Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
8.2.2014 | 16:24
Skarphéðinn Andri Kristjánsson Barðsnes 01.03.1995 - 28.01.2014.
Í dag fylgdi ég til grafar ungum frænda mínum. Að fylgja til grafar ungu fólki sem látist hefur af slysförum er eitt það erfiðast sem við gerum. Þann hálfa mánuð sem frændi minn, hann Skarphéðinn Andri, barðist fyrir lífi sínu á gjörgæslu, létu foreldrar hans ættingja og vini fylgjast vel með baráttu hans. Það var tími tára og sorgar en um leið vonar. Samhugur með Skarphéðni Andra og fjölskyldu hans var ríkjandi tilfinning á þessum erfiðu tímum. Öll báðum við þess að Skarphéðinn myndi hafa betur. Á þessum tíma kom vel í ljós að Skarphéðinn var í augum stórs vinahóps heilsteyptur og vinsæll. Í því tilgangsleysi sem manni finnst svona fráfall vera, þá eru aðrar og ekki síður sterkar tilfinningar sem fylgja fráfalli Skarphéðins. Enn það er þakklæti og stolt. Þakklæti samfélagsins, vil ég leyfa mér að segja, vegna þeirra stóru gjafa sem hann og fjölskylda hans, foreldrar og bræður, gáfu með afstöðu sinni til líffæragjafa. Og stoltið sem fylgir þessari lífgefandi afstöðu, sem þau gerðu opinbera og hefur nú þegar stuðla að varanlegri viðhorfsbreytingu til líffæragjafa. Mörgum lífum mun verða bjargað, mun fleiri en þeim sem nutu góðs af beinni gjöf Skarphéðins. Þau spor sem Skarphéðinn hefur markað í samfélaga okkar á sinni stuttu ævi eru dýpri og jákvæðari en við flest munum skilja eftir okkur á margfalt lengri ævi. Það eru miklir mannkostir sem birtast í Skarphéðni í þessu sorglega ferli. Mannkostir sem Skarphéðinn hefur öðlast í gegnum uppeldi foreldra sinna. Það er þeim fagur vitnisburðum. Styrkur ásamt stórhug, örlæti og heiðarleika hefur einkennt fjölskyldu Skarphéðins á þessum erfiðu tímum. Það sést vel þegar atburðarásin er sett í samhengi við þau kjörorð sem Skarphéðinn Andri hafði tileinkað sér, og minnig hans mun lifa í: "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra."
Okkar innilegustu samúðarkveðjur sendum við foreldrum, bræðrum, öfum, ömmum, öðrum ættingum og stórum vinahópi, vegna fráfalls Skarphéðins Andra Kristjánssonar Barðsnes. Megi huggun finnast í því sem hann skilur eftir sig fyrir okkur öll.
Kristinn Halldór, Kristín Sjöfn og Jón Héðinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.2.2014 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.8.2008 | 07:34
Í minningu Helgu Einarsdóttur
Fimmtudaginn 14 ágúst er borin til grafar góð vinkona mín og baráttufélagi, Helga Einarsdóttir.
Það var að morgni fimmtudagsins 31 júlí sem mér bárust þær sorglegu fréttir að Helga Einarsdóttir hefði orðið bráðkvödd, nokkrum dögum fyrir 43 ára afmælisdag sinn.
Helga "okkar" Einars, eins og hún var gjarnan nefnd af mörgum félagsmönnum og starfsmönnum Blindrafélagsins, var einn ötulasti talsmaður fyrir réttindum, sjálfstæði og virðingu blindra og sjónskertra einstaklinga. Að hún skuli hafa fengið viðurnefnið okkar" við nafnið sitt sýnir betur en margt annað í hversu miklum metum hún var hjá hinum fjölmörgu félagsmönnum sem kynntust henni.
Það má segja að Helga hafi drukkið í sig baráttuandann með móðurmjólkinni, þar sem móðir hennar, Rósa Guðmundsdóttir, var blind og ötul í réttindabaráttu blinds og sjónskerts fólks, var m.a. formaður Blindrafélagsins um nokkurra ára skeið og þær mæðgur bjuggu m.a. í blindrafélagshúsinu. Skilningur Helgu á aðstæðum blindra og sjónskertra var þannig vaxinn upp úr grasrótinni og þegar hún svo bætti við sig fagmenntun á þessu sviði var innsæi hennar og skilningur orðin einstakur.Helga var sérlega hressandi manneskja. Hún var glaðvær, hláturmild, litaglöð, skarpgreind og hafði til að bera óbilandi bjartsýni og baráttuanda
Öll höfum við okkar eigin ástæður til að syrgja fráfall Helgu, hún gegndi mismunandi hlutverkum í lífi okkar sem einstaklinga. Til viðbótar við að vera eiginkona og móðir þá var hún mikil útivistarkona, hún var kennari og fræðimaður, hún var einnig uppspretta eldmóðs í baráttu fyrir málstaðnum ásamt því að vera hugmyndafræðilegur brunnur í málefnum blindra og sjónskertra. Þá var hún jafnframt mörgum hvatning til að gera meira og betur, að brjótast út úr þægindaumhverfinu og láta reyna á sig, ekki vera fórnarlamb aðstæðnanna heldur taka stjórn á aðstæðum og gera það besta sem hægt er að gera. Síðast en ekki síst var hún góður vinur og félagi.
Hópurinn sem stendur í þakkarskuld við Helgu og þau verk sem hún vann, á alltof stuttri ævi, er stór og þar af eru margir félagsmenn Blindrafélagsins, og ég þar með talinn. Helga var ófeimin við að hafa samband við einstaklinga sem voru að ganga í gegnum það að missa sjón til að hvetja þá til dáða og ekki loka sig af.
Með elju sinni og krafti, stuðlaði Helga að því að margir blindir og sjónskertir einstaklingar lifa í dag sjálfstæðara og innihaldsríkari lífi en þeir hefðu gert, ef ekki hefði komið til afskipta hennar.
Mér er vel minnistætt þegar ég hitti Helgu fyrst og hvað þessi kona var öðruvísi en ég átti von á, þegar ég fékk í heimsókn ráðgjafa frá Sjónstöð Íslands á þáverandi vinnustað minn. Hún var svo glaðvær og hvetjandi og í svo litríkri peysu. Hún talaði um lausnir. Ég kunni strax vel við þessa konu og leið vel í návist hennar.
Helga er sjálfsagt sú manneskja sem ber mesta ábyrgð á því að ég gaf kost á mér í stjórn Blindrafélagsins. Hún hringdi í mig þegar ég var staddur á Ítalíu. Hún varð reyndar hissa á því að ég hafði ekki boðið henni með, þegar ég sagði henni hvar ég væri, en það var oft viðkvæðið okkar á milli, hún ætlaði alltaf að koma með í næstu ferð. Í þessu símtali sagðist hún vera með frábæra hugmynd, ég þyrfti bara að segja já. Hún vildi að ég gæfi kost á mér í stjórn Blindrafélagsins. Reyndar væru einungis 15 mínútur þar til framboðsfrestur rynni út. Og ég sagði já.
Reyndar náðum við Helga að fara í ferðir saman. Í maí s.l. lögðum við af stað á Hvannadalshnjúk ásamt fleira fólki, þar af nokkrum sjónskertum einstaklingum, en Helga hafði borið höfuðþungann að skipulagi ferðarinnar og hvatt mjög til hennar. Því miður urðum við frá að hverfa í um 1600 metra hæð vegna veðurs. Af sinni alkunnu jákvæðni þá fannst Helgu það fela í sér ný tækifæri, við hefðum þá góða ástæðu til að koma aftur. Var þá ákveðið að reyna aftur að ári.
Aðra ferð fórum við í saman, um Snæfellsnes og Breiðafjörð í júlí s.l. með hópi af góðu fólki. Helga, Jakob, eiginmaður Helgu, og Kalli 9 ára sonur þeirra voru þá að koma úr gönguferð í kringum Langasjó með allt á bakinu. Þar styrktust vinaböndin enn frekar og á ég frábærar minningar úr þeirri ferð. Eftirminnilegt er þegar Kalli gerði við það athugasemdir hverskonar gönguferð þetta væri eiginlega, alltaf verið að stoppa. Honum fannst greinilega ekki mikið til um, eftir gönguna í kringum Langasjó. Önnur skemmtileg minning er, þegar Helga og önnur kona sem var í gönguhópnum, tóku að sér að tína blóðberg til að krydda grillsteikina með. Gengust þær stöllur upp í því að þar með væru þær kryddpíur.
Helga gegndi lykilhlutverki í mótun starfsemi hinnar nýju þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, sem áformað er að hefji starfsemi á næsta ári.
Þegar kom að faginu og því málefni sem Helga hafði helgað líf sitt, þá bjó hún yfir einstæðum eiginleikum. Hún var allt í senn eldhugi, fræðimaður, kennari, frumkvöðull og hugmyndafræðingur, auk þess sem málstaðurinn stóð hjarta hennar svo nærri sem nokkur kostur var. Þegar litið er til reynslu, menntunnar, þekkingar og hugmyndafræðilegrar nálgunar á málefnum blindra og sjónskertra hér á landi, þá stóð Helga þar fremst. Mikið liggur eftir Helgu og hún taldi sig einnig eiga mikið ógert.
Minningin um Helgu, glaðværa baráttukonu, verður best heiðruð með því að láta ekki hugfallast, það væri ekki í anda Helgu okkar" Einars.
Þeir sem koma að málefnum blindra og sjónskertra og vilja stand vörð um hagsmuni þeirra, verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja áframhaldandi faglegan metnað og að þeir hugmyndafræðilegu vegvísar sem Helga lagði okkur til, verði okkur áfram til leiðsagnar í þeim verkefnum sem Helga vann að. Þar mun Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi leggja sitt af mörkum.
Það má ljóst vera að við fráfall Helgu Einars er stórt skarð höggvið í samfélag okkar. Vissulega er missirinn mestur fyrir nánustu fjölskyldu, en hinn stóri vinahópur og samstarfsmenn Helgu er stórum fátækari eftir en áður. Um leið þá má líka segja að við sem höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að verða samferða Helgu okkar" Einars erum ríkari á eftir. Það ferðalag hefur verið mannbætandi.
Fyrir hönd Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, færi ég fjölskyldu Helgu, vinum hennar og samstarfsfólki innilegustu samúðarkveðjur.
Vinir og fjölskylda | Breytt 5.5.2009 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2008 | 11:28
Helga "okkar" Einars er látin
Í gærmorgunn, fimmtudaginn 31 júlí, bárust þær fréttir að Helga Einarsdóttir, kennsluráðgjafi á Sjónstöð Íslands, hefði orðið bráðkvödd, 42 ára að aldri.
Helga "okkar" Einars, eins og hún var gjarnan nefnd af mörgum félagsmönnum og starfsmönnum Blindrafélagsins, var einn ötulasti talsmaður fyrir réttindum, sjálfstæði og virðingu blindra og sjónskertra einstaklinga. Hún gegndi jafnframt lykilhlutverki í mótun starfsemi hinnar nýju þjónustu og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, sem áformað er að hefji starfsemi á næsta ári.
Helga drakk í sig baráttuandann með móðurmjólkinni þar sem móðir hennar, Rósa Guðmundsdóttir, var blind og ötul í réttindabaráttu blinds og sjónskerts fólks,var m.a. formaður Blindrafélagsins um nokkurra ára skeið.
Við fráfall Helgu "okkar" Einars er stórt skarð höggvið í samfélag okkar. Vissulega er missirinn mestur fyrir nánustu fjölskyldu, en hinn stóri vinahópur Helgu er stórum fátækari eftir en áður.
Fyrir hönd Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, færi ég fjölskyldu Helgu, vinum og samstarfsfólki innilegustu samúðarkveðjur.
Óskandi er, að fjölskyldu Helgu og hinum fjölmörgu vinum hennar, lánist að finna leið til að sækja þann styrk sem þarf til að komast í gegnum áfall sem þetta.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)