Horft til framtíðar - Baráttan gegn sjónskerðingu á efri árum - Alþjóðlegi sjónverndardagurinn 9 október

 "Horft til framtíðar - Baráttan gegn sjónskerðingu á efri árum" eru einkunnarorð Alþjóðlega sjónverndardagsins, sem í ár ber upp á 9 október. Í heiminum öllum er talið að um 314 milljónir manna búi við alvarlega sjónskerðingu. Þar af er um 45 milljónir blindir og 124 milljónir hafa mjög litla sjón. Í 75% þessara tilvika er hægt að lækna blindu, 90% blindra og sjónskertra búa í þróunarlöndunum. Aðalástæðurnar eru ský á augasteini, gláka og aldurstengd hrörnun í augnbornum (AMD).

Lang algengasta orsök alvarlegrar sjónskerðingar og blindu í hinum þróaða hluta heimsins er af völdum aldurstengdara hrörnunar í augnbotnum (AMD). Enn sem komið er hefur ekki tekist að þróa fullnægjandi meðferðir gegn AMD, sem er erfðatengdur augnsjúkdómur. Eftir því sem meðalaldur hækkar og fólk verður eldra þá fjölgar þeim einstaklingum sem verða alvarlega sjónskertir eða blindir af völdum aldurtengdara hrörnunar í augnbotnum.

Á Íslandi eru um 1400 einstaklingar greindir sjónskertir eða blindir. Það þýðir 30% sjón eða minna. Af þeim eru um 100 alblindir. Eins og annarsstaðar á vesturlöndum er aldurstengd hrörnun í augnbotnum langalgengasta orsök sjónskerðingar og blindu hér á landi. Um 800 einstaklingar, eða 57% blindra og sjónskertra, eru greindir með ellihrörnun í augnbotnum, sem hefur leitt til þess að sjón er komin niður fyrir 30% af fullri sjón. Skiptingin á aldurshópa er eftirfarandi: 60 - 69 ára 17 einstaklingar, 70 - 79 ára 140 einstaklingar, 80 - 89 ára 437 einstaklingar, 90 - 99 ára 200 einstaklingar og yfir 100 ára eru 7 einstaklingar.

Þær samfélagsbreytinga sem orðið hafa á undanförnum árum hafa haft það í för með sér að eldriborgurum sem eru blindir eða sjónskertir hefur farið fjölgandi. Á sama tíma hefur einnig gerst að fjölskyldur hafa orðið laustengdari og afar sjaldgæft að stórfjölskyldur búi saman. Eldri einstaklingar sem eru að, eða hafa misst sjón, geta að öðru leiti verið vel heilsuhraustir og því haft bæði löngun og getu til að vera virkir í samfélaginu.

Það er hægt að gefa eldri borgurum sem misst hafa töluverða, eða jafnvel alla sjón, tækifæri til að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi. Það gerist meðal annars með því að gefa hverjum og einum kost á einstaklingsmiðaðri endurhæfinu, einstaklingsmiðuðu mati á hjálpartækjaþörf og að tryggja að þessi einstaklingar hafa frelsi og möguleika á sjálfstæðum ferðamáta.

Atriði sem sérstaklega þarf að huga að þegar um eldra fólk er að ræða sem er sjónskert eða blind, er aukin slysahætta. Þessa slysahættu er hægt að minnka með ákveðnum úrbótum sem snúa að ferilfræðilegu aðgengi. T.d. þannig að þegar komið er að tröppum sé upphleypt aðvörun í gólfi eða stétt og sterkar andstæður í litanotkun, glerveggir séu þannig merktir að þeir sjáist vel, hljóðmerki séu á öllum gangbrautarljósum. Mun fleira mætti tína til sem snýr að bættu aðgengi s.s. eins og nauðsyn þessa að gerðir verið alþjóðlegir staðlar um merkingu og hönnun á búnaði og í almennum rýmum. Þar er af miklu að taka, svo sem eins og að allur stafrænn búnaður sem er að einhverju leiti gagnvirkur, t.d. sjónvörp, snertiskjáir ofl. verði hannaður þannig að hægt sé að velja að fá hljóðræna svörun jafn sem myndræna.

Í nútíma samfélagi er það að verða sífellt mikilvægara að tryggja öllum aðgang að upplýsingasamfélaginu. Sá aðgangur er ekki síður mikilvægur eldri borgurum en þeim yngri. Sérstaklega þarf að huga að því að eldra fólk sem er að missa sjón fari ekki varhluta af þeim miklu möguleikum sem aðgangur að tölvutækninni og internetinu hefur í för með sé.  Mikilvægt er að ráðin verði bót á þeim vanköntum sem eru í talþjónamálum og búa svo um hnútanna að íslenskur talþjónn verði í þeim gæðaflokki að hann standist þær ríku kröfur sem íslendingar gera til þess hvernig móðurmálið er talað. Endurhæfing og þjálfun í athöfnum daglegs lífs þarf að taka mið af þessu.

Að ganga í gegnum það að missa sjón á efri árum er ekki gott hlutskipti. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að fjöldinn allur af fólki á öllum aldri lifir innihaldsríku og sjálfstæðu lífi þrátt fyrir verulega skerta sjón. Það er miklir möguleikar á því að gefa öllum tækifæri á að njóta sín þrátt fyrri verulega sjónskerðingu. Hluti af þeim hindrunum eða ógnunum sem standa í vegi fyrir að það megi verða, liggur í almennum viðhorfum almennings og stundum augnlækna, gangvart hæfnistigi blindra og sjónskertra. Tækifærin liggja hins vegar og m.a. í endurhæfingu, hjálpartækjum, getustigi, jákvæðu hugarfari og viljanum til að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir sjónskerðinguna.

Varðandi lækningar á AMD þá var fyrir skömmu skýrt frá því að Bandaríska fyrirtækið Neurotech hefði fengið leyfi bandarískra yfirvalda (FDA) fyrir byltingakenndum tilraunum á sjúklingum til lyfja of skurðmeðferðar sem eru með RP eða ellihrörnun í augnbotnum (Dry AMD). Vonast er eftir því að fyrstu niðurstöður þessara tilrauna líti dagsins ljós næsta vor. Mun fleiri tilraunir sem byggja á öðrum meðferðarúrræðum eru í farvatninu þó þessi tilraun virðist vera fremst í röðinni í dag.

Á meðan að ekki eru til lækningar eða meðferðir við þeim augnsjúkdómum sem í dag eru að valda blindu eða alvarlegri sjónskerðingu, er nauðsynlegt að mikil áhersla sé lögð á endurhæfingu, þjálfun í athöfnum daglegs lífs, markvissa hjálpartækjaþjálfun og notkun þeirra og aðgengismál. Þannig gefum við þeim einstaklingum sem eru að missa sjón best tækifæri á að vera áfram sjálfbjarga og lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir alvarlega sjónskerðingu.

Fræðsluerindi
Í tilefni Alþjóða sjónverndardagsins mun Lions á Íslandi standa fyrir fræðsluerindum í húsnæði Blindrafélagsins Hamrahlíð 17, 9 október kl 17:00. María Gottfreðsdóttir og Sigríður Þórisdóttir fjalla um, annars vegar "Gláku, greiningu og meðferð" og hins vegar um "Kölkun í augnbotnum og nýjungar í meðferð. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og er aðgangur ókeypis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband