Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Stuðningur til Sjálfstæðis - Vorhappdrætti Blindrafélagsins

Í tilefni af 70 ára afmæli Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, gefur félagið öllum þeim sem kaupa miða í happdrætti félagsins sjóntryggingu að verðmæti 100 þúsund bandaríkjadala. Sjóntryggingin gildir gegn sjónmissi af völdum slysa frá útdráttardegi og til ársloka 2009.

Happdrættið er Blindrafélaginu mikilvægt

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi,  fjármagna starfsemi sína að langmestu leyti með sjálfsaflafé. Þar gegnir happdrætti félagsins, með sínum glæsilegu vinningum, veigamiklu hlutverki.

Með því að kaupa happdrættismiða tekur þú virkan þátt í að styðja til sjálfstæðis blinda og sjónskerta einstaklinga á öllum aldri og stuðlar þannig að auknum lífsgæðum þeirra og um leið betra samfélagi.

Meðal ávinninga og verkefna Blindrafélagsins með ykkar stuðningi

Aksturþjónusta, Blindrabókasafnið, Blindravinnustofan, Daisy mp3 hljóðbókaspilarar, félagslíf 2-3 í viku fyrir blinda og sjónskerta eldri borgara, íbúðir, leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta, námsstyrkir til menntunar fagfólks, sambýli fyrir fjölfatlaða einstaklinga, Sjónstöð Íslands núna Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Rafrænir happdrættismiðar - Seðilnúmer er happdrættismiðanúmer

Rafrænir happdrættismiðar koma inn í heimabanka landsmanna miðvikudaginn 29. apríl sem valkrafa. Vinsamlegast athugið að seðilnúmerið á valkröfunni er einnig miðanúmer happdrættismiðans. Jafnframt voru sendir hefðbundnir miðar á alla einstaklinga 65 ára og eldri. Mánudaginn 27. apríl var send á öll heimili landsins ýtarleg kynning á happdrættinu og starfsemi Blindrafélagsins. Happdrættismiðinn kostar 1.939 krónur og er það tilvísun í stofnár félagsins, en Blindrafélagið var stofnað 1939 og er því 70 ára í ár.

Við viljum benda fólki á að prenta út upplýsingar um miðakaupin þegar krafan hefur verið greidd.

Ef þessi aðferð við miðakaup hentar þér ekki, getur þú hringt til okkar í síma 525 0000 og keypt miða með greiðslukorti.

Sjóntryggingin

Sjóntryggingin gildir fyrir alla sem greiða miða frá 12. Júní til næstu áramóta. Tryggingin gildir gegn varanlegri blindu(90% sjónmissir eða meira) af völdum slysa.
Ef kaupandi er þegar sjóntryggður (þ.e. styrktarfélagi eða góðvinur) þá getur sjóntryggingin gild fyrir annan einstakling (Í slíkum tilfellum þarf að fá uppgefna kennitölu greiðandans og þess sem á að fá trygginguna).

Meðal frábærra vinninga í ár

Mitsubishi Lancer Sedan að verðmæti kr. 3.640 þús.
Mitsubishi Colt, 5 dyra að verðmæti kr. 2.390 þús.
30 ferðavinningar að verðmæti kr. 500 þús.með
Heimsferðum
100 ferðavinningar, hver að verðmæti kr. 250 þús. með Heimsferðum.
75 gistingar hjá Fosshótel, hver að verðmæti kr. 60 þús.

Samtals eru 207 skattfrjálsir vinningar að verðmæti 50,5 milljónir króna.

Útdráttur

Vinningar verða dregnir út föstudaginn 12 júní. Upplýsingasími er 525 0000              . Vinningaskrá verður birt á heimasíðu Blindrafélagsins og á síðu 290 í textavarpi sjónvarpsins. Einnig getur fólk hring til Blindrafélagsins og gefið upp kennitöluna sína og fengið upplýsingar um hvort það hafi unnið.
Útgefnir miðar eru samtals 156000. Vininga ber að  vitja innan árs frá útdrætti.  

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Börn og ungmenni

Á Íslandi eru á annað hundrað börn og ungmenni sem eru sjónskert (minna en 30% sjón) eða blind. Blindrafélagið berst fyrir því að þeim gefist kostur á sömu menntunarmöguleikum og jafnöldrum þeirra stendur til boða. Er það m.a. gert með því að styrkja fjárhagslega fagfólk til náms til að kenna og leiðbeina um kennslu blindra og sjónskertra einstaklinga.

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Að vera virkur í samfélaginu

Einstaklingum sem eru á virkum atvinnualdri og eru blindir eða sjónskertir er jafn mikilvægt og öðrum að taka virkan þátt í samfélaginu með atvinnuþátttöku og geta lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi.Blindrafélagið leggur sitt af mörkum til að svo megi vera t.d. með fræðslu, ráðgjöf, akstursþjónustu, leiðsöguhundum, námsstyrkjum og öðrum stuðningi sem leitað er eftir.

Áherslur í starfi Blindrafélagsins - Eldri borgarar

Stærsti hópur blindra og sjónskertra á Íslandi eru eldri borgarar. Blindrafélagið leggur á það mikla áherslu að sjónskerðingin verði ekki til þess að þeir einangrist. Meðal annars heldur Blindrafélagið úti ferðaþjónustu, ráðgjöf, trúnaðarmannkerfi, hljóðmiðlaútgáfu og félagslífi sem sérstaklega er sniðið að þörfum blindra og sjónskertra eldri borgara.


Ráðningar og starfslýsingar - Ályktun stjórnar Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi

"Félagsfundur í Blindrafélaginu haldinn 26. mars að Hamrahlíð 17 lýsir furðu sinni og undrun á ráðningu starfsmanns sem á að sjá um gerð blindraletursefnis við Þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga. Þar var umsækjanda sem gjör þekkir blindraletrið og hefur unnið um áratugaskeið að þróun þess hafnað.
Fundurinn felur stjórn félagsins að fylgja þessari ályktun eftir og fer fram á rökstuðning fyrir því af hverju viðkomandi einstaklingi var hafnað. Félagsfundurinn álítur að þar hafi nýr sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun verið þver brotinn. Félagsfundurinn minnir á kjörorð Öryrkjabandalagsins Ekkert um okkur án okkar".

Stjórn félagsins hefur kynnt sér athugasemdir sem gerðar hafa verið við ráðninguna og rökstuðning settan fram af Þjónustu og þekkingarmiðstöðinni fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Í rökstuðningi miðstöðvarinnar kemur m.a. fram að á stjórnvöldum hvíli sú skylda að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi og felst í rökstuðningi miðstöðvarinnar að það hafi verið gert.

Úr lögum um málefni fatlaðra

Í 31 grein laga um málefni fatlaðra númer 59 frá 1992 segir:

"Fatlaðir skulu eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sé að mati svæðisráðs gengið á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs getur það krafið veitingarvaldhafa um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni í sambandi við stöðuveitinguna."

Hæfi og starfslýsingar

Þegar verið er að ráða í störf sem að snúa að vinnu og þjónustu við fatlaða einstaklinga þá hlýtur sú spurning að vakna að hve miklu leyti stjórnvöld meta til hæfni reynslu af því að vera fatlaður og þekkingu á málefnum þeirra hópa sem verið er að þjónusta. Það má vera ljóst að í mörgum tilvikum getur þar verið um að ræða mikilvæga eiginleika sem geta nýst í starfi betur en formlega menntun. Jafnframt er ljóst að stjórnvaldi er í lófa lagið að setja upp þannig hæfiskilyrði að fatlaðir einstaklingar eigi ekki möguleika á ráðningu og að rökstuðningi stjórnvaldsins verði ekki hnekkt út frá þeim hæfiskilyrðum sem sett voru.

 Í auglýsingu um umrætt starf virðist vera sem þeir verkþættir sem tilheyra umræddu starfi séu margir þess eðlis að blindur eða sjónskertur einstaklingur ætti að geta sinnt þeim. Einnig eru þar verkþættir sem blindum einstaklingi er nánast ófært að sinna. Það verður ekki séð af verklýsingu umrædds starfs að hið opinbera hafi gert hina minnstu tilraun til að móta þarna starf sem blindir eða sjónskertir einstaklingar hefðu geta notið jafnræðis við að sækja um.

Samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Hér á landi er nú unnið að innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en Ísland hefur skrifað undir sáttmálann. Í 27 grein sáttmálans, sem fjallar um vinnu og starf,  eru taldar upp skyldur aðildarríkjanna, en þær eru :

  • a)    að leggja bann við mismunun sakir fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, m.a. nýskráningar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,
  • b)    að vernda rétt fatlaðra, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra skilyrða í starfi, m.a. jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þ.m.t. vernd gegn stöðugri áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,
  • c)     að tryggja að fötluðum sé gert kleift að nýta sér atvinnuréttindi sín og réttindi sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,
  • d)    að gera fötluðum kleift að hafa með virkum hætti aðgang að tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfsþjálfun og símenntun sem almenningi stendur til boða,
  • e)    að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlaða og stuðla að starfsframa þeirra á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað,
  • f)      að stuðla að tækifærum til að starfa sjálfstætt, fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur, þróa samvinnufélög og hefja eigin starfsemi,
  • g)    að ráða fatlaða til starfa innan opinbera geirans,
  • h)    að stuðla að því að fatlaðir verði ráðnir til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í uppbyggilegum aðgerðaáætlunum, hvatningu og öðrum aðgerðum,
  • i)       að tryggja að viðeigandi hagræðing fari fram í þágu fatlaðra á vinnustað,
  • j)      að stuðla að því að fatlaðir geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,
  • k)     að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðra, að því að þeir haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að þeir geti snúið aftur til starfa.

Stefnumörkun Blindrafélagsins

Stjórn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, skorar á allar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem starfa að málefnum fatlaðra að setja sér það markmið að starfsþáttum sé þannig raðað saman til geti orðið störf sem henta fötluðum starfsmönnum. Í þessu felst að leytast skuli eftir því að fremsta megni að hagræða í þágu fatlaðra þannig að  ekki séu í starfslýsingum starfsþættir sem fela í sér hindranir sem valda því að fatlaður einstaklingur eigi ekki möguleika á að vera metinn hæfur.


Samþykkt á fundi stjórnar Blindrafélagsins þann 2 apríl 2006.


Styrkir í kreppunni

Stjórnir Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi og Blindravinafélags Íslands auglýstu til úthlutunar styrki fyrir fagfólki sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra. Styrkjunum er ætlað að gefa umsækjendum kost á að taka þátt í ráðstefnum, námsstefnum, námsskeiðum, sýningum og e.t.v. öðrum faglegum viðburðum erlendis sem eru til þess fallnir að auka fagþekkingu viðkomandi og þar af leiðandi færni í starfi.

Flest fagfólk sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra starfar hjá opinberum stofnunum, en eins og flestir vita hafa þessar opinberu stofnanir þurft að skera að mestu niður námsferðir starfsmanna sinna til útlanda. Með því að auglýsa þessa styrki nú, vilja Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands leggja sitt af mörkum til þess að fagfólk geti haldið áfram að sækja mikilvæga viðburði. Hver styrkur er að hámarki kr. 150.000 og eingöngu verða veittir styrkir vegna viðburða á tímabilinu apríl – desember 2009. Umsóknarfrestur var til 31. mars.

Alls bárust 8 umsóknir upp á samtals  1.140 þúsund krónur. Umsóknirnar voru allar metnar gildar og samþykktu stjórnir Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins allar styrkumsóknirnar.

Um er að ræða tvo styrki til starfsmanna Blindrabókasafnsins til að sækja ráðstefnu IFLA (International federation of library Association) í Belgíu og Hollandi. Tvo styrki til kennara í Hofstaðaskóla sem vinna við kennslu blinds nemenda í skólanum, til að sækja námskeið í Noregi þar sem m.a. er kennt blindraletur, stærðfræði ADL ofl. Tvo styrki til starfsmanna Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til að sækja norræna ráðstefnu fyrir ráðgjafa sem vinna með blindu og sjónskertu fólki, ráðstefnan er haldin annað til þriðja hvert ár. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til sækja íþróttasumarbúðir fyrir blind og sjónskert börn í Bandaríkjunum undir leiðsögn Dr. Lauren Liberman sem er mjög framarlega í rannsóknum á þátttöku blindra og sjónskertra barna í íþróttum og hreyfingu. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar og fulltrúa Íslands í NOVIR nefndinni, til að sækja fund hjá nefndinni í Noregi, nefndin er samnorrænn vettvangur starfsmanna þjónustu og þekkingarmiðstöðva á norðurlöndunum.

Það er von stjórna Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins að þátttaka fagfólks í þessum viðburðum eigi eftir að styrkja þjónustu og fræðslu gagnvart blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi og skapa og efla tengslanet sem vonandi eiga eftir að vera gagnleg til framtíðar litið.


Landlæknisembættið og aðgengishindranir

Alveg hreint merkilegt að Landlæknisembættið láti svona vef frá sér þar sem 0% hefur verið tekið tillit til t.d. sjónskertra, blindra eða hreyfihamlaðra!!!!! 

http://www.heilsuvefsja.is/ 

 

Það er ekki ásættanlegt að Landlæknisembættið taki ekkert tillit til stefnumörkunar stjórnvalda varðandi jafnt aðgengi að upplýsingasamfélaginu. 

 

Blindrafélagið hefur þegar gert formlega athugasemd við Landlæknisembættið með bréfi sem sjá má hér fyrir neðan.

 

 

"Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi hefur borist ábending varðandi aðgengishindranir að vefsíðunni:  http://www.heilsuvefsja.is/  Það liggur fyrir opinber stefnumörkun frá ríkisstjórn Íslands um aðgengismál á vefnum, sem m.a. birtist í tillögum sem settar voru fram árið 2006: http://www.ut.is/adgengi/Itarefni/  „Tryggt verði að rafræn þjónusta opinberra aðila taki mið af þörfum ólíkra hópa, s.s. blindra, sjónskertra og fatlaðra. Fyrirtæki verði hvött til að gera hið sama“.  Varðandi aðgengismál á vefnum þá gilda um þau ákveðnir staðlar sem notaðir eru til skilgreiningar. Þessir staðlar og skilgreiningar eru verkfæri sem vefforritarar eiga þekkja. Það er hinsvegar stefnumörkun ráðamanna vefsvæða sem ræður því hvort litið er til þess að almennar kröfur um aðgengi eru virtar að vettugi eða ekki.  ÖBÍ og SJÁ gefa sameiginlega út aðgengisvottun á vefsvæði.  Þeir alþjóðlegu staðla/gátlistar sem í þeirri vinnu eru notaðir, eru þeir sömu og stjórnarráðið (http://www.ut.is/adgengi) leggur til grundvallar varðandi  aðgengi á vefjum. Þá m.a. finna hér: http://www.w3.org/WAI/intro/wcag.php http://www.w3.org/WAI/WCAG20/quickref/ http://www.w3.org/WAI/gettingstarted/Overview.html  Þessir staðlar og gátlistar eru öllum opnir og án endurgjalds.  Þegar vefir eru vottaðir af SJÁ og ÖBÍ er farið ítarlega yfir vefina og þá eru hafðir til hliðsjónar þessir gátlistar. Þá er einnig farið yfir vefina með þeim búnaði sem fatlaðir notendur þurfa til að notfæra sér vefina. Það þarf þó alls ekki að votta vefi til að þeir séu aðgengilegir og má komast ansi langt með því að fylgja þeim stöðlum sem eru í gangi.  Hér má finna allar nánari upplýsingar varðandi kóða á vefjum o.fl. Þetta eru allt upplýsingar sem forritarar þekkja yfirleitt: http://www.w3.org/  Einnig má nefna að í mörgum tilfellum er hægt að gera vefi aðgengilega í samvinnu við þau vefumsjónarkerfi sem vefurinn heyrir undir og oft eru þessi atriði smíðuð í vefina frá upphafi.  Ef ekki hefur verið hugað að þessu frá byrjun, er oft hægt að hafa samband við þá aðila sem hafa með vefumsjónarkerfið að gera og fá ráðgjöf þeirra, þeir eiga að vera með þetta á hreinu.  Það sem helst hindrar aðgengi fatlaðra notenda að vefsvæðum er:
  • ALT texta vantar á myndir.
  • Mikilvægt efni er notað sem Flash myndir eða PDF.
  • Skerpa leturs og bakgrunns er ekki nægileg.
  • Ekki er hægt að stækka letur á vefnum.
  • Ekki er hægt að nota TAB lykil eingöngu.
  • Fyrirsagnir ekki rétt skilgreindar.
  • Tenglaheiti ekki nægilega skýr.
  • Flýtileiðir ekki í boði.
  • Málfar er óþarflega þungt og flókið.
Kröfur um aðgengi allra að upplýsingasamfélaginu fara vaxandi. Bætt aðgengi nýtist öllu samfélaginu, ekki eingöngu þeim sem eru fatlaðir. Hér er því um mikilvægt hagsmunamál að ræða sem snýr að mannréttindum og um leið að þeirri ímynd sem eigendur vefsvæða vilja gefa af starfsemi sinn og þeim gildum sem hún byggir á. Virðingarfyllst,  f.h. Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, Kristinn Halldór Einarsson,  formaður

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband