Styrkir í kreppunni

Stjórnir Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi og Blindravinafélags Íslands auglýstu til úthlutunar styrki fyrir fagfólki sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra. Styrkjunum er ætlað að gefa umsækjendum kost á að taka þátt í ráðstefnum, námsstefnum, námsskeiðum, sýningum og e.t.v. öðrum faglegum viðburðum erlendis sem eru til þess fallnir að auka fagþekkingu viðkomandi og þar af leiðandi færni í starfi.

Flest fagfólk sem vinnur að málefnum blindra og sjónskertra starfar hjá opinberum stofnunum, en eins og flestir vita hafa þessar opinberu stofnanir þurft að skera að mestu niður námsferðir starfsmanna sinna til útlanda. Með því að auglýsa þessa styrki nú, vilja Blindrafélagið og Blindravinafélag Íslands leggja sitt af mörkum til þess að fagfólk geti haldið áfram að sækja mikilvæga viðburði. Hver styrkur er að hámarki kr. 150.000 og eingöngu verða veittir styrkir vegna viðburða á tímabilinu apríl – desember 2009. Umsóknarfrestur var til 31. mars.

Alls bárust 8 umsóknir upp á samtals  1.140 þúsund krónur. Umsóknirnar voru allar metnar gildar og samþykktu stjórnir Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins allar styrkumsóknirnar.

Um er að ræða tvo styrki til starfsmanna Blindrabókasafnsins til að sækja ráðstefnu IFLA (International federation of library Association) í Belgíu og Hollandi. Tvo styrki til kennara í Hofstaðaskóla sem vinna við kennslu blinds nemenda í skólanum, til að sækja námskeið í Noregi þar sem m.a. er kennt blindraletur, stærðfræði ADL ofl. Tvo styrki til starfsmanna Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til að sækja norræna ráðstefnu fyrir ráðgjafa sem vinna með blindu og sjónskertu fólki, ráðstefnan er haldin annað til þriðja hvert ár. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar til sækja íþróttasumarbúðir fyrir blind og sjónskert börn í Bandaríkjunum undir leiðsögn Dr. Lauren Liberman sem er mjög framarlega í rannsóknum á þátttöku blindra og sjónskertra barna í íþróttum og hreyfingu. Einn styrk til starfsmanns Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar og fulltrúa Íslands í NOVIR nefndinni, til að sækja fund hjá nefndinni í Noregi, nefndin er samnorrænn vettvangur starfsmanna þjónustu og þekkingarmiðstöðva á norðurlöndunum.

Það er von stjórna Blindrafélagsins og Blindravinafélagsins að þátttaka fagfólks í þessum viðburðum eigi eftir að styrkja þjónustu og fræðslu gagnvart blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi og skapa og efla tengslanet sem vonandi eiga eftir að vera gagnleg til framtíðar litið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband