31.12.2015 | 16:17
Um áramót
Það er til siðs að líta yfir bæði farinn veg og frammá við um áramót. Gjarnan sendum við þá óskir um farsælt nýtt ár og þakkir fyrir liðnar stundir til fjölskyldu, ættingja, vina og samstarfsfélaga. Að vissu marki eru áramót einnig tími uppgjöra við hið liðna og heitstrenginga og markmiðssetninga fyrir komandi ár.
Á árinu 2016 verða liðin 10 ár frá því að ég hóf að starfa á vettvangi Blindrafélagsins. Fyrst tvö ár í stjórn, svo sem formaður félagsins í 6 ár og sem framkvæmdastjóri frá sumrinu 2014. Ég er stolltur af þeim árangri sem náðst hefur í starfi félagsins og þeim fjölmörgu verkefnum sem félagið hefur unnið að þann tíma sem ég hef starfað á vettvangi þess ásamt mikið af góðu og hæfu fólki. Ástæður þessa góða árangurs liggja að mínu mati í faglegum vinnubrögðum, góðum starfsanda og breiðri samstöðu meðal félagsmanna. Frá því að ég tók við sem framkvæmdastjóri hefur rekstur félagsins gengið vel og úrbætur verið gerðar í þjónustu við félagsmenn.
Árið 2015 litast mjög af alvarlegum atburðum innan Blindrafélagsins þegar að stjórn félagsins lýsti yfir vantrausti á formann þess, Bergvin Oddsson, í september 2015. Ástæðan var að Bergvin hafði misnotað aðstöðu sina á vettvangi félagsins, að mati stjórnarinnar, þegar hann tók að sér fjármálaráðgjöf fyrir ungan félagsmann, sem skilaði sér í því að allt sparifé þessa unga félagsmanns (1,5 mkr) endaði inn á persónulegum bankareikningi Bergvins. Var þetta gert undir yfirskyni fasteignaviðskipta. Bergvin hafnaði því alfarið að eitthvað væri athugavert við framgöngu sína í þessu máli. Í kjölfarið steig Bergvin til hliðar sem formaður Blindrafélagsins fram að næsta aðalfundi sem fyrirhugaður er fyrrihluta 2016.
Á árinu 2016 verð ég 56 ára gamall. Sjón mín fer hrörnandi með hverju ári og ég þarf að gera mitt besta til að bregðast við því og ljóst er að ég tapa færni jafnt og þétt án þess þó að það komi í veg fyrir að ég geti sinnt starfi mínu. Þó ekki sé um lögblinda einstaklinga að ræða þá reynist mörgum erfitt að missa vinnuna á þessum aldri og finna annað sambærilegt starf. Og svo sannarlega hjálpar það ekki uppá að vera lögblindur.
Það er því með nokkrum kvíða sem ég horfi til ársins 2016. Bergvin Oddsson hefur nefnilega lýst því yfir skriflega á opinberum vettvangi að hann gefi kost á sér til formanns Blindrafélagsins á næsta aðalfundi félagsins og nái hann kjöri þá muni hann reyna láta reka mig úr starfi framkvæmdastjóra félagsins. (Sjá hér) Ástæðan sem hann tiltekur er ekki að ég hafi ekki staðið mig í starfi eða ráði ekki við starfið, heldur óljósar athugasemdir um hvernig staðið var að ráðningu minni fyrir tveimur árum. Athugasemdir sem hann kom ekki með fram þá. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að ég sjá það sem ógn gagnvart mér og fjölskyldu minni ef Bergvin Oddsson nær kjöri sem formaður Blindrafélagsins.
Áramótaheitið mitt fyrir árið 2016 hlýtur því að vera að hrinda þessari árás og gera mitt besta til að tryggja að árið 2016 verði ekki árið sem ég missi vinnuna. Til þess mun ég þurfa stuðning félagsmanna Blindrafélagsins. Í þeim efnum vísa ég meðal annars til fjölbreyttra verkefna sem ég hef komið að og/eða leitt á vettvangi Blindrafélagsins á undanförnum árum.
Með því að skoða fréttalistann á heimasíðu Blindrafélagsins má sjá frásagnir af fjölbreyttum verkefnum félagsins á undanförnum árum.
Af öðrum og gleðilegri málum þá er gaman að greina frá því að mér var boðið að taka sæti í stjórn Retina International, sem eru alþjóðleg samtök sem að vinna að því að styðja við vísindastarf í þeim tilgangi að finna meðferðir við ólæknandi arfgengum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu. Ég er fyrsti íslendingurinn sem tek sæti í stjórn Retina International (RI), en það eru samtök frá 53 löndum úr öllum heimsálfum sem eiga aðild að RI.
Í október 2015 var sýnd á RUV fræðslumyndin "Lifað með sjónskerðingu" sem ég átti forgöngu um að var framleidd. Í kynningu RUV um myndina segir: "Lifað með sjónskerðingu er íslensk heimildarmynd frá 2014. Fylgst er með sex blindum og sjónskertum einstaklingum á öllum aldri í sínu daglega lífi og hvernig þeir takast á við sjónmissinn með ólíkum hætti. Hér má sjá myndina.
Af gönguferðum er það helst að frétta að við hjónin héldum áfram að ganga og aðalgangan okkar á árinu var West Highland Way gangan. Gangan tók 7 daga og gengið var um hálendi Skotlands í félagsskap 13 annarra göngugarpa, þarf af 6 sjónskertra, undir styrkri leiðsögn Eskfirðingsins Ingu Geirs.
Mont ársins og svo að sonur okkar hjóna Jón Héðinn kláraði meistaranámið í matreiðslu og mun því geta kallað sig Chef Maestro Jonni. Við erum að sjálfsögu mjög stolt af honum.
Þegar að ég sest niður og skrifa svona pistil þá get ég ekki vikist undan því að fjalla um það sem mig skiptir mestu máli, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Eins og það er gaman að fjalla bara um það jákvæða og góða og erfitt að fjalla um það sem er síður skemmtilegt þá má það ekki verða til þess að sleppa því að fjalla um það sem kann að vera neikvætt og/eða ógnandi.
Siðast en ekki síst vil ég enda þennan áramótapistil á því að senda fjölskyldu, ættingjum, vinum og samstarfsfólki mínar bestu óskir og farsælt komandi ár um leið ég færi ykkur öllum kærar þakkir fyrir ánægjulegar liðnar stundir.
Lifið heil.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:36 | Facebook
Athugasemdir
Kvíddu engu karlinn minn, þetta mun allt fara vel.
Magnús Geir Guðmundsson, 31.12.2015 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.