Að sjá illa en líða vel

Fimmtudaginn 12 júní var Krister Inde með fyrirlestur að Hamrahlíð 17, sem hann byggir á bók sem hann skrifaði fyrir 5 árum síðan og heitir: "Að sjá illa en líða vel". Bókina má nálgast á pdf skjali eða sem hljóðbók á heimasíðu Blindrafélagsins http://www.blind.is/Innanfelagsefni/

Krister Inde starfar að málefnum blindra og sjónskertra hjá Certec við Lundarháskóla í Svíþjóð. Hann er sjálfur sjónskertur og skrifar bókina út frá eigin reynslu. Bókin hefur nú verið þýdd á fimm tungumál.

Í fyrirlestrinum, sem var vel sóttur, fjallaði Krister um hvaða áhrif það hafði á hann, tilfnngalíf og sjálfsmynd, að fá þær fréttir sem ungur maður að hann væri með ólæknandi genetískan augnsjúkdóm, sem engin lækning væri til við. Og að hann myndi þurfa að búa við alvarlega sjónskerðingu allt sitt líf. Krister fór í gegnum mikilvægi þess að leyfa sorgarferlinu að eiga sinn gang og að því loknu gera sér grein fyri því að þó svo sjónin væri lítil þá gæti hver og einn lifað innihaldsríku lífi og liðið vel. Mikilvægt væri í því sambandi að gera sér grein fyrir því að þó sjónin væri orðið döpur þá væri maður eftir sem áður sami einstaklingurinn.  Hefði sömu þrárnar, sömu áhugamálin, ætti sömu fjölskylduna og langaði - og gæti - ennþá að gera margt af því sama eftir sem áður. Krister talaði jafnframt um mikilvægi þess að þeir sem væru í þeim sporum að fá fréttir af því að allt stefni í að þeir verði alvarlega sjónskertir, séu ófeimnir að leita sér að þeim augnlækni sem þeim finnist að þeir geti treyst og muni jafnframt svala þörf þeirra fyrir þá fræðslu sem þeir telja sig þurfa. Hver einstaklingur hefur sínar eigin þarfir sem mikilvægt er að uppfylla þegar kemur að því að takast á við það að tapa sjóninni.  Þegar sorgarferlinu lýkur - og því verður að ljúka - þá verður hver og einn að finna sína leið til að vera virkur í samfélaginu til að geta lifað innihaldsríku lífi.  

Að þekkja styrkleika sína og veikleika er öllum mikilvægt. Krister talaði um um gott gæti verið að fara í gegnum það, með t.d. góðum vini,  í hverjum maður væri góður í og skrifa það niður á blað og eins í hverju maður væri ekki góður í. Það gæti hjálpað við að gera sér grein fyrri styrkleikum manns og veikleikum. 

Krister lagði á það áherslu að sú gryfja, að kenna einhverju(m) um sjónmissinn, leiddi til þess að viðkomandi endaði upp sem fórnarlamb og það væri slæmt hlutskipti. Hann sem miðaldra maður, 61 árs að aldri, sagði að hann gæti ekki ímyndað sér neitt verra heldur en að vera  BSS miðaldra maður. Það er: Bitur út í hlutskipti sitt, með Sektarkennd vegna þess að hann er ekki eins góð manneskja og hann gæti verið og haldinn Sjálfsvorkunn i fórnarlambshlutverkinu. Krister lagði áherslu á að hann bæri ábyrgð á því hvernig komið væri fram við hann og að hann bæri jafnframt ábyrgð á eigin líðan.

Krister sagði að hann væri ekki að fjall um stöðu þeirra sem væru blindir heldur væri hann fyrst og fremst að lýsa sinni reynslu frá því að hann var um tvítugt og fékk þær fréttir að hann væri með ólæknandi augnsjúkdóm og hvernig hann hefði tekist á við að vinna úr því. Hann sagði frá því að eitt af því sem ræki hann áfram væri að fá sjónskerta einstakling til að koma út úr skápnum, viðurkenna sjónskerðingu sína fyrir sjálfum sér og samfélaginu, vera óhrædda að nota þau hjálpartæki sem þeir þyrftu, hvar og hvenær sem er, og segja við sjálfa sig og samfélagið: Ég er jafngóður og ég var, það eru bara augun mín sem sjá ekki jafn vel og áður. Vitsmunalega og tilfinningalega er ég sá sami. Ég sé illa en mér líður vel.

Þessi stutta endursögn getur engan veginn dekkað um klukkustunda langan léttan og skemmtilegan fyrrilestur, en varpar þó vonandi ljósi á þær áherslur sem voru í máli Kristers. Þeir sem vilja kynnast viðhorfum Kristers betur bendi á  bókin á heimsíðu Blindrafélagsins.

Það er eins með viðhorf Kristers Inde í þessum efnum og allra annarra, enginn hefur rétt til að segjast hafa höndlað Sannleikann. Skoðanaskipti um viðhorf og hugmyndir eru ávalt til góða séu þau sett fram á málefnalegan hátt.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband