Leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta

071121 017

Nú styttist óðum í það að til landsins komi leiðsöguhundar fyrir fjóra af félagsmönnum Blindrafélagsins.  Hér á myndinni má sjá, í aftari röð, þá fjóra hunda sem nú eru á lokasprettinum í langri og strangri þjálfun. Eins og sjá má á myndinni eru hér á ferðinni stórglæsilegir kolsvartir Labrador hundar.Talið frá vinstri á pallinum er fyrstan að telja hundinn hennar Lilju http://retinita.blog.is/ sem heitir Asita, næsti er Exo og hann fær Alexander. Sá sem liggur fram á lappirnar er Exit og það er hundurinn hans Friðgeirs en lengst til hægri er Elan og það er Guðlaugar hundur. Áætluð koma hundann er 28 júlí og þá fara þeir í sótthví í um það bil mánuð og að því loknu í samþjálfun með notendum sínum.

Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk og veita þeir notendum mikið frelsi og aukið öryggi. Notandi leiðsöguhunds öðlast frelsi til þess að komast um í umhverfi sínu, innan  dyra sem utan. Hundarnir leiða notendur sína framhjá hindrunum sem í vegi þeirra verða og þeir gæta þess að notandinn fái ekki trjágreinar í andlitið þar sem þær slúta yfir gangstéttir. Þeir finna auð sæti fyrir notendur sína þar sem það á við og þeir eru þjálfaðir til þess að finna ýmsa hluti svo sem lykla eða hanska sem notendur missa á ferðum sínum með hundinum. Leiðsöguhundar eru ekki síður góðir félagar og mörg dæmi eru um að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.

Þjálfun leiðsöguhunda er afar sérhæfð og krefst ákveðinna aðstæðna. Erfitt er að byggja upp þá umfangsmiklu aðstöðu og sérþekkingu sem þarf fyrir jafn fámennt samfélag og hér á Íslandi. Því tók stjórn Blindrafélagsins þá ákvörðun að leita eftir samstarfi við norsku blindrasamtökin sem hafa rekið þjálfunarskóla fyrir leiðsöguhunda í rúm 30 ár. Blindrafélaginu er mikið kappsmál að standa vel að þessu verkefni og það hefur reynst mikilvægt að geta leitað til þeirra sem reynslu hafa og þekkingu á þessum málum þegar stigin eru fyrstu skrefin í uppbyggingu á þjónustu við leiðsöguhunda og notendur þeirra. Blindrafélagið stefnir að því að fjölga leiðsöguhundum fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk á næstu árum. 

Leiðsöguhundaverkefnið var rausnarlega styrkt af Lions hreyfingunni á Íslandi, sem seldi Rauðu fjöðrina til styrktar verkefninu nú í vor, og kann Blindrafélagið Lionshreyfingunni bestu þakkir fyrir. Að auki kemur Heilbrigðisráðuneytið að fjármögnun verkefnisins ásamt Blindrafélaginu.

Frekari upplýsingar er hægt að fá á skrifstofu Blindrafélagsins og/eða  í kynningarbæklingi um leiðsöguhundaverkefni sem fylgur hér með sem pdf skjal.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Sveinsdóttir

Velkominn í hóp Bloggara Kristinn. Mun fylgjast með þér.

Lilja Sveinsdóttir, 6.6.2008 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband