Öryggi og sjálfstæði - Dagur hvíta stafsins 15 október

Hvíti stafurinn er ekki eingöngu tákn fyrir blinda til að láta samfélagið vita af því að viðkomandi sé blindur. Hvíti stafurinn er mikilvægt öryggistæki sem blindir jafnt sem sjónskertir einstaklingar nýta sér og  gefur þeim færi á að fara á milli staða sem sjálfstæðir einstaklingar. Út um allan heim er Hvíti stafurinn mest notaða öryggistæki sem blindir og sjónskertir nota á ferðum sínum um leið og hann er tákn sjálfstæðis.

 Í hugum margra eru Hvíti stafurinn fyrst og fremst fyrir þá sem eru blindir. Á Íslandi eru um 1400 manns blindir eða sjónskertir. Að vera sjónskertur er að vera með 30% sjón eða minna. Af þessum 1400 eru um 100 alblindir. Sjónskerðing getur lýst sér á margvíslegan hátt. Sjónskerpan er það sem flestum dettur í hug þegar sjón er nefnd, enda veigamikill hluti sjónarinnar. Þegar sjónskerpa er komin niður fyrir í 10%, 6/60 þýðir það að viðkomandi einstaklingur sér á 6 metra færi það sem fullsjáandi einstaklingur sér á 60 metra færi.  En sjón er meira en það. Hliðarsjón er ekki síður mikilvæg. Hún gerir mönnum kleift að rata um og skynja hreyfingar útundan sér. Þá má nefna Ijósnæmi og rökkuraðlögun. Náttblinda er vel þekkt einkenni vissra augnsjúkdóma og getur háð mönnum verulega og svo er það svo litarskynjunin. Einstaklingar sem eru með vissa augnsjúkdóma geta við ákveðnar aðstæður hegðað sér eins og fullsjándi einstaklingar og orðið svo nánast bjargarlausir við aðrar aðstæður.  Þannig getur einstaklingur sem hefur mjög takmarkað sjónsvið, 10° eða minna, haft góða skerpu í þessum 10°, og því verið fær um að lesa. Viðkomandi einstaklingur getur hinsvegar lent í vandræðum með að rata eða athafna sig, sérstaklega  í þrengslum og oft verið klaufalegur í hegðun. Einstaklingar sem tapa miðjusjón en halda hliðarsjón geta átt auðvelt með að ferðast um, en geta svo lent í vandræðum með að þekkja fólk og geta virst á stundum aldrei horfa framan í þann sem verið er að tala við.  Birtingamyndir alvarlegra sjónskerðingar geta verið margar og það er ekki ástæða til að ætlað að einstaklingur sem gengur með hvítan staf, sest svo niður og fer að lesa dagblað, sé að villa á sér heimildir.

Eins mikilvægt öryggistæki og Hvíti stafurinn getur verið blindum og sjónskertum þá eru eftir sem áður ýmsar slysahættur í umhverfinu sem mætti draga úr. Þetta eru slysahættur sem allir hafa hag af því að hugað sé að.  Þar má t.d. nefna: 
að hljóðmerki á göngljós ættu að vera ófrávíkjanleg regla,  
að notast verði við upphleyft merki og sterkar andstæður í litanotkun til að vara við tröppum, 
að vanda frágang á aðvörunum vegna framkvæmda á götum og gangstéttum, 
að bílstjórara noti ekki gangstéttar sem bílastæði,
að gangstéttar séu ekki notaðar til að moka snjó af götum á.
 
Þegar fjallað er um aðgengismál þá er mikilvægt að hafa í huga að bætt aðgengi kemur öllum til góða og þá ekki síst eldri borgurum. Mikilvægt er einnig að hafa í huga í öllum hönnunarferlum að taka tillit til aðgengismála. Víða erlendis eru aðgegnismál komin inn í löggjöf þannig að fyrirtæki og stofnanir geta skapað sér skaðabótaábyrgð ef aðgengismál eru ekki í lagi.

Að mati sjónskertra og blindra einstaklinga sem hafa samanburð á búsetu hérlendis og erlendis eru aðgengismál hér á landi í mörgum tilvikum töluvert langt á eftir því sem gerist meðal frændþjóða okkar.  Aðgengismál eru hinsvegar eilífarverkefni sem sífellt þarf að vera vinna í og þar er kynning á því sem betur má fara mjög mikilvæg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Sæll Kristinn Halldór.

Til hamingju með formennskuna. Ég veit að þú átt eftir að standa þig vel á þessum vettvangi. Ég bið að heilsa Arnþóri Helgasyni vini mínum. Hann sýndi mér er við ferðuðumst saman hversu ótrúlega sjálfstæðir blindir og sjónskertir geta verið þrátt fyrir þessa alvarlegu fötlun.

Kær kveðja frá heimabænum. Gummi

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 16.10.2008 kl. 10:01

2 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Takk kærlega fyrir góðar kveðjur Gummi.

Bestu kveðjur á heimaslóðir

Kristinn Halldór Einarsson, 16.10.2008 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband