar- eða gervisjónaraðgerðum, þar sem ljósnæmum örflögum var komið fyrir í augunum og komu í stað dauðra ljósnemanna. (stafanna og keilanna)

Kom þar fram minnir mig m.a. að auk meiri endingartíma væri þróunin í þá átt að auka mælistyrk flaganna, þannig að þær yðru jafnvel tífalt sterkari en sú fyrsta sem grædd var í mann, er þó þannig fékk það mikla sjón aftur að hann skynjaði útlínur á ný og gat nokkuð vel bjargað sér fyir götur!

En þetta og eflaust fleir kemur sjálfsagt eitthvað fram í seinni hlutanum hjá þér.

Magnús Geir Guðmundsson, 16.7.2008 kl. 20:53

2 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Sæl Magnús

Ég hef séð eitthvað af því sem birst hefur í Lifandi Vísindum og það er ein staðfestingin enn á því á hversu miklum hraða rannsóknir á þessu sviði eru. Á þessari ráðstefnu í Helsinki talaði ég við vísindamenn og leikmenn sem hafa fylgst vel með rannsóknum  undanfarin 30 ár. Allir voru þeir sammála um að framundan væru mjög spennandi tímar. Það sem þyrfti núna væru auknir fjármunir í rannsóknir. Á ráðstefnunni var sýnt graf sem sýndi á lárétta ásnum tíma , sem mældur var í áratugum og á lóðrétta ásnum var sýndur fjöldi nýrra uppgötvana. Nánast fram til aldamóta er línan nánast lárétt, uppgötvanir fár og langt á milli þeirra, en eftir aldamót fer hún að rísa mjög hratt þar sem styttra og styttra verður milli nýrra uppötvana, þar til að í nútímanum er línan orðin nánast lóðrétt, þar sem nú virðast líða mánuðir frekar en mörg ár milli nýrra uppgötvana. En það er samt rétt að hafa varann á sér. Það eru engin kraftaverk að fara gerast á morgunn þó svo von geti verið á góðum tíðindum á næstu árum og áratugum, eftir því hvaða aðferðarfræði á í hlut.

Vonandi kem ég seinni hlutanum frá mér sem allra fyrst og gaman væri að geta flutt fleiri góð tíðindi á næstu misserum. En í gegnum nýtilkomna aðild Blindrafélagsins að Retina International munum við fá aðgang að rannsóknarniðurstöðum og vísnidagreinum um leið og þær birtast.

Kristinn Halldór Einarsson, 16.7.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband