Öryggi og Traust - Ný Norðfjarðargöng

Það er kunnara en frá þurfi að segja að við lifum á tímum ósættis í samfélaginu og flest öllum virðist eins og að hagsmunum þeirra sé vegið.  Stjórnvöld (stjórn, stjórnarandstaða og stofnanir)  njóta minna trausts en áður hefur mælst og eru ýmist ásökuð um að hygla tilteknum hagsmunaaðilum eða að ganga svo hart fram gegn þeim að ekki verði undir því risið. Stjórnvöldum til varnar þá hafa þau verið að glíma við verkefni sem eru stærri og vandameiri en nokkurn tíman fyrr í lýðveldissögunni. Í þeirri glímu hefur verið deilt um forgangsröðun verkefna, eins og eðlilegt er, hvaða leiðir skuli fara að settum markiðum og hvar almennir hagsmunir og sérhagsmunir liggja.

Ég trúi því að stjórnmálamenn hafi einlægan vilja til að vinna vel, ég trúi því reyndar að  það sé eitthvað sem við öll viljum gera. Við höfum hinsvegar mismunandi skoðanir á því hvað er mikilvægast og hvaða leiðir skuli velja til að ná tilteknum markmiðum, markmiðum sem við eru reyndar oft sammála um.

Ágreiningur um leiðir og forgangsröðun verkefna er eðlilegur upp að vissu marki. Það eru hinsvegar ákveðin verkefni sem er samfélagsleg samstaða um að skuli njóta forgangs umfram öll önnur. Svo sem eins og heilsugæsla, menntun og öryggismál.

Baráttan um að ráðist verði tafarlaust í gerð nýrra Norðfjarðarganga er barátta Austfirðinga fyrir að þessi samfélagslegu verkefni verði áfram í forgangi og að viðurkennt verði að hér er um meira að tefla en hefðbundið samgönguverkefni sem stytta á leiðir í hagkvæmnistilgangi eða auka aðgengi ferðamanna svo dæmi séu tekin.

Fyrir utan óefnd loforð stjórnvalda um samgöngubætur í tengslum við sameiningu sveitarfélaga og atvinnuuppbyggingu í Fjarðarbyggð, þá snúast ný Norðfjarðargögn  um öryggi.  Öryggi getur eingöngu verið til staðar ef þeir sem í hlut eiga finnst  að þeir séu öryggir. Það dugar ekki að Vegagerðin segi að gömlu Norðfjarðargöngin séu örugg, ef þeim sem þau nota finnst þau og vegakerfið sem þeim tilheyrir vera óörugg. Tilfinningin ein að búa í stöðugum ótta um að alvarleg slys kunni að vera handan við hornið er algerlega óásættanleg og mjög brýnt að stjórnvöld viðurkenni það og bregðist við. Fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem fara þessa leið fram og til baka, alla virka daga, er þetta eins og að fara til sjós á litlum bát í víðsjárverðum veðrum á degi hverjum. Innst inni nagandi ótti um hvort að allir komi nú ekki örugglega heilir heim að loknum vinnudegi. Tímar og tilfinningar sem eiga að vera að baki. Sjá hér.

Margar greinar hafa verið skrifaðar til að varpa ljósi hversu brýnt það er að án tafar verði ráðist í gerð nýrra Norðfjarðaganga. Ég leyfi mér hér að taka bróðurpartinn úr grein Björns Magnússonar læknis við Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað. Greinin birtist í Morgunblaðinu í vikunni og er mjög upplýsandi:

Opnun þessara fyrstu jarðganga á Austurlandi þótti því undur og stórmerki enda mikil samgöngubót. Ekki skyggði á gleðina þótt göngin væru sprengd og grafin í gegnum fjallaskarð í rúmlega 600 m hæð og engin fáraðist yfir því að í þeim væri blindhæð og að þau væru bæði þröng og dimm. Aðalatriðið var að þarna var hægt að hossast í gegn til að sýna sig og sjá aðra. Með vaxandi umferð og þungaflutningum á síðustu árum hafa þó ágallar ganganna komið æ betur í ljós. Tugþúsundir tonna af fiskafurðum eru nú fluttar árlega um göngin með flutningabílum og tengivögnum sem stundum komast ekki í gegn nema með því að hleypt sé úr dekkjum af bílstjórum sem gjörþekkja aðstæður. Fjögur- til fimmhundruð bifreiðum er ekið daglega um Oddsskarðið og um það bil 35.000 farþegar Austfjarðaleiðar fara nú árlega um göngin og þá snarbröttu fjallvegi sem að þeim liggja og tilheyra hættulegasta vegarkafla landsins miðað við ekna kílómetra. Sitthvoru megin skarðsins eru svo Álverið á Reyðarfirði og Síldarvinnslan í Neskaupstað, tvö af öflugustu fyrirtækjum landsins. Þá státar Neskaupstaður af Verkmenntaskóla Austurlands sem og Fjórðungssjúkrahúsinu (FSN) sem nú er skilgreint sem umdæmissjúkrahús Austurlands. Á FSN er miðstöð bráðalækninga og sérfræðiþjónustu innan fjórðungsins og þar er eina skurðstofa og fæðingardeild Austurlands auk öflugra stoðdeilda svo sem rannsóknarstofu auk myndgreininga- og endurhæfingardeildar sem þjóna Austfirðingum öllum. Óneitanlega er þó aðgengið að okkar sérhæfðu heilbrigðisþjónustu á FSN mun erfiðara en víða annars staðar á landinu svo ekki sé nú minnst á höfuðborgarsvæðið. Skert aðgengi ásamt niðurskurði undangenginna ára viðhalda því þeim ójöfnuði í heilbrigðiskerfinu hér eystra sem þegar er landlægur víða hérlendis.

Vegna mikilvægis og landfræðilegrar legu hefur velferðarráðuneytið sýnt starfsemi umdæmissjúkrahúsanna vaxandi stuðning að undanförnu og ekki er annað að heyra en að stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) styðji heilshugar við bakið á áframhaldandi bráðaþjónustu á FSN.

Sökum erfiðs aðgengis og fráflæðis vegna Oddsskarðsganganna er ef til vill ekki að undra þótt hvarfli að misvitrum ráðgjöfum að flytja bráðaþjónustuna frá Norðfirði. Þeir mættu þó gjarnan hafa í huga að mun fljótlegra og auðveldara er að rústa góðri þjónustu en að byggja upp nýja fyrir svo utan mikinn tilkostnað. Mun skynsamlegra er því að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustunni á Austurlandi með úrbótum í vegamálum þar sem ný Norðfjarðargöng hljóta að vera brýnasta framkvæmdin. Fyrir atvinnuvegina, skóla og heilbrigðisþjónustu svo ekki sé nú minnst á öryggi vegfarenda er bráðnauðsynlegt að hefjast handa við gangagerðina á næsta ári og ljúka henni svo á þremur árum. Óviðunandi er með öllu að Austfirðingar sæti því að bíða þessarar sjálfsögðu samgöngubótar til ársins 2018 eins og nú er áformað.

Austfirðingum og örugglega flestum sem þekkja til aðstæðna fyrir austan er það ábyggilega hulin ráðgáta af hverju ráðamenn skuli ekki vera búnir að gera sér grein fyrir hversu brýn framkvæmd gerð nýrra Norðfjarðarganga er. Sjálfsagt er það vegna þess að þeir hafa aldrei þurft að búa við þær aðstæður sem hættulegasti fjallvegur landsins skapar, en það er þeim ekki nein afsökun. Þeir hafa næg gögn sem benda á að gerð nýrra Norðfjarðargangna er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda. Hér duga ekki orð eða loforð, af þeim er nú þegar komið nóg. Fara verður frá orðum til athafna. Athafnir eru eini gildi gjaldmiðilinn í þessu máli.

Með nýjum Norðfjarðargöngum er meðal annars brugðist við brothættu aðgengi að bráðaheilbrigðisþjónustu og fæðingarþjónustu auk þess sem hættulegasti vegakafli landsins hverfur. Þetta eru verkefni sem snúa fyrst og síðast að öryggi. Það er undir engum bringustæðum verjandi að ráðast ekki í gerð Norðfjarðarganga strax á næsta ári. Að ætla að fara t.d. í Vaðlaheiðargöng með ríkisábyrgð, veggjöld eða engin veggjöld, en ekki í Norðfjarðargöng, er yfirlýsing um að aðrir hlutir en öryggi og velferð borgarann ráði orðið meiru í forgangsröðun verkefna hjá ríkinu. Það myndi mér finnast sorglegt að verða vitni að. Þegar þannig er haldið á málum, til viðbótar við sniðgengin fyrirheit, þá er ekki furða að hratt gangi á okkar mikilvægustu samfélagslegu auðlind – traustið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband