2.9.2008 | 12:49
Sjónskert börn í fjórða bekk fá gefins fartölvur
Það voru konur í Thorvaldsenfélaginu sem seldu jólamerki félagsins um síðustu jól til styrktar blindum og sjónskertum börnum. Félagið afhenti sjóðnum eina milljón króna til kaupa á fartölvum fyrir blind og sjónskert grunnskólabörn og ákvað stjórn sjóðsins að styrkja sérstaklega verkefni á vegum kennsluráðgjafarinnar, sem mun verða hluti af nýrri þjónustu og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra. Verkefnið er fólgið í því að tölvurnar verða allar útbúnar með stækkunarbúnaði sem auðveldar sjónskertum nemendum að halda í við jafnaldra sína og munu kennsluráðgjafar fylgjast með þessum hópi nemenda sérstaklega og kenna þeim á búnaðinn.
Sjóðurinn Blind Börn á Íslandi var stofnaður fyrir mörgum árum síðan af útvarpsmönnunum Gulla Helga og Jóni Axel. Þeir hófu sölu á efni tengdum útvarpsþætti sem þeir voru með og nutu til þess stuðnings fleiri aðila. Sjóðurinn hefur staðið fyrir úthlutunum og skemmtunum fyrir blind og sjónskert börn á undanförnum árum.
Mikil ánægja ríkti meðal krakkanna, foreldra þeirra, Thorvaldsenkvenna og annarra sem stóðu að verkefninu. Ljóst má vera að þetta er verkefni sem vonandi mun hafa mikil og jákvæð áhrif á nám og leik þessara krakka.
Þessum viðburði voru gerð góð skil í fréttum Stöðvar2 og mér finnst ástæða til þess að hrósa dagskrágerðarfólki Stöðvar2 fyrir þann áhuga sem þeir hafa að undanförnu sýnt málefnum blindra og sjónskertra.
Thorvaldsenfélaginu og forsvarsmönnum sjóðsins Blind börn á Íslandi, eru eru færðar kærar þakkir fyrir framlagið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)