Foreldrar blindra og sjónskertra barna!

Er réttur sveitarfélaga eða skóla ótvíræður til að ákveða einhliða þjónustu sem blindum eða sjónskertum börnum er látin í té á leik- og grunnskólastigi? Hver er réttur barnanna til jafnra möguleika til menntunar ef ágreiningu er við skóla eða sveitarfélag?

Næst komandi laugardag kl 10:00 verður fundur í foreldradeild Blindrafélagsins. Á fundinn mun mæta Þór Þórarinsson úr Félagsmálaráðuneytinu og Hrönn Pétursdóttir verkefnastjóri. Fjallað verður um málefni sem snúa að fyrirhugaðri Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, fyrirkomulag kennsluráðgjafar í skólum og hlustað eftir þeim viðhorfum sem foreldrar hafa fram að færa. Mikilvægt er að sem flestri foreldrar mæti. Fundurinn er opinn öllum foreldrum, hvort sem þeir eru skráðir í félagið eða ekki.

Í framhaldi af skýrslu erlendra fagaðila (John Harris 2006), sem sýndi fram á  mjög slæmar aðstæður blindra og sjónskertra barna í skólakerfinu, ákvað ríkisstjórnin að grípa til bráðaaðgerða og setja á fót kennsluráðgjöf fyrir þennan nemendahóp. Var samið við Blindrafélagiið um að það hýsti kennsluráðgjöfina á með unnið yrði að lagasetningu.  Þær aðgerðir hófust haustið 2007. Þá var ástandið svo slæmt að einungis 5 klst á mánuði voru ætlaðir í kennsluráðsgjöf og þjónustu í grunnskólakerfinu fyrir þau ca 100 sjónskertu og blind börn sem eru á Íslandi. Foreldrar þessara barna ákváðu sumir að flytjast af landi brott til að börn þeirra ættu jafna möguleika til mennta og jafnaldrar þeirra.

Sett var á fót nefnd sem skyldi gera tillögur til framtíðar og síðan framkvæmdahópur sem skyldi vinna að því að koma tillögunum til framkvæmda. Í hópunum voru fulltrúar frá Félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, menntamálaráðneytinu, Sambandi Íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Blindrafélaginu og Daufblindrafélaginu.

Breið samstaða er um að sett verði á stofn Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta og er lagafraumvarp þar að lútandi nánast tilbúið. Meðal þeirrar þjónustu sem þessari stofnun er ætlað að sinna er kennsluráðgjöf fyrir blind og sjónskert börn. Frá og með september á þessu ári hafa sveitarfélögin verið rukkuð fyrir þá kennsluráðgjöf sem þeim hefur verið látin í té í leik- og grunnskólum, nokkuð sem þau hafa ekki þurft að greiða fyrir fram að þessu.

Hlutverk kennsluráðgjafanna er m.a. að aðstoða við að greina þjónustuþörf blindra og sjónskertra barna og aðstoða og leiðbeina kennurum við kennslu og jafnvel taka að sér sérkennslu í ákveðnum tilvikum, s.s. eins og í notkun á blindraletri. Það er síðan á valdsviði skólanna eða sveitarfélaganna að ákveða hvaða þjónustu þeir kaupa og hvaða þjónustu þeir telja sig geta veitt.

Blindrafélagið í samvinnu við Blindravinafélag Íslands hefur kostað íslenskt fagfólk til náms í erlendum háskólum til að nema þau sérfræði sem snúa að kennsluráðgjöf, umferlis- og ADL (Athafnir daglegs lífs)þjálfun blindra og sjónskertra barna, sem og annara blindra og sjónskertra einstaklinga. Þetta varð að gera vegna þess að mikil þekking í þessum málaflokki hafði glatast og þekking hafði ekki verið endurnýjuð með eðlilegum hætti, m.a. vegna margra ára vanrækslu í þessum málaflokki.

Nú hafa verið að koma upp tilfelli þar sem sveitarfélög/skólar hafa gert þá kröfu að þeir upplýsi foreldrana um niðurstöður eða mat kennsluráðgjafanna og að kennsluráðgjöfunum sé óheimilt að upplýsa foreldrana um matið, þar sem sveitarfélögin/skólarnir eigi þessar upplýsingar vegna þess að þau hafi greitt fyrir þær. Eins eru að koma fram upplýsingar um tilvik þar sem skólarnir telji sig hafa innan sinna raða sérkennara sem geti gengið í störf sérmenntaðra kennsluráðgjafa fyrri blind og sjónskert börn og því þurfi þau ekki að kaupa þá þjónustu. 

Hjá Blindrafélaginu teljum við mjög mikilvægt að foreldrarnir fái að vita af því hvert mat kennsluráðgjafanna er, þar sem það er hlutverk foreldranna að gæta hagsmuna barnsins. Vandséð er hvernig þeir geta rækt það hlutverk sitt ef þeim er meinaður milliliðalaus aðgangur að upplýsingum eins og hér um ræðir. 

Spurningarnar sem Blindrafélagið mun leita eftir svörum við eru:
1.
Er hverju sveitarfélagi/skóla  fyrir sig heimilt að neita foreldrum/börnum um að sérmenntaður kennsluráðgjafi og umferliskennari fyrir blinda og sjónskerta leggi mat á kennslu og þjónustuþörf barna sem greind hafa verið blind eða sjónskert?

2. Er hverju sveitarfélagi/skóla  fyrir sig heimilt að neita foreldrum blindra og sjónskertra barna um milliliðalausan aðgang að niðurstöðum sérmenntaðs kennsluráðgjafa og/eða umferliskennara á þörfum sem þarf að uppfylla til að barnið geti átt sem eðlilegast skólagöngu með jafnöldrum sínum?

Í þeim tilgangi að leita svara við m.a. þessum spurningum áformar Blindrafélagið að funda með Umboðsmanni barna og kalla eftir áliti embættisins á því hver réttarstaða barna er, við þær aðstæður ef upp kemur ágreiningur á milli foreldra og skólayfirvalda, um þá þjónustu sem barni er látin í  té.

Á þeim tímum sem nú fara í hönd er mikilvægt að halda því til haga að það er ekki valkostur í stöðunni að láta ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar bitna á þeim úrræðum sem verið er að byggja upp fyrir blind og sjónskert börnum. Sú vinna verður að halda áfram og tryggja verður að þessum börnum sé gert kleyft að fylgjast að með jafnöldrum sínum í skólakerfinu og njóta þeirra grundvallar mannréttinda sem kveðið er á um bæði íslenskum lögum og alþjóðasáttmálum sem Ísland á aðild að.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Helgason

Þetta er stór góð grein og gott yfirlit um stöðu mála varðandi kennslu blindra og sjónskertra barna hér á landi. Hafðu heila þökk fyrir. Blindrafélagið hefur árum saman barist fyrir úrbótum á þessu sviði og vonandi næst meiri árangur í framtíðinni. Þegar við Garðar Sverrisson störfuðum sem mest saman á vettvangi Öryrkjabandalags Íslands var sú stefna mörkuð að færa ekki málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. Ástand það sem þú lýsir í greininni þinnni staðfestir þá skoðun. Ekki meira að sinni.

Gísli Helgason, 25.10.2008 kl. 14:23

2 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Kærar þakkir fyrir athugasemdina Gísli. Hjá Blindrafélaginu  er fullur hugur til að vinna af krafit að  þessum málaflokki. Þetta eru mál sem þarf sífellt að vera sinna og það þarf að vera til staðar öflug hagsmunagæsla af hálfu Blindraféalgsins. Vissulega eru vandmál því samfara að þurfa að eiga við sveitarfélögin, mismunandi viljug og burðug. Þetta er hinsvegar veruleikinn sem við búum við. Ég hef hinsvegar vonir um að við munum sjá stórstígar umbætur í þessum málaflokki þegar hins nýja Þjónustu og þekkingarmiðstöð tekur til starfa, sem vonandi verður í upphafi næsta árs.

Kristinn Halldór Einarsson, 25.10.2008 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband