2.4.2009 | 14:39
Landlæknisembættið og aðgengishindranir
Alveg hreint merkilegt að Landlæknisembættið láti svona vef frá sér þar sem 0% hefur verið tekið tillit til t.d. sjónskertra, blindra eða hreyfihamlaðra!!!!!
Það er ekki ásættanlegt að Landlæknisembættið taki ekkert tillit til stefnumörkunar stjórnvalda varðandi jafnt aðgengi að upplýsingasamfélaginu.
Blindrafélagið hefur þegar gert formlega athugasemd við Landlæknisembættið með bréfi sem sjá má hér fyrir neðan.
"Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi hefur borist ábending varðandi aðgengishindranir að vefsíðunni: http://www.heilsuvefsja.is/ Það liggur fyrir opinber stefnumörkun frá ríkisstjórn Íslands um aðgengismál á vefnum, sem m.a. birtist í tillögum sem settar voru fram árið 2006: http://www.ut.is/adgengi/Itarefni/ Tryggt verði að rafræn þjónusta opinberra aðila taki mið af þörfum ólíkra hópa, s.s. blindra, sjónskertra og fatlaðra. Fyrirtæki verði hvött til að gera hið sama. Varðandi aðgengismál á vefnum þá gilda um þau ákveðnir staðlar sem notaðir eru til skilgreiningar. Þessir staðlar og skilgreiningar eru verkfæri sem vefforritarar eiga þekkja. Það er hinsvegar stefnumörkun ráðamanna vefsvæða sem ræður því hvort litið er til þess að almennar kröfur um aðgengi eru virtar að vettugi eða ekki. ÖBÍ og SJÁ gefa sameiginlega út aðgengisvottun á vefsvæði. Þeir alþjóðlegu staðla/gátlistar sem í þeirri vinnu eru notaðir, eru þeir sömu og stjórnarráðið (http://www.ut.is/adgengi) leggur til grundvallar varðandi aðgengi á vefjum. Þá m.a. finna hér: http://www.w3.org/WAI/intro/wcag.php http://www.w3.org/WAI/WCAG20/quickref/ http://www.w3.org/WAI/gettingstarted/Overview.html Þessir staðlar og gátlistar eru öllum opnir og án endurgjalds. Þegar vefir eru vottaðir af SJÁ og ÖBÍ er farið ítarlega yfir vefina og þá eru hafðir til hliðsjónar þessir gátlistar. Þá er einnig farið yfir vefina með þeim búnaði sem fatlaðir notendur þurfa til að notfæra sér vefina. Það þarf þó alls ekki að votta vefi til að þeir séu aðgengilegir og má komast ansi langt með því að fylgja þeim stöðlum sem eru í gangi. Hér má finna allar nánari upplýsingar varðandi kóða á vefjum o.fl. Þetta eru allt upplýsingar sem forritarar þekkja yfirleitt: http://www.w3.org/ Einnig má nefna að í mörgum tilfellum er hægt að gera vefi aðgengilega í samvinnu við þau vefumsjónarkerfi sem vefurinn heyrir undir og oft eru þessi atriði smíðuð í vefina frá upphafi. Ef ekki hefur verið hugað að þessu frá byrjun, er oft hægt að hafa samband við þá aðila sem hafa með vefumsjónarkerfið að gera og fá ráðgjöf þeirra, þeir eiga að vera með þetta á hreinu. Það sem helst hindrar aðgengi fatlaðra notenda að vefsvæðum er:
- ALT texta vantar á myndir.
- Mikilvægt efni er notað sem Flash myndir eða PDF.
- Skerpa leturs og bakgrunns er ekki nægileg.
- Ekki er hægt að stækka letur á vefnum.
- Ekki er hægt að nota TAB lykil eingöngu.
- Fyrirsagnir ekki rétt skilgreindar.
- Tenglaheiti ekki nægilega skýr.
- Flýtileiðir ekki í boði.
- Málfar er óþarflega þungt og flókið.