Fjórir leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskerta afhentir notendum sínum.

Í dag, föstudaginn 12. september voru 4 leiðsöguhundar fyrir blinda og sjónskera einstaklinga afhentir notendum sínum við hátíðlega athöfn í húsakynnum Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.

Auk mín fluttu fluttu ávörp Guðlaugur Þórðarson Heilbrigðisráðherra, Daníel G. Björnsson fjölumdæmisstjóro Lions og Helena Björnsdóttir, íslenskur leiðsöguhundanotandi búsett í Noregi. Þessir aðilar afhentu einnig hundana til notenda sinna, Þeirra Alexanders Hrafnkelssonar sem fékk hundinn Exo, Friðgeirs Jóhanessonar sem fékk hundinn Exit, Guðlaugar Erlendsdóttur sem fékk hundinn Elan og Lilju Sveinsdóttur sem fékk hundinn Asitu. 

CIMG3333

Hundarnir hafa verið þjálfaðir í hundaskóla norsku blindrasamtakanna og hefur þjálfun þeirra tekið u.þ.b. eitt ár.

Þann 8. maí 2007 undirritaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir, samkomulag við Blindrafélagið um styrk til að kaupa og þjálfa fimm leiðsöguhunda fyrir blinda og sjónskerta en upphæð styrksins átti að dekka kaupverð hundanna í Noregi og þjálfunarkostnað þeirra þar.

Strax var hafinn undirbúningur verkefnisins og í júní 2007 fór 6 manna hópur blindra og sjónskertra til Noregs og tók þátt í undirbúningsnámskeiði þar sem 4 þeirra voru valdir hæfir og tilbúnir til að taka við leiðsöguhundi, en hver hundur er valinn sérstaklega fyrir væntanlegan notanda þar sem taka þarf tillit til gönguhraða beggja auk ýmissa annarra þátta. Þegar búið var að velja hundanna fyrir væntanlega notendur hófst eiginleg þjálfun þeirra og síðan voru þeir fluttir til Íslands í lok júlí s.l. þar sem 4 vikna dvöl í sóttkví tók við. Í lok ágúst losnuðu hundarnir úr sóttkvínni og hófst þá tveggja vikna stíf samþjálfun hundanna og notenda þeirra. Samþjálfunin fór fram að Nýjabæ í Flóa og dvöldu notendurnir þar allan þjálfunartímann.  Samþjálfuninni  stjórnuðu tveir þjálfarar frá norska hundaskólanum og nutu þeir aðstoðar tveggja íslenskra þjálfara.

Í dag er mikil gleðistund í lífi leiðsöguhundanotendanna, þegar þeir taka formlega við hundum sínum, en ef vel tekst til, má ætla að hundurinn verði félagi og samstarfsaðili notanda síns næstu 10 árin.

Þjálfun á hverjum leiðsöguhundi fyrir blinda og sjónskerta kostar alls um 5 - 6 milljónir króna og því er verkefni sem þetta nánast ókleift án aðkomu hins opinbera. Markmiðið hlýtur að vera að leiðsöguhundar verði flokkaðir sem hjálpartæki og lítur Blindrafélagið á samkomulagið við Heilbrigðisráðuneytið sem fyrsta skrefið á þeirri braut. Auk Heilbrigðisráðuneytisins hefur Lionshreyfingin á Íslandi lagt þessu verkefni öflugt lið en tekjur af sölu Rauðu fjaðrarinnar í vor, alls 12,5 milljónir króna, runnu til þessa verkefnis. Þess vegna hefur verið ákveðið að fá til landsins tvo hunda til viðbótar sem munu koma á næsta ári, en fjórir einstaklingar hafa lýst áhuga sínum að fá þá hunda.

Blindrafélagið vill hvetja fólk til að sýna leiðsöguhundunum og notendum þeirra skilning og tillitssemi á ferðum þeirra og minnir á að leiðsöguhundar eru ekki gæludýr heldur nauðsynlegt hjálpartæki.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband